Thursday, November 19, 2015

Nýjir skór


Ég er skóböðull og geng alveg rammskakkt. Svona líta skórnir mínir út núna. Hælarnir algjörlega uppspændir á skónum sem ég lét þó sóla fyrir síðasta vetur. Ég er búin að vera að velta fyrir mér hvort ég eigi að láta laga þá aftur, en hef ekki látið verða að því sökum þess að ég held að ég sé búin að ganga leðrið svo mikið til að skórinn styður ekki lengur rétt við fótinn hvort sem er. Svo er ég líka búin að vera með augastað á draumaskónum í svolítinn tíma en tími ekki að kaupa mér þá.


Ég þarf varla að taka það fram að ég er auðvitað búin að vera að drepast í fótunum og bakinu, gangandi um með hálfan hæl undir skónum.

Elsku Elli minn ákvað þess vegna að taka málin í sínar hendur í dag. Bauð mér í hádegismat í bæinn og kom mér svo alveg á óvart með því að gefa mér draumaskóna! Ég vil sofa í þeim - þeir eru svo dásamlegir!


Bjútífúll á fæti! Gjeggaðir á litnn.


 Sjúklega þægilegir! Mjúkir og næs, en styðja samt svo vel við fótinn.


...og sérðu sólann! Ég spæni þennan nú ekki upp á einum vetri.

Takk Elli minn!

Kveðja, Hanna

 

Monday, November 16, 2015

Morgunstund gefur gull í mund


Stóri bróðir vildi endilega sýna systur sinni Pocoyo. Mér fannst þau voða krútt í þessar tuttugu sekúndur sem litla systir entist áður en hún fór að rúlla sér út um allt :)


Elsku mömmuljúfurinn minn dundaði sér við að setja saman þotuna sem hann fékk í 5 ára afmælisgjöf frá ömmu og afa á Íslandi í síðustu viku.

Hann var heldur betur montinn með sig þegar hún var síðan tilbúin, enda búinn að setja saman heilt legosett fyrir 9 til 14 ára - alveg sjálfur! Hann spyr auðvitað stundum hvort hann sé að gera rétt (ef leiðbeiningarnar eru ekki alveg skýrar), en annars fékk hann nánast enga hjálp.

Ég þarf varla að taka það fram að ég er að springa úr stolti yfir þessum snillingi. Að setja saman svona stórt sett er nefnilega æfing í svo miklu fleiru en að setja saman kubba. Til dæmis eru þolinmæði, þrautseigja og skýr rökhugsun meðal þess sem þjálfast. Þetta vann hann í 1-2 tíma á dag í fimm daga.




Elsku litla ljúfan stækkar og stækkar. Hún er farin að rúlla sér um allt, draga sig áfram með höndunum og svo hjalar hún og skríkir svo fallega allan daginn. Hún passar alveg fullkomlega í málglöðustu fjölskyldu Evrópu og virðist hafa lært snemma af bróður sínum að kyrrseta sé ofmetin :) Henni finnst þó ennþá ægilega gott að hjúfra þessar bollukinnar í mömmufang og er helst ekki meira en tuttugu sentimetra frá mér. Alveg eins og það á að vera!

Kveðja,
Hanna

Sunday, November 8, 2015

Feðradagurinn 2015


"Það er bara leiðinlegt fólk sem leiðist" sagði pabbi við mig þegar ég var svona 8 kannski 9 ára og kvartaði yfir því að hafa ekkert að gera. Þessi setning hefur svo sannarlega fylgt mér í lífið. Boðskapurinn er einfaldur og hnitmiðaður. Ef maður vill vera skemmtilegur þarf maður bara að hafa gaman. Ef maður vill vera duglegur, þarf maður bara að leggja hart að sér og vinna vel. Ef maður vill verða góður í að bakka - ja, þá þarf maður bara að bakka í stæði á bílaplaninu hjá Coca Cola í tvo klukkutíma. Simple as that! Hver er sinnar gæfu smiður er það besta sem pabbi hefur kennt mér.

Ég er svo lánsöm, að elsku pabbi minn er ekki bara leiðbeinandi minn um lífið - heldur er hann líka vinur minn. Við getum spjallað í marga klukkutíma í einu um allt milli himins og jarðar. Hann heimsótti okkur einmitt fyrir tveimur vikum og við gerðum í raun ekkert annað en að spjalla. Mér þótti svo vænt um það, og heimilið varð svolítið notalegra við nærveru hans.

Ég get náttúrulega ekki skrifað heila færslu um pabba án þess að þakka honum fyrir tónlistarsmekkinn minn, sem hann á heiðurinn af - alveg skuldlaust. Hugsa sér tómarúmið í lífinu ef í það vantaði Pearl Jam, Zeppelin, Stevie Ray Vaughan og fleiri. Þér er alveg fyrirgefið fyrir að hafa "óvart" brotið Britney Spears diskinn áður en hann komst í fyrstu spilun ;)

Annað, sem mér þykir einstaklega vænt um, er gagnrýna hugsunin sem pabbi kenndi mér. Að trúa ekki því sem ég les eða heyri án þess að efast. Það hefur pabbi kennt mér frá því ég var pínulítil, án þess kannski að gera sér grein fyrir því :) Klár karl!


Ég gæti skrifað heila bók um elsku pabba en læt þessa færslu nægja í bili. Skrifa kannski nýja lofræðu að ári ;)


Ég heyrði einhvern tímann að aðeins bestu pabbarnir væru hækkaði í tign og gerðir að öfum. Pabbi minn átti þá stöðuhækkun sannarlega skilið og veldur henni einstaklega vel sem "afi mótorhjól". 

Takk, elsku pabbi, fyrir allt sem þú ert og allt sem þú gerir <3

Kveðja, Hanna