Thursday, November 19, 2015

Nýjir skór


Ég er skóböðull og geng alveg rammskakkt. Svona líta skórnir mínir út núna. Hælarnir algjörlega uppspændir á skónum sem ég lét þó sóla fyrir síðasta vetur. Ég er búin að vera að velta fyrir mér hvort ég eigi að láta laga þá aftur, en hef ekki látið verða að því sökum þess að ég held að ég sé búin að ganga leðrið svo mikið til að skórinn styður ekki lengur rétt við fótinn hvort sem er. Svo er ég líka búin að vera með augastað á draumaskónum í svolítinn tíma en tími ekki að kaupa mér þá.


Ég þarf varla að taka það fram að ég er auðvitað búin að vera að drepast í fótunum og bakinu, gangandi um með hálfan hæl undir skónum.

Elsku Elli minn ákvað þess vegna að taka málin í sínar hendur í dag. Bauð mér í hádegismat í bæinn og kom mér svo alveg á óvart með því að gefa mér draumaskóna! Ég vil sofa í þeim - þeir eru svo dásamlegir!


Bjútífúll á fæti! Gjeggaðir á litnn.


 Sjúklega þægilegir! Mjúkir og næs, en styðja samt svo vel við fótinn.


...og sérðu sólann! Ég spæni þennan nú ekki upp á einum vetri.

Takk Elli minn!

Kveðja, Hanna

 

Monday, November 16, 2015

Morgunstund gefur gull í mund


Stóri bróðir vildi endilega sýna systur sinni Pocoyo. Mér fannst þau voða krútt í þessar tuttugu sekúndur sem litla systir entist áður en hún fór að rúlla sér út um allt :)


Elsku mömmuljúfurinn minn dundaði sér við að setja saman þotuna sem hann fékk í 5 ára afmælisgjöf frá ömmu og afa á Íslandi í síðustu viku.

Hann var heldur betur montinn með sig þegar hún var síðan tilbúin, enda búinn að setja saman heilt legosett fyrir 9 til 14 ára - alveg sjálfur! Hann spyr auðvitað stundum hvort hann sé að gera rétt (ef leiðbeiningarnar eru ekki alveg skýrar), en annars fékk hann nánast enga hjálp.

Ég þarf varla að taka það fram að ég er að springa úr stolti yfir þessum snillingi. Að setja saman svona stórt sett er nefnilega æfing í svo miklu fleiru en að setja saman kubba. Til dæmis eru þolinmæði, þrautseigja og skýr rökhugsun meðal þess sem þjálfast. Þetta vann hann í 1-2 tíma á dag í fimm daga.




Elsku litla ljúfan stækkar og stækkar. Hún er farin að rúlla sér um allt, draga sig áfram með höndunum og svo hjalar hún og skríkir svo fallega allan daginn. Hún passar alveg fullkomlega í málglöðustu fjölskyldu Evrópu og virðist hafa lært snemma af bróður sínum að kyrrseta sé ofmetin :) Henni finnst þó ennþá ægilega gott að hjúfra þessar bollukinnar í mömmufang og er helst ekki meira en tuttugu sentimetra frá mér. Alveg eins og það á að vera!

Kveðja,
Hanna

Sunday, November 8, 2015

Feðradagurinn 2015


"Það er bara leiðinlegt fólk sem leiðist" sagði pabbi við mig þegar ég var svona 8 kannski 9 ára og kvartaði yfir því að hafa ekkert að gera. Þessi setning hefur svo sannarlega fylgt mér í lífið. Boðskapurinn er einfaldur og hnitmiðaður. Ef maður vill vera skemmtilegur þarf maður bara að hafa gaman. Ef maður vill vera duglegur, þarf maður bara að leggja hart að sér og vinna vel. Ef maður vill verða góður í að bakka - ja, þá þarf maður bara að bakka í stæði á bílaplaninu hjá Coca Cola í tvo klukkutíma. Simple as that! Hver er sinnar gæfu smiður er það besta sem pabbi hefur kennt mér.

Ég er svo lánsöm, að elsku pabbi minn er ekki bara leiðbeinandi minn um lífið - heldur er hann líka vinur minn. Við getum spjallað í marga klukkutíma í einu um allt milli himins og jarðar. Hann heimsótti okkur einmitt fyrir tveimur vikum og við gerðum í raun ekkert annað en að spjalla. Mér þótti svo vænt um það, og heimilið varð svolítið notalegra við nærveru hans.

