Monday, September 28, 2015

Glatað góðverk?

Þessi plómupæ tengist færslunni ekki neitt, en allt er betra með smá pæ - er það ekki?

 
Annað slagið hef ég lesið fréttir af einföldum, fallegum og hversdagslegu góðverkum sem hafa ratað í fjölmiðla eftir að þeir sem þau hafa unnið, hafa skrifað um þau á Facebook. Ég hef líka lesið athugasemdirnar við þessar fréttir, og einmitt þær eru tilefni þessarar færslu.
 

Glatað góðverk

Um helgina birtist ein svona frétt á dv.is, og eftirfarandi athugasemdir fylgdu.
"Það var nú góðverk! Gefur einhverja smáaura til að geta skrifað um það á Facebook og litið út eins og einhver hetja."
"Mér finst nú góðverk missa sjarmann ef maður þarf að skrifa facebook status um hvað maður er frábær að hjálpa öðrum."
"Vá.. hann skipti klinki í seðla fyrir manninn og leyfði honum að eiga afganginn. Og mættur á facebook til að tilkynna heiminum það"
"Svo kemur í ljós að þessi viðkomandi maður sem hjálpar skipti smápeningum í í stærri mynt og bætti við 7 pundum sem eru jú hvað 1400 krónur. Vissulega fallegt en varla nokkuð einsdæmi."
 "Erlend frétt - í forgrunni á miðlinum!"
Svipaðar athugasemdir hef ég t.d. lesið við fréttir af unglingsstrák sem bauð heimilislausum manni upp á pítsu, konu sem borgaði matarinnkaup fyrir einstæða móður sem hafði fengið synjun á kassanum í Bónus og annarri sem gaf sér tíma til að aðstoða gamla konu sem hún sá rogast heim á leið með þunga poka á íslenskum vetrardegi með tilheyrandi roki, kulda og slabbi.



Reglur um góðverk

Ég held ég hljóti að vera eitthvað að misskilja reglurnar um góðverk, en þú getur kannski aðstoðað mig?

1. Hvað þarf góðverkið að kosta mikið til að vera nógu merkilegt til að segja öðrum frá?
2. Hefði verið í lagi að fréttin væri í forgrunni á miðlinum, ef atvikið hefði átt sér stað á Íslandi?
3. Er mjög mikilvægt að allar fréttir séu af atvikum sem eru einsdæmi, eða gildir það bara um fréttir af góðverkum?
4. Verður góðverkið alveg glatað ef skrifað er um það á Facebook? Núllast það út?


Mín skoðun

Persónulega finnst mér fréttir af þessum hversdags-góðverkum aðeins af hinu góða. Þegar ég les þær, langar mig að hjálpa öðrum. Ég á engar stórar upphæðir og get ekki hjálpað öllum í einu, en ég get kannski auðveldað einhverjum lífið bara pínulítið í dag. Það er eitthvað, er það ekki?

Flest sækjum við einhvern innblástur á samfélagsmiðlum - og þó það sé rosalega skemmtilegt að uppgötva nýja kökuuppskrift, nýjan blómavasa í stofuna eða nýja leið til að nota matarsóda við heimilisþrif - þá finnst mér mun verðugra að uppgötva nýja leið til að bæta umheiminn og gleðja náungann.



Kveðja, Hanna

Wednesday, September 23, 2015

Gleði og stolt

 

Um helgina var haldið upp á Skövde Pridefestival í fyrsta skipti. Hátíð sem, eins og Hinsegin dagar í Reykjavík, fagnar fjölbreytileikanum og minnir á mikilvægi þess að allir njóti sömu mannréttinda.

Á leiðinni í gleðigönguna átti eftirfarandi samtal sér stað:
Ég: Hvers vegna heldur þú að það sé svona mikilvægt að hafa svona hátíð - þar sem maður sér að allir eru ólíkir og glaðir saman?

Hann: Af því að annars þorir maður ekki að vera eins og maður vill.

Ég: En afhverju er það svona mikilvægt að maður þori því?

Hann: Kannski verður maður annars bara leiður og finnst ekkert gaman.

Ég hef sjaldan verið eins ótrúlega stolt. Tæplega fimm ára gamall, litli, klári og fallegi sonur minn veit nú þegar nokkuð sem margir fullorðnir eiga enn eftir að læra.


Kveðja, Hanna



Friday, September 18, 2015

Annar prinsessukjóll


Ég er búin að sýna þér handverk frá ömmum, mömmu og fleirum en er eiginlega hálfspéhrædd við að sýna mitt eigið. Það bliknar allt sem ég geri í samanburði við þessi listaverk sem þær gera. Ég þarf bara að minna mig á að þær eru búnar að vera að töluvert lengur en ég :)

Ég ætla samt að stíga út fyrir þægindahringinn og leyfa þér að sjá. Það verður  náttúrulega allt gullfallegt með svona fyrirsætu <3


Ég saumaði blúnduborða, sem ég átti afgangs úr öðru verkefni, aftan í kjólinn í staðinn fyrir að setja tölu. Mér finnst það koma ægilega krúttlega út.


