Thursday, November 6, 2014

Yfir hverju eru þessir læknar að kvarta?

Ertu búin/n að lesa þessa frétt á MBL?

Þetta er nú meiri frekjan í þessum læknum. Vilja fá há laun fyrir 100% dagvinnu þegar þeir geta auðveldlega tekið að sér aukavinnu, eins og við hin, til að hækka laun sín. Vita þeir ekki að kreppan hefur áhrif á alla? Líka lækna!

Þeir fá allt of mikla vinnu!


Ég meina, hér eru allir þessir læknar sem hafa örugga vinnu (annað en margir aðrir) og FÁ jafnvel að vinna langt umfram umsaminn vinnutíma. Svo í þokkabót fá þeir að eyða frítíma sínum í það að ferðast um allt land, og jafnvel heiminn, oftast barn- og makalausir og hitta fullt af allskonar fólki? -Og fá borgað fyrir það (gegn því að taka nokkrar sólarhringsvaktir á viku, á sjúkrahúsum þeirra bæja sem þeir heimsækja).

Yfir hverju eru þessir læknar eiginlega að kvarta? Þeir geta bara verið þakklátir fyrir að hafa vinnu yfir höfuð. Nóg af henni meira að segja. Það er fullt af fólki sem er atvinnulaust og hefur það miklu verra!

Þeir hafa ekki tíma fyrir fjölskylduna!

Tími með fjölskyldunni er algjörlega ofmetinn og kemur launakjörum ekkert við. Sjómennskan hefur einmitt lengi verið eftirsótt atvinnugrein eingöngu sökum öfundsverðs vinnutíma. Við Íslendingar vitum mæta vel að vinnan göfgar manninn og við kærum okkur almennt ekki um að vera sóa tíma í t.d. bekkjarkvöld, jólaskemmtanir, danssýningar og göngutúra með börnunum okkar. Hvað þá að hanga heima til að ala þau upp... ég meina til hvers eru þessir skólar og leikskólar eiginlega?

Þeir kláruðu svo erfitt háskólanám!

Talandi um skóla. Við skulum hafa það alveg á hreinu að háskólanám er enginn trygging fyrir háum launum! Ég er alveg viss um að það er hægt að stytta þetta nám töluvert (ef það þarf eitthvað sérstakt nám til að læra að verða læknir, svona yfir höfuð). Sex ár bara í grunnnámi? Eru ekki inngöngupróf í læknisfræði? Þarf að eyða fyrstu tveimur árunum í að kenna þeim að lesa eða? Eru þeir svo ekki allir með nettengdar tölvur þegar þeir fara að vinna? Hafiði heyrt um Google? Það er ekki eins og það þurfi að kenna þeim allt áður en þeir fara að vinna! Um daginn fékk sonur minn útbrot, sem ég bara gúglaði og fann lausn á. Fann örugglega sjö þræði á Barnalandi um einmitt samskonar útbrot. Það getur ekki þurft meira en svona 3-4 ár til að undirbúa sig fyrir að verða læknir. Svo er ekki eins og að allir þurfi að verða einhverjir sérfræðingar og sóa enn meiri tíma í það.

Þeir eru svoooo þreyttir!
 
Auðvitað ættu læknar alveg að geta unnið vinnuna sína þó þeir séu stundum þreyttir - bara rétt eins og annað fólk. Það er ekki eins og það sé eitthvað meira í húfi ef þeir gera mistök en aðrir. Ég var einu sinni að vinna vaktavinnu í búð... ótrúlega langar vaktir marga daga í röð. Það var rosa erfitt, og kúnnarnir voru brjálaðir ef ég gaf þeim vitlaust til baka. Einu sinni gaf ég konu vitlaust tilbaka og daginn eftir þegar hún kom aftur í búðina átti hún ekki fyrir bæði Lion Bar og kók. Ég var með móral í viku! Þar fyrir utan eru þessir læknar búnir að sýna fram á það síðustu ár að þeir ráða alveg við það álag sem þeir eru allt í einu núna farnir að kvarta yfir. Það er pottþétt einhver spilling á bak við þetta.

Hingað og ekki lengra! 

Vinur minn er strætóbílstjóri hjá Strætó Bs. og var hundfúll vegna kjara sinna þar. Vitiði hvað hann gerði? Hann fór bara að vinna hjá Flybus þegar hann var ekki á vakt hjá Strætó, FÉKK meira að segja næturvaktir fjóra daga í viku. Pælið í því! Allt í einu þrefölduðust heildar-mánaðarlaunin hans og auk þess slapp hann við allt þetta leiðinlega heima hjá sér... uppvask, þrífa bílinn, hlýða börnunum sínum yfir heimalærdóm og meira að segja að hlusta á nöldrið í manninum sínum. Ýkt heppinn gaur, og dytti ekki í hug að fara að kvarta og væla!

Kveðja, Hanna

P.s. Ég styð íslenska lækna 100% í kjarabaráttu sinni og meina ekki stakt orð í færslunni.