Ég get náttúrulega ekki skrifað heila færslu um pabba án þess að þakka honum fyrir tónlistarsmekkinn minn, sem hann á heiðurinn af - alveg skuldlaust. Hugsa sér tómarúmið í lífinu ef í það vantaði Pearl Jam, Zeppelin, Stevie Ray Vaughan og fleiri. Þér er alveg fyrirgefið fyrir að hafa "óvart" brotið Britney Spears diskinn áður en hann komst í fyrstu spilun ;)

Annað, sem mér þykir einstaklega vænt um, er gagnrýna hugsunin sem pabbi kenndi mér. Að trúa ekki því sem ég les eða heyri án þess að efast. Það hefur pabbi kennt mér frá því ég var pínulítil, án þess kannski að gera sér grein fyrir því :) Klár karl!


Ég gæti skrifað heila bók um elsku pabba en læt þessa færslu nægja í bili. Skrifa kannski nýja lofræðu að ári ;)


Ég heyrði einhvern tímann að aðeins bestu pabbarnir væru hækkaði í tign og gerðir að öfum. Pabbi minn átti þá stöðuhækkun sannarlega skilið og veldur henni einstaklega vel sem "afi mótorhjól". 

Takk, elsku pabbi, fyrir allt sem þú ert og allt sem þú gerir <3

Kveðja, Hanna

Thursday, October 29, 2015

5 ára!

 

Litli strákurinn minn verður víst stærri á hverjum degi... og nú er hann fimm ára!

Þetta er auðvitað stór áfangi fyrir hann og elsku ljúfurinn minn er búinn að bíða spenntur "lengi" eftir þessum miklu tímamótum :) Fimm ára er nefnilega svo miklu meira en fjögurra ára. Ég komst að því eftir að við mæðgin ræddum aðeins saman um muninn á 4 og 5 ára.

  • Það er miklu betra að vera fimm ára en fjögurra ára, því fimm ára eru nefnilega elstir í leikskólanum. Fimm ára eru líka betri í körfu og fótbolta en fjögurra ára.  
  • Fimm ára hlýða ALLTAF því sem mamma og pabbi segja. Nema þegar þeir gleyma sér smá. Þá bara minna mamma og pabbi á. 
  • Fimm ára eru líka rosalega hugrakkir en kunna samt að passa sig, og láta mömmu eða pabba vita ef eitthvað er of hættulegt eða hræðilegt. 
  • Fimm ára geta sett saman heilt legosett alveg sjálfir, án nokkurrar aðstoðar.  
  • Fimm ára kunna að ryksuga herbergið sitt sjálfir, og líka búa um. Fimm ára finnst samt ekki gaman að búa um - bara að ryksuga. 
  • Fimm ára kunna allar umferðarreglurnar. 
  • Fimm ára geta farið sjálfir í heimsókn til vina sinna og verið sjálfir í afmælum.
  • Fimm ára geta líka passað litlu systur sína - ef mamma eða pabbi eru nálægt.
  • Fimm ára geta klifrað hærra og hlaupið hraðar en fjögurra ára 
  • Fimm ára kunna að skreyta afmælisköku alveg sjálfir.
  • ...og þó fimm ára séu rosalega stórir mega þeir samt líka vera litlir stundum þegar þá vantar kúr og knús. Maður verður nefnilega aldrei of stór fyrir svoleiðis. 

Við héldum smá veislu á afmælisdaginn, með "sænsku stórfjölskyldunni" okkar, og svo verður önnur haldin fyrir leikskólavinina á sunnudaginn. Ég leyfi smá myndum að fylgja með :)

Pakkar og blöðrur biðu afmælisbarnsins þegar hann vaknaði - og vöktu mikla lukku :)
 
Sérstök ósk um súkkulaðimorgunmat, eins og heima hjá ömmu, var uppfyllt. Litla systir fékk samt bara hafragraut og vatn :)


Það var rosalega erfitt að bíða eftir gestunum, en smá dans reddaði því alveg :) Gluggarnir okkar eru ekki málaðir svartir... við héldum bara veisluna klukkan 17, og þá var orðið dimmt.


 Í boði voru pylsur, súkkulaðikúlur með kökuskrauti...