Hún leit nokkrum sinnum upp til mín...



 ...en þótti Transformer-karlinn sem bróðir hennar skildi eftir í sófanum mun meira spennandi en ég.



Litlu fingurnir eru voða forvitnir og krúttan litla vill smakka allt, svo við þurfum aldeilis að taka okkur í því að skilja ekki eftir dót með svona litlum hlutum í þar sem hún nær til.


Fimm ára legosnillingar og forvitin fimm mánaða snúlla er kannski ekki alveg besta blandan. Æ, jú... oftast er það alveg fullkomin blanda. Bara ekki þegar kubbarnir gleymast á stofugólfinu.


 Krúttlega samfellan með hvíta kraganum er frá Lindex.

  


Ég notaði uppskrift úr Sandnes ungbarnablaði nr. 1504 (sjá mynd), en breytti reyndar hálsmálinu aðeins. Nú er ég byrjuð á næsta kjól (þessum á forsíðunni), úr yndislegu og dúnmjúku fjólubláu alpakka silki. 


Kveðja, Hanna

Thursday, September 17, 2015

Sumarbragð



Ég var að fletta í gegnum nokkrar frá sumrinu og rakst á nokkrar frá jarðaberjatínslunni okkar. Við fórum á jarðaberjaakur rétt hjá bænum okkar og tíndum heil 6 kíló.

Ég kann eiginlega ekki að lýsa bragðinu af nýjum berjunum... þau smökkuðust eiginlega bara ekkert eins og jarðaberin sem ég hef keypt út í búð. Ekki einu sinni eins og þau sem ég hef keypt fersk á torginu.

Það fór svona svipað mikið upp í okkur á akrinum og við tókum með heim. Berin voru volg og mjúk, og bókstaflega bráðnuðu upp í manni.  Smökkuðust eiginlega bara eins og... sumar? Ef það er bragð? Mmmmm!

Við hefðum ekki þurft að tína svona mikið. Gáfum helling með okkur, og frystum líka. Næsta sumar fer ég oftar og tíni minna í einu. Sumarbragðið breytist nefnilega svo fljótt í svona "venjulegt jarðaberjabragð".




Mömmukúturinn minn gaf yndislegu nágrönnum okkar eitt berjabox, sem hann skreytti svona fallega með regnboga :) Krútt!
 
Kveðja, Hanna

Wednesday, September 2, 2015

Krúttlegur kjóll

Þessi kjóll er enginn venjulegur kjóll, og mér þykir ótrúlega vænt um hann.

Það var listakonan hún amma mín Jóhanna, sem gerði kjólinn en elskulegur pabbi minn passaði upp á hann í 26 ár - alveg síðan ég klæddist honum sjálf. Nú hangir hann hér heima fyrir litlu ljúfuna mína.

Litla draumadísin fékk einmitt að máta kjólinn um daginn á meðan mamman myndaði smá :) Ég leyfi nokkrum myndum að fylgja með.

Ég, sem er nú frekar væmin og viðkvæm almennt (og var þarna kasólett með tilheyrandi hormónabrengli), viðurkenni alveg að það trilluðu nokkur gleðitár fram þegar pabbi kom með kjólinn til mín. Ég hafði ekki hugmynd um að hann hefði geymt hann allan þennan tíma. 



Hér er svo ég í kjólnum... :)



Takk amma og pabbi <3

Kveðja, Hanna Björg


Tuesday, September 1, 2015

Langt ferðalag


 
Ferðalagið til Laholm, sem ég skrifaði um síðast, var voða fínn undirbúningur fyrir Íslandsferðina sem við fjölskyldan fórum í nú í byrjun ágúst. Þá var liðið næstum eitt og hálft ár síðan við vorum síðast á Íslandi, svo það var voðalega gott að fara aðeins "heim".

Ferðalögin, bæði milli landa og innanlands, gengu ótrúlega vel. Litla ljúfan svaf næstum allan tímann og stóri stúfurinn ýmist svaf, lék "Frúna í Hamborg" eða spilaði í spjaldtölvu. Þessi yndislegu dásemdarbörn sem ég á :)

Við gerðum auðvitað heilmargt, en samt gerðum við ekki allt sem við ætluðum. Þannig er það alltaf þegar við förum til Íslands. Við gleymum nefnilega alltaf að reikna með tímanum fyrir einföldu og notalegu stundirnar með fjölskyldunni og vinum. Heilum dögum sem fara bara í að  spjalla, knúsast, leika og vera saman. Það eru einmitt þær stundir sem eru dýrmætastar af öllum. Þegar öll athyglin er á fólkinu okkar, ekki einhverju öðru.