Saturday, May 16, 2015

Fólkið í hausnum


Þegar maður er fjögurra og hálfs árs er svo margt sem mann langar að vita. Svo margt sem maður veltir fyrir sér og svo margar spurningar sem brenna á manni. Enda heimurinn fullur af forvitnilegum og furðulegum fyrirbærum :)

Stóra spurning dagsins var eftirfarandi:

"Mamma, afhverju er fólkið í hausnum á mér er alltaf að syngja?"



Mvh, Hanna

Wednesday, May 13, 2015

Mamma belja


"Mamma, þú ert eins og belja í dag" sagði litli hreinskilni ljúfurinn minn þegar við sátum og lituðum í morgun.

Í hormónabrenglaðri viðkvæmni minni hélt ég að þessari athugasemd væri beint að holdafari mínu, og sagði drengnum að svona segði maður ekki! Hvorki við móður sína né nokkurn annan.

Það sat líka enn í mér þegar fórum á kaffihús um daginn og drengurinn spurði mig hátt og snjallt fyrir framan u.þ.b. tíu manns hvort það væru fleiri börn í maganum á mér - hann væri enn svo SVAKALEGA stór.

Elsku barnið horfði þá á mig og spurði afhverju hann mætti ekki segja svona - mömmur og beljur væru líkar, því báðar búa til mjólk. Mér varð litið niður og við sprungum bæði úr hlátri.



Kveðja, Hanna


Friday, May 8, 2015

Regn og róló


Það er búið að vera ansi blautt vor hjá okkur hér í Skövde. Við höfum ekki látið það aftra okkur frá því að fara í göngutúra og rólóferðir, þó það verði að viðurkennast að útiveran væri eflaust búin að vera meiri ef veðrið hefði verið betra.

Reyndar er það bara ég sem læt smá rigningu á mig fá. Stóri bróðir vill ólmur fara út að hoppa í pollum og tína ánamaðka... svo skilur hann ekkert í því að hann fái ekki að hafa smá ormasafn í herberginu sínu og finnst ég hálfpjöttuð.

Ég leyfi nokkrum myndum úr einni hjólaferðinni að fylgja með :)