...súkkulaðikaka með vanillukremi og nammi (skreytt af afmælisbarninu)...


 ...kanelsnúðar og fullt af nammi...


og auðvitað nammikaka með súkkulaðikremi (einnig skreytt af afmælisbarninu).


Mömmuljúfurinn var himinlifandi og hamingjusamur með "besta dag í heimi". Takk elsku vinir og fjölskylda fyrir að vera með (úr fjarlægð eða hér hjá okkur) og gera daginn svona yndislegan og eftirminnilegan!

Kveðja,
Hanna

Monday, October 19, 2015

Bleika slaufan


Það er svo notalegt að hafa litrík og falleg blóm í kringum sig. Heimilið ljómar og verður svo fínt. Eða það finnst mér að minnsta kosti. Ég kaupi mér reglulega pottablóm en af einhverri ástæðu finnst mér hálf vandræðalegt að kaupa mér sjálfri blómvönd svo ég geri það aldrei. Kjánalegt, ekki satt? En verður til þess að mér þykir enn skemmtilegra þegar ég fæ blómvönd :)

Ég fékk þessar fínu rósir í síðustu viku, og fannst tilvalið að skreyta vasann (sem reyndar er bara glas, því ég á ekki vasa) í tilefni Bleika dagsins á föstudag :) Ég valsaði klædd í bleikustu flíspeysu í heimi og keypti þrjár slaufur sama dag :)

Íslensku slaufurnar eru alltaf svo fallegar. Ég er búin að fá þær í jólagjöf undanfarin ár, og þykir svo vænt um það. Yndisleg gjöf sem gefur.

Hér er hægt að kaupa bleiku slaufuna -- Vefverslun fyrir bleiku slaufuna

Kveðja, Hanna

Monday, October 12, 2015

Sjóræningjaróló


Það er búið að vera óvenju hlýtt og gott veður þetta haustið. Einhvern blíðviðrisdaginn í síðustu viku fórum við á einn af uppáhalds leikvöllunum okkar - Sjóræningjarólóinn. Ég man ekki afhverju við fórum að kalla hann það. Það er ekkert sjóræningalegt við hann. Samt verður hann einhvern veginn skemmtilegri fyrir vikið. Það yrði hvaða staður sem er meira spennandi við að kallast "sjóræningja"-eitthvað. Ég held a.m.k. að rólóinn væri ekki eins mikið uppáhalds ef við kölluðum hann bara rólóinn í bænum.


Það er voðalegt sport að klifra í trjám þessa dagana, og kúturinn er orðinn ótrúlega flinkur við það. Ég get þó ekki sagt að ég sé sérstaklega hrifin af þessari iðju hans. Mér finnst alltaf að hann sé við það að detta niður og fá gat á hausinn, og stend yfirleitt frekar taugaveikluð og stressuð við tréð. Þrátt fyrir að hann fái ekki að klifra hærra en svona 1 til 1,5 metra :) Æj, hann er bara svo brothættur og lítill.


Í þessari róló-ferð fékk litla systir að róla í fyrsta sinn. Það fannst henni stórskemmtilegt og hún skríkti af kæti allan tíman. Líklega fólst þó mesta gleðin í því að vera með stóra bróður sem gretti sig, geyflaði og hló allan tímann.


Kveðja, Hanna




Thursday, October 8, 2015

Blúndugalli


Við höfum ekki þurft að nota útigalla mikið fyrir litlu ljúfuna hingað til. Helst bara þegar við vorum á Íslandi í sumar. Þá keyptum við ekki nýjan galla fyrir hana, heldur notuðum aftur notalegan, ljósan 66°n flísgalla sem stóri bróðir fékk þegar hann var pínulítill.

Ég var orðin svolítið leið á gallanum, svo ég saumaði á hann smá blúndu og er ekkert smá ánægð með útkomuna. Voða einföld og látlaus breyting, en mér fannst þetta verða ný flík.


"Fyrir"myndin er ansi hreyfð og óskýr. Ástæðan er sú að hugmyndin að breytingunni var svolítil fluga, og ég mátti eiginlega ekki vera að því að taka myndina. Ég var svo æst í að byrja að sauma :)


Tilbúinn og algjört krútt!


Að sjálfsögðu hafa fleiri flíkur verið skreyttar með smá blúndu í framhaldinu. Hvað verður ekki fallegra með smá blúndu á?

Kveðja, Hanna