Tuesday, November 26, 2013

KitchenAid

Frú KitchenAid að þeyta kókosrjóma :)

Mig hefur aldrei langað jafn mikið, eða jafn lengi, í nokkurn hlut, eins og mig langaði í glansandi rauða KitchenAid hrærivél. Þú getur rétt ímyndað þér hvað ég varð glöð þegar ég fékk hana í útskriftargjöf eftir sálfræðinámið frá elsku mömmu minni og Maríusi. Reyndar fór ég fyrst að hágráta - en svo hoppaði ég um af kæti - í nokkra daga :) Mig var búið að langa í hana svo lengi. Alveg frá því ég sá hana fyrst.

Ég var löngu búin að ákveða að ég myndi eignast hana einn daginn en mér datt ekki í hug að það yrði svona fljótt - og hvað þá að einhver myndi gefa mér hana. Ég get svo svarið það, að hjartað í mér slær hraðar bara við að rifja upp hvað ég varð glöð :)

Það er alls ekkert óvart, að hún laumast með á myndirnar sem ég set á bloggið. Hún gerir bara allt fallegra. Líka bloggið.

Litli ljúfurinn minn á ljóðabók, eftir Þórarin Eldjárn, sem heitir Óðhalaringla. Í henni er ljóð sem hefði alveg getað verið samið um okkur vinkonurnar. Mig og frú KitchenAid.



Sundur og saman

Hrærivélin hrærir
í hjarta mínu strengi.
Hún hrærir bara og hrærir
og hefur gert það lengi.

Ekkert lík við erum
en hvað það er skrítið:
Þótt ólíkt allt við gerum
við elskumst meira en lítið.

Ég gátur heimsins greini
og grisja lífsins undur, 
í ró og þögn ég reyni
að rekja þræði sundur. 

En fátt er hún víst fróð um
og finnst það langmest gaman 
með hamagangi og hljóðum
að hræra öllu saman.



Kveðja, Hanna

Saturday, November 23, 2013

Snjókrukkur



Ég held að það sé enginn til sem hefur jafn mikið dálæti á krukkum og ég. Það er alveg sama hversu fullir eldhússkáparnir mínir eru orðnir, ég bara get ekki hent krukkunum. Öðru hvoru finn ég eitthvað sniðugt að föndra með krukkurnar og finnst það voða gaman. Ég er þó agalega hugmyndasnauð, svona yfirleitt en Pinterest er stórsniðug síða fyrir svona krukkuunndendur eins og mig. Endalausar hugmyndir að finna þar.

Undur og stórmerki gerast þó, og ég fékk (þó ég segi sjálf frá) brilljand hugmynd áðan. Einfalt krukku-jólaföndur sem eins árs barn gæti ábyggilega gert með lokuð augun!

Þú þarft:
krukku, límstifti, kókosmjöl og disk.

Aðferð:
1. Helltu kókosmjölinu á disk.
2. Renndu límstiftinu yfir krukkuna. Passaðu að þekja vel.
3. Rúllaðu krukkunni upp úr kókosmjölinu.

Tada! Tilbúið! Einfaldasta jólaföndur í heimi :)

Kveðja, Hanna

Friday, November 15, 2013

Málverk frá Maju

Það beið mín frábær glaðningur á pósthúsinu í gær. Ég á nefnilega alveg yndislega frænku, Maríu Bóel, sem hafði lesið um tómu veggina í húsinu mínu í síðasta pósti - og sendi mér í snatri fallegan kærleikspakka.

Í pakkanum var þetta fallega málverk, eftir Elínu G. sem prýðir nú heimilið, og sér til þess að ég hugsa enn oftar til Maju :)


Það er fátt eins skemmtilegt og að fá svona áminningu um að fólki þyki vænt um mann, og hugsi til manns.

Takk fyrir mig!

Kveðja, Hanna

Monday, November 4, 2013

Innlit í stofuna

Ég var spurð að því þrisvar sinnum í dag hvort ég væri hætt að blogga og ákvað því að pásunni væri lokið. Get þó engu lofað um áframhaldið. Ætli það fari kannski ekki bara eftir lestrinum á síðunni :)

Í ljósi þess að næstum hálft ár er liðið frá síðustu færslu, hefur vissulega margt skemmtilegt á daga okkar fjölskyldunnar drifið. Ég ætla samt ekkert að rifja það allt upp, heldur bara sýna þér nokkrar myndir af heimilinu okkar sem er loksins að taka á sig þá mynd sem við höfðum í huga í upphafi :)


Ég hafði hugsað mér að taka nokkrar myndir af litla grallaranum þar sem hann sat svo stilltur og prúður að kubba...




...en sökum anna einkasonarins við ruslabílasamsetningu sem olli því að hann mátti ómögulega vera að því að brosa (eða yfir höfuð að líta upp), var myndatökunni aflýst. Mömmunni fannst þá kjörið að taka í staðinn myndir af sjálfri stofunni.


Undir sjónvarpið settum við tvær tvöfaldar malm kommóður. Okkur fannst það bæði líta vel út og vera ótrúlega praktískt enda taka þessar kommóður endalaust við svo okkur skortir aldrei skúffupláss. Það er svo á dagskrá að finna skáp með glerhurðum sem passar í hornið þar sem litli stóllinn er.


Það vantar líka ennþá fullt af myndum á veggina, en það kemur allt saman :) Ég er líka að bíða eftir að rekast á "fullkomna" ljósið til að hafa yfir borðstofuborðinu. Ég mun finna það!

Ég þarf að taka almennilega mynd af hillunni fyrir ofan borðstofuborðið, við tækifæri. Mér þykir voða vænt um það sem á henni er. Annars vegar er þar mynd eftir ömmu Kolfinnu, sem hún málaði með HNÍF :-O og hins vegar eru tréstafirnir sem stafa uppáhaldsorðið mitt í heiminum. Saman. Ég skrifaði meira að segja sér færslu um það einhvern tímann.


Ég læt fylgja með eina mynd af yfirbyggða pallinum okkar :)

Mér verða væntanlega ekki veitt nein verðlaun fyrir ljósmyndun á næstunni, en ég vona að þú hafir haft gaman af innlitinu :) Það er svo gaman að geta leyft fjölskyldu og vinum sem ekki hafa tök á að koma í heimsókn að sjá aðeins hvernig við búum.

Kveðja,
Hanna