Tuesday, September 23, 2014

Ég er feministi

Ég er feministi. 

Ef þér líður betur með það, máttu kalla mig jafnréttissinna í staðinn. Mér er sama, því fyrir mér er feminsti í raun bara ein tegund jafnréttissinna. Ég er allskonar jafnréttissinni.


Ég er ein þeirra hundruð þúsunda sem hafa hlustað á ræðu Emma Watson  á þingi UN Women og mér fannst hún frábær. Mér finnst He for She frábært framtak. Eftirfarandi fjallar þó ekki beint um það. 

Þegar ég sat og horfði á ræðuna í dag sagði við mig einstaklingur að sér þætti ræðan ekkert merkileg. Helst til hype-uð sökuð þess að hana flutti fræg ung leikkona en að ræðan fjallaði í raun ekki um stóru málin. Viðkomandi hafði ekki hlustað á alla ræðuna.

Viðkomandi bætti síðan við að jafnrétti kynjanna í hinum vestræna heimi væri þegar svo gott sem náð, og nú væri tími til kominn að hætta að eyða púðrinu í smáatriði. Karlar og konur hafa sama lagalega rétt, njóta sömu virðingar í samfélaginu og bjóðast sömu tækifæri. Ég hef svo sem heyrt þetta áður. Mig grunar reyndar að Bríeti Bjarnhéðinsdóttur hafi einnig verið bent á að jafnrétti væri náð löngu fyrir þarsíðustu aldamót.


Fyrrnefndum einstaklingi finnst að sökum þess hve langt við erum komin í jafnréttisbaráttunni ættum við í staðinn að beita okkur af öllum hug og hjarta fyrir systur okkur sem hafa það virkilega slæmt. Þeim sem ekki hafa notið sömu forréttinda og ég. Þeim sem ekki lifa við það sem mér þykja sjálfsögð mannréttindi. Þeim sem ekki eru hluti þjóðar sem er komin miklu lengra í jafnréttisbaráttunni en margar aðrar þjóðir heimsins.


Mér er þá spurn, hvað um menntastuðul okkar? Við ættum kannski að hætta að vinna að því að hækka hann, enda er hann orðinn mjög hár í samnburði við mörg önnur lönd? Í staðinn ættum við kannski öll að beita okkur af öllum krafti fyrir því að hækka menntastuðul þeirra sem ekki hafa haft sömu tækifæri til náms?

Nei, ætli við séum ekki betur í stakk búin að aðstoða aðra samhliða því að við lærum meira sjálf?


Ok, en húsin okkar? Þau eru mun betri og öruggari en hús í mörgum öðrum hlutum heimsins. Við ættum kannski að hætta að velta okkur uppúr smáatriðum, í bili, og hætta að vinna að því að byggja betri hús þangað til að hús í öllum öðrum heimshlutum eru orðin jafn góð? Gæðastuðull íslenskra bygginga eru alveg miklu meira en nógu góður í samanburði við gæðastuðul bygginga margra annarra fátækari landa.

Nei, ætli það sé nokkuð svarið? Stöðug þróun einfaldari, öruggari og betri bygginga mun líklega hafa meiri og betri áhrif til framtíðar jafnt á Íslandi sem annarsstaðar í heiminum.


Hvað með íslenskt réttarkerfi? Það er náttúrulega ekkert vit í að vera að eyða púðri í að betrumbæta það þegar það eru ennþá svona mörg lönd sem vantar grunnstoðir þess sem við teljum nauðsynlegt fyrir mannúðlegt og réttlátt kerfi sem byggir á mannvirðingu og mannréttindum. Við ættum í raun bara að þakka fyrir að hafa það svona gott, og halda svo þróununni áfram þegar við erum búin sjá til þess að allsstaðar í heiminum sé a.m.k. jafn gott réttarkerfi. Er það ekki?

Æ, ég er efins. Eru ekki stöðugar betrumbætur forsenda þess að slíkt kerfi gangi upp og sé eins gott og kostur er? Hvernig ættum við að aðstoða aðra ef okkar eigið kerfi færi í mola?


Ef við snúum okkur þá aftur að kynjajafnréttisbaráttunni. Við erum vissulega komin mun lengra en margar aðrar þjóðir í henni. Ættum við að setja hana á bið, „hætta að eyða púðri í smáatriðin“, og einbeita okkur einungis að því að aðrar þjóðir nái sama árangri?

Getur kannski verið að með hverju skrefi sem við tökum í átt að jöfnuði kynjanna séum við betur í stakk búin að láta gott af okkur leiða? Ef Ísland ætti fleiri en 350.000 feminista, ætli þeir gætu ekki haft stórtæk áhrif utan landsteinanna? Ef jafnrétti kynjanna á Íslandi verður náð, lagalega sem félagslega, verðum við þá ekki einstakt fordæmi og innblástur fyrir aðrar þjóðir? 

