Ég talaði um það, um daginn, að setja inn smá kökuskreytingarkennslu. Ég bakaði nokkrar súkkulaðimúffur í gær, og skreytti þær með einfaldri rós.
Þú þarft stút, svipaðan þeim sem er á myndinni hér fyrir ofan. Þegar ég skreyti múffur, nota ég yfirleitt svolítið stóra stúta því mér finnst rósirnar verða fallegri.
Súturinn á myndinni er ódýr stútur úr plasti, keyptur í Bónus (minnir mig). Ég á líka dýrari stúta frá Wilton, og ég verð að viðurkenna að mér finnst útkoman yfirleitt fallegri þegar ég nota þá. Þú getur borið saman þessar rósir við þær í póstinum um heimatilbúið mömmukaffi. Ég notaði sama krem á kökurnar í hinum póstinum - en Wilton stútana.
Það er mikilvægt að byrja í miðjunni. Þú kreistir svo pokann með kreminu bara varlega.
Síðan sprautar þú kreminu hring eftir hring, eins og í spíral.
Ótrúlega einfalt. Þú getur þetta alveg. Ég var innan við tvær mínútur að skreyta tólf kökur. Pís of keik!
Ég sá það ekki fyrr en ég skoðaði myndirnar núna, hvað rósamynstrið sést illa. Ég set kannski inn skýrari myndir þegar ég geri svona næst :)
Kveðja, Hanna
P.s. Það er svo sem spurning hvort ég kaupi ekki bráðum síma með betri myndavél. Mælir þú með einhverjum?