Friday, August 24, 2012

Heimatilbúið lok fyrir glas

Það er svo gaman að leika úti í garði í góða veðrinu :) 

Við erum með litla sæta busllaug sem stúfurinn litli hefur ótrúlega gaman af.

Hann getur líka gleymt sér heila eilífð á meðan hann málar húsveggi og grindverk með vatni. 

Stundum er alveg ótrúlega gaman að fylgjast með fólkinu sem labbar fram hjá og jafnvel heilsa því. 

Svo er litli ljúfur orðinn ofsalega duglegur að hjóla á þríhjólinu sem hann fékk frá afa og ömmu í Mosó :)

Okkur mæðginum finnst líka voðalega notalegt að fara í lautarferð í garðinn okkar. Við tökum með okkur teppi, púða, bækur og smá nesti.


Þegar maður fer út með nesti, koma stundum svangar flugur sem langar að smakka. Við erum ekkert rosalega hrifin af þeim, og viljum bara eiga matinn okkar í friði. Ég sá alveg stórsniðuga hugmynd, sem heldur flugunum úr glösum, um daginn á Pinterest og prófaði hana. Það eina sem þú þarft er glas, muffinsform og rör.


Þú gerir gat á mitt muffinsformið. Ég notaði grillpinna. Síðan seturðu rör ofan í gatið, og leggur svo formið öfugt ofan á glas. Muffinsformið þarf að passa á glasið, svo þau þurfa að vera í stærri kantinum. Ég notaði form frá Tiger. 100 litrík form fyrir 300 krónur.


Ljúfurinn minn var hæstánægður með þetta nýja, fína glas - og mér fannst þetta ekki bara stórsniðugt, heldur líka hrikalega krúttlegt. 

Kveðja, Hanna