Monday, May 13, 2013

Litli tónlistarmaðurinn

Elsku litla ljósið mitt kann alveg að leika á hjartastrengi móður sinnar. 

Ég söng fyrir hann Litla tónlistarmanninn (Mömmulagið - eins og hann kallar það sjálfur) í kvöld. Það er í alveg einstöku uppáhaldi þessa dagana. Þegar ég ætlaði svo að bjóða honum góða nótt strauk hann mér svo ofurblítt um vangann og sönglaði "Mamma - mér finnst gott að koma til þín. Mamma - þú ert mamma mín".

Það þarf varla að taka það fram að ég hætti við að læðast fram. Sat hjá honum í staðinn og dáðist hugfangin að þessari litlu, fallegu og góðu sál sem hann er. Alveg þangað til hann hafði stungið af í draumalandið.

Kveðja, Hanna

Sunday, May 12, 2013

Til mömmu...

30 ástæður fyrir því að þú ert besta mamma í heimi, og enginn gæti nokkurn tímann komið í staðinn fyrir þig.
Mamma, ég og litli ljúfur
1. Þegar þú verður svo spennt yfir einhverju að þú gleymir þér og getur varla hugsað um nokkuð annað.
2. Þegar við sitjum saman og syngjum.
3. Lyktin þín.
4. Þegar þú brosir og ég get ekki annað gert en að brosa með.
5. Þegar þú huggar mig þegar mér líður illa. Líka þegar mér líður illa yfir einhverju ómerkilegu sem skiptir engu máli.
6. Þegar þú ert að horfa á spennandi þátt og ég er að reyna að tala við þig – og þú segir bara „já, einmitt“.
7. Þegar þú er besta mamma í heimi.
8. Þegar enginn annar segir mér „the ugly truth“ nema þú - en ég finn samt að það er í ást og umhyggju.
9. Þegar þú hrósar mér fyrir það sem ég er stolt af.
10. Þegar þú hlustar á mig – alltaf. Líka þegar ég segi þér sama hlutinn í tuttugasta og fjórða skipti.
11. Þegar þú ert besta amma í heimi.
12. Þegar þú hrósar mér fyrir það sem mig langar að vera stolt af, en finnst kannski samt asnalegt og kjánalegt. Þá finnst mér að ég „megi vera stolt af því“.
13. Þegar ég get leitað til þín með hvað sem er, stórt og smátt, og þú reynir eins og þú getur að hjálpa mér.
14. Þegar þú hlustar á Scorpions.
15. Þegar þú veist að ég þarf hjálp, áður en ég veit það.
16. Knúsið þitt.
17. Þegar þú skilur þó enginn annar geri það... bara því við skiljum hvor aðra.
18. Þegar þú veist upp á hár hvað mér finnst skemmtilegt og fallegt.
19. Þegar þú dansar við „stuðlög“ frá „the eighties“.
20. Þegar þú hvetur mig áfram, þegar ég er hrædd
21. Þegar að þú segir að það verði allt í lagi.
22. Þegar við hlustum á „Ó, helga nótt“.
23. Þegar þú ert svaka pæja og gerir „pæjudansinn“.
24. Hláturinn þinn.
25. Þegar ég finn að þú elskar okkur systkinin meira en allt.
26. Þegar þú verður hoppandi reið ef einhver er vondur við mig.
27. Þú, Ajax og Bylgjan.
28. Þegar þú ert duglegust í heimi, og ég skil ekki hvernig þó hefur farið að þessu öllu.
29. Þegar þú málar postulín, saumar rúmteppi og prjónar hraðar en ég tala.
30. Þegar það er svo margt sem ég elska við þig, að þrjátíu punkta listi er ekki nóg.

Gleðilegan mæðradag, elsku mamma mín. Takk fyrir allt.
Ég elska þig og sakna þín.

Wednesday, May 8, 2013

Ofnbakaður pestólax með mozzarella

Þennan rétt háma allir í sig með bestu lyst á mínu heimili. Hann er svo rosalega einfaldur (eins og allt sem ég elda!) að það er eiginlega ekki hægt að klúðra honum.

Rétturinn ÁÐUR en hann fór í ofninn :)

Þú þarft:

500 gr. Lax (ég kaupi filé sem búið er að roðfletta, snyrta og búta niður frá Findus)
1 dl Rautt pestó
1/3 dl Grænt pestó
Ferskur mozzarella ostur (ég kaupi eina stóra kúlu, og nota u.þ.b. 2/3 af henni)
Kirsuberjatómata (ekki nauðsynlegt)
Furuhnetur (ekki nauðsynlegar, en setur punktinn yfir i-ið)
  1. Stilltu ofninn á 180°c.
  2. Blandaðu saman rauða og græna pestóinu. Magnið hér að ofan er bara viðmið.
  3. Skerðu tómatana í báta og ostinn í sneiðar (ca. 3 mm þykkar).
  4. Skerðu svo smá "vasa" í laxbitana.
  5. Settu pestóblönduna í eldfast mót, og laxinn með. Nuddaðu laxinum svo aðeins upp úr pestóinu.
  6. Fylltu "vasana" á laxinum með mozzarella ostinum.
  7. Settu tómatana í mótið, og stráðu smá furuhnetum yfir (ef þú vilt... þetta er ekki nauðsynlegt).
  8. Skelltu mótinu í ofninn í 15-20 mínútur.
 Síðast þegar þessi réttur var í matinn hjá mér, bar ég fram Quinua (fæst flestum venjulegum matvöruverslunum - mjög einfalt og svakalega hollt) og salat (spínat, sólþurrkaðir tómatar og lárpera).

Kveðja, Hanna