Eru kannski „smáatriðin“ (eins og t.d. að stöðva hlutgervingu kvenna í fjölmiðlum, og að veita feðrum sama rétt og mæðrum til að umgangast börnin sín) einmitt það sem við þurfum að eyða púðri í til að geta hjálpað systrum okkar (og bræðrum) sem enn í dag fá ekki að njóta þess sem okkur þykja sjálfsögð mannréttindi á grundvelli kyns síns?

Ég er enn feministi. Ég ætla að halda áfram að taka þátt í jafréttisbaráttu kynjanna, þangað til raunverulegum jöfnuði hefur verið náð.


Kveðja, Hanna

Friday, July 11, 2014

Morgunvöfflur með bláberjum


Við fjölskyldan erum í sumarfríi. Síðustu tvær vikur höfum við bara haft það notalegt og rólegt saman hér heima og í kringum bæinn okkar, Skövde. Í næstu viku förum við vonandi í smá ferðalag með húsvagninn sem amma og afi voru svo yndisleg að lána okkur :)

Fyrstu sumarfrísdagana var ekkert frábært veður - grátt og rigningalegt. Það var þó alveg fullkomið, því þá daga gátum við nýtt till að gera hitt og þetta hér heima. Síðan hefur nefnilega verið í kringum 30 stiga hiti, og við höfum getað bara slappað af og leikið okkur án þess að hafa samviskubit yfir því sem á eftir að gera.

Það taka að vísu ekki allir fjölskyldumeðlimir jafn fagnandi á móti þessum hita. Sumir á heimilinu vilja bara sitja í skugga með stórar viftur á mesta krafti, úr öllum áttum.

Myndirnar eru síðan í morgun. Við mæðgin settumst út á pall með morgunmatinn okkar, hrikalega góðar bláberjavöfflur.



Litli stubbur skildi ekki alveg afhverju mamma hans var að taka mynd af morgunmatnum, og bað hana að taka nýja mynd þar sem hann væri með. Sú mynd er auðvitað miklu fallegri :) 

 


Morgunvöfflur með bláberjum
4 egg
3-4 msk vanilluskyr
1/2 dl ólívuolía
2-3 dl hveiti
2 tsk lyftiduft
1 maukaður banani
1/2 - 1 dl bláber (ég notaði frosin, og bætti þeim varlega við í lokin)
Mjólk (notaði bara smá til að þynna deigið örlítið)





Kveðja, Hanna

Monday, April 14, 2014

Melónubitar

Við mæðgin elskum melónur. Förum létt með að borða heila vatnsmelónu yfir föstudagsbíóinu. Eiginlega finnst mér melónur, mangó og appelsínur fullkomið nammi en það getur orðið voðalega subbulegt. Þess vegna hef ég ekkert verið neitt rosalega hrifin af þessu girnilega og gómsæta hollustunammi í sófanum.

Við getum þó borðað melónu í rólegheitunum í sófanum núna, því alveg óvart uppgötvaði ég snilldar leið til að skera hana :)

 
 
Bara pínulítill börkur eftir, og ekkert sull :)
 


Svo reyndar gúglaði ég smá og komst að því að ég var enginn snillingur. Ég hef örugglega séð þetta einhvern tímann á netinu og gleymt því. Á þessum link er hægt að sjá hvernig maður sker melónuna til að fá svona fína bita :) Kíktu :)
 
 
Kveðja, Hanna

Wednesday, April 9, 2014

Sunnudagskaffið


Við fjölskyldan erum öll voðalegir sælkerar og einn af föstu liðum vikunnar er sunnudagskaffið.
Yfirleitt er það bara eitthvað einfalt og gott sem við mæðgin getum útbúið saman. Pönnukökur, skúffukaka, vöfflur... mmmm. Okkur finnst svo allt bragðast best þegar við getum deilt því með góðum gestum.



Það er auðvitað nauðsynlegt að halda kúlinu í bakstrinum. Sólgleraugu og of stór svunta er alveg málið :) Það fer nú að koma tími á að hann fái sína eigin svuntu.

 

 
Allar kökur verða betri ef maður syngur á meðan bakstrinum stendur.

 


Sætari en súkkulaðikrem. Ekki samt segja honum það, skv honum sjálfum er hann ALLS EKKI sætur. Bara flottur.
 

 
 
Þegar maður er bara 3ja ára er voða erfitt að bíða þar til allar vöfflurnr eru tilbúnar.
 
 
 
Gæðastjórnun er bráðnauðsynleg. Súkkulaðismakk er allra mikilvægasti þáttur vöfflubaksturs, eins og allir ættu að vita :)
 
 
 
Kveðja, Hanna

Sunday, March 23, 2014

Bleikir fingur



Ég hef ekki græna fingur. Þeir eru eiginlega frekar bleikir... amk neglurnar. Þeir grænka þó vonandi með vaxandi garðyrkju- og blómaáhuga.



Þessi fallega bláa hortensía fékk að fylgja með heim úr búðinni í dag. Ég er staðráðin í að hún fái að lifa löngu og farsælu lífi, og hef beðið vinkonu mína Google að aðstoða mig - að hjálpa mér að grænka þessa klunnafingur mína :)

Kveðja, Hanna