Ég gerði rosa góðan lax í kvöld. Ég hugsa að þessi réttur sé sá einfaldasti sem ég kann, og ábyggilega sá hollasti líka.Ég nota lax, tilbúna marineringu, kartöflur og ferskt grænmeti.
Marineringin heitir BBQmarinade garlic og er frá Santa Maria. Hún sést á myndinni hér fyrir ofan. Ég veit ekki hvort hún fæst á Íslandi, þú mátt endilega láta mig vita ef þú veist það. Ég hef notað alls konar BBQ marineringar til að gera þennan rétt. Þú getur eflaust notað einhverja aðra ef þú finnur þessa ekki.
Ég byrja á því að setja kartöflurnar í suðu.
Svo sný ég mér að fiskinum. Ég set hann, ásamt marineringunni í skál og passa að þekja fiskinn vel. Litli hjálparkokkurinn minn fékk að aðstoða við það í dag :) Hann stóð sig frábærlega eins og sést á myndinni :)
Síðan sker ég niður smá grænmeti til að hafa með. Í dag var það jöklasalat, graslaukur og gulrætur. Það er líka um að gera að leggja á borð á meðan beðið er eftir kartöflunum. Jafnvel hægt að sópa gólfið :)
Þegar kartöflunar eru alveg að verða tilbúnar steiki ég fiskinn í u.þ.b. 5-7 mínútur á hvorri hlið.
Síðast helli ég vatninu af kartöflunum, og skelli þeim á pönnuna í u.þ.b. 1-2 mínútur, bara til að nýta mareneringuna sem er eftir á pönnunni.
Þá er þetta tilbúið og ég segi "Gjörið svo vel" við fallegu fjölskylduna mína :)
Kveðja, Hanna