Thursday, August 9, 2012
Drottinn blessi heimilið
Þessa fallegu mynd saumaði mamma fyrir mig og gaf mér í jólagjöf 2009.
Mér þykir ótrúlega vænt um hana. Hún hangir í forstofunni minni og minnir mig á elsku mömmu mína í hvert skipti sem ég fer út eða kem heim.
Að öðru, þó tengdu. Ég hef mikið velt því fyrir mér hvort, og þá að hversu miklu leyti, ég vilji veita syni mínum trúarlegt uppeldi. Mér finnst flestir foreldrar ungra barna í dag segja að þeir vilji ekki lita skoðanir barns síns, og leyfa þeim bara að velja seinna hvort þau vilji stunda trúarbrögð eða ekki. Ég ber fullkomna virðingu fyrir því og skil vel afstöðu þessarra foreldra.
Ég mun leyfa syni mínum að ráða því sjálfur hvort hann stundi trúarbrögð eða ekki en við, foreldrar hans, ákváðum að hann fengi að njóta fallegu og einlægu barnatrúarinnar sem við fengum sjálf að njóta.
Við kennum honum bænir sem fjalla um það að guð og englarnir passi hann. Við syngjum líka fallega sálma, sem hafa boðskap um þakklæti, kærleika og traust. Litli fallegi stúfurinn minn á eina ömmu sem er engill. Við biðjum hana oft að passa ljúfinn áður en hann sofnar.
Seinna munum við segja honum að ef honum líður illa, þá geti hann talað við guð og englana. Við munum líka segja honum að hann geti verið alveg viss um að guð verður alltaf góður við hann. Því sá guð sem við spjöllum við, og allir englarnir hans, vilja okkur alltaf vel - jafnvel þó að litli kúturinn minn geri stundum mistök. Þá geta guð og englarnir hjálpað honum að breyta rétt. Við völdum að kenna syni okkar bara fallega hluti sem tengjast trú. Guð og englarnir refsa aldrei. Þeir hjálpa bara.
Mér finnst ekki nauðsynlegt að hann haldi í þessa barnatrú að eilífu. Fæstir gera það. Mér finnst þetta bara svo stórkostleg leið til að kenna honum - litla fallega ljósinu mínu - að heimurinn sé fallegur, og að hvað sem gerist, verði alltaf einhver að passa hann.Við notum enga ákveðna bók eða sögur. Við tökum bara þann boðskap sem okkur finnst góður og fallegur. Þann boðskap sem við trúum að geri fallega drenginn okkar að betri einstaklingi.
Hefur þú aðra skoðun?
Kveðja, Hanna