Monday, August 13, 2012
Klósettrúllukubbar
Litli herramaðurinn á heimilinu er að læra að nota klósettið. Ég hef notað ýmsar aðferðir til þess að fá hann til að sitja kyrr. Við syngjum voða mikið, lesum, spjöllum, teljum tær og fingur - og í dag bjuggum við til klósettrúllukubba :)
Grallaraspóinn minn sat ábyggilega í tíu mínútur og raðaði saman klósettrúllum. Hann hefur aldrei fengist til að sitja svona lengi áður.
Ég fór svo að hugsa hvort við gætum ekki föndrað eitthvað sniðugt úr rúllunum og fékk snilldarhugmynd (þó ég segi sjálf frá). Við föndruðum þroskaleikfang úr klósettrúllunum.
Við máluðum hverja klósettrúllu í tveimur litum. Hver litur var notaður tvisvar sinnum. Hugsunin var að það ætti að para saman litina, á sama hátt og maður parar saman punktana á domino kubbum.
Þannig gátum við eflt hreyfiþroskann (þegar hann raðaði rúllunum saman) og vitsmunaþroskann (þegar hann paraði saman samstæða liti). Í bónus fengum við stórskemmtilegt föndurverkefni sem við unnum saman.
Kveðja, Hanna