Tuesday, September 23, 2014

Ég er feministi

Ég er feministi. 

Ef þér líður betur með það, máttu kalla mig jafnréttissinna í staðinn. Mér er sama, því fyrir mér er feminsti í raun bara ein tegund jafnréttissinna. Ég er allskonar jafnréttissinni.


Ég er ein þeirra hundruð þúsunda sem hafa hlustað á ræðu Emma Watson  á þingi UN Women og mér fannst hún frábær. Mér finnst He for She frábært framtak. Eftirfarandi fjallar þó ekki beint um það. 

Þegar ég sat og horfði á ræðuna í dag sagði við mig einstaklingur að sér þætti ræðan ekkert merkileg. Helst til hype-uð sökuð þess að hana flutti fræg ung leikkona en að ræðan fjallaði í raun ekki um stóru málin. Viðkomandi hafði ekki hlustað á alla ræðuna.

Viðkomandi bætti síðan við að jafnrétti kynjanna í hinum vestræna heimi væri þegar svo gott sem náð, og nú væri tími til kominn að hætta að eyða púðrinu í smáatriði. Karlar og konur hafa sama lagalega rétt, njóta sömu virðingar í samfélaginu og bjóðast sömu tækifæri. Ég hef svo sem heyrt þetta áður. Mig grunar reyndar að Bríeti Bjarnhéðinsdóttur hafi einnig verið bent á að jafnrétti væri náð löngu fyrir þarsíðustu aldamót.


Fyrrnefndum einstaklingi finnst að sökum þess hve langt við erum komin í jafnréttisbaráttunni ættum við í staðinn að beita okkur af öllum hug og hjarta fyrir systur okkur sem hafa það virkilega slæmt. Þeim sem ekki hafa notið sömu forréttinda og ég. Þeim sem ekki lifa við það sem mér þykja sjálfsögð mannréttindi. Þeim sem ekki eru hluti þjóðar sem er komin miklu lengra í jafnréttisbaráttunni en margar aðrar þjóðir heimsins.


Mér er þá spurn, hvað um menntastuðul okkar? Við ættum kannski að hætta að vinna að því að hækka hann, enda er hann orðinn mjög hár í samnburði við mörg önnur lönd? Í staðinn ættum við kannski öll að beita okkur af öllum krafti fyrir því að hækka menntastuðul þeirra sem ekki hafa haft sömu tækifæri til náms?

Nei, ætli við séum ekki betur í stakk búin að aðstoða aðra samhliða því að við lærum meira sjálf?


Ok, en húsin okkar? Þau eru mun betri og öruggari en hús í mörgum öðrum hlutum heimsins. Við ættum kannski að hætta að velta okkur uppúr smáatriðum, í bili, og hætta að vinna að því að byggja betri hús þangað til að hús í öllum öðrum heimshlutum eru orðin jafn góð? Gæðastuðull íslenskra bygginga eru alveg miklu meira en nógu góður í samanburði við gæðastuðul bygginga margra annarra fátækari landa.

Nei, ætli það sé nokkuð svarið? Stöðug þróun einfaldari, öruggari og betri bygginga mun líklega hafa meiri og betri áhrif til framtíðar jafnt á Íslandi sem annarsstaðar í heiminum.


Hvað með íslenskt réttarkerfi? Það er náttúrulega ekkert vit í að vera að eyða púðri í að betrumbæta það þegar það eru ennþá svona mörg lönd sem vantar grunnstoðir þess sem við teljum nauðsynlegt fyrir mannúðlegt og réttlátt kerfi sem byggir á mannvirðingu og mannréttindum. Við ættum í raun bara að þakka fyrir að hafa það svona gott, og halda svo þróununni áfram þegar við erum búin sjá til þess að allsstaðar í heiminum sé a.m.k. jafn gott réttarkerfi. Er það ekki?

Æ, ég er efins. Eru ekki stöðugar betrumbætur forsenda þess að slíkt kerfi gangi upp og sé eins gott og kostur er? Hvernig ættum við að aðstoða aðra ef okkar eigið kerfi færi í mola?


Ef við snúum okkur þá aftur að kynjajafnréttisbaráttunni. Við erum vissulega komin mun lengra en margar aðrar þjóðir í henni. Ættum við að setja hana á bið, „hætta að eyða púðri í smáatriðin“, og einbeita okkur einungis að því að aðrar þjóðir nái sama árangri?

Getur kannski verið að með hverju skrefi sem við tökum í átt að jöfnuði kynjanna séum við betur í stakk búin að láta gott af okkur leiða? Ef Ísland ætti fleiri en 350.000 feminista, ætli þeir gætu ekki haft stórtæk áhrif utan landsteinanna? Ef jafnrétti kynjanna á Íslandi verður náð, lagalega sem félagslega, verðum við þá ekki einstakt fordæmi og innblástur fyrir aðrar þjóðir? 

Eru kannski „smáatriðin“ (eins og t.d. að stöðva hlutgervingu kvenna í fjölmiðlum, og að veita feðrum sama rétt og mæðrum til að umgangast börnin sín) einmitt það sem við þurfum að eyða púðri í til að geta hjálpað systrum okkar (og bræðrum) sem enn í dag fá ekki að njóta þess sem okkur þykja sjálfsögð mannréttindi á grundvelli kyns síns?

Ég er enn feministi. Ég ætla að halda áfram að taka þátt í jafréttisbaráttu kynjanna, þangað til raunverulegum jöfnuði hefur verið náð.


Kveðja, Hanna