Tuesday, July 31, 2012

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft


Ég á það til að gleyma því að allt sem ég segi og geri nálægt syni mínum, lærir hann af mér. Jafnvel þó ég sé ekki að reyna að kenna honum það. Fyrir honum, er allt sem ég segi og geri rétt.

Ég vildi óska að ég gæti sagt að ég sé fullkomin mamma sem gerir allt rétt en svo er ekki raunin. Ég reyni þó alltaf mitt besta og t.d. sleppi ég því að blóta og baktala fólk, og ég reyni að vera alltaf jákvæð. Ég reyni líka eftir fremsta megni að muna eftir að segja alltaf "takk" og "fyrirgefðu".


Því miður gleymi ég mér stundum, og tek jafnvel ekki eftir því. Ef ég hins vegar verð þess vör að ég hafi hegðað mér illa fyrir framan son minn, geri ég mitt besta til að kenna honum að svona eigi ekki að hegða sér. Ef það á við, bið ég þann afsökunar sem ég kom illa fram við. Sérstaklega ef hann á sjálfur skilið að fá afsökunarbeiðni ef ég t.d. hækkaði róminn eða hlustaði ekki nógu vel á litla fallega drenginn minn.


Ég trúi því að börn læri það sem fyrir þeim er haft, ekki það sem við þau er sagt. Ávinningur þess að setja gott fordæmi fyrir börnin okkar er gríðarlegur. Við kennum þeim hvernig þau eigi að koma fram við aðra en við kennum þeim líka hvernig aðrir eiga að koma fram við þau.

Ertu ekki sammála?

Kveðja, Hanna.

P.s. Það eru ekki bara foreldrar sem geta gefið gott fordæmi. Við getum öll bætt hegðun okkar í garð hvors annars til að sýna öllum börnum gott fordæmi.



Monday, July 30, 2012

Heimatilbúið mömmukaffi


Það er fátt sem mér finnst skemmtilegra en að spjalla við góða vinkonu yfir kaffi og kökusneið. Eftir að ég átti elsku strákinn minn hefur þó stundum verið svolítið erfitt að finna stað og stund sem hentar nógu vel till þess að ég geti slappað af notið kaffitímans. Það er vissulega til fullt af kaffihúsum sem henta vel fyrir leikandi börn og kaffidrekkandi mæður, en flest passa betur þeim sem eiga eldri börn en ég.

Vegna þessa, var ég orðin mjög dugleg að bjóða vinkonum mínum (og börnunum þeirra) heim til mín í mömmukaffi. Ég skil ekkert í sjálfri mér að hafa ekki fattað að gera það fyrr.


Ég gat meira að segja boðið upp á ljómandi fínan Café Latté, eftir að ég keypti mjólkurþeytara í Ikea fyrir 195 kr. :) Ég frysti svo bara nokkrar muffinskökur og átti tilbúið krem í ísskápnum. Útkoman varð ósköp notalegur kaffitími með góðri vinkonu, í afar afslöppuðu umhverfi þar sem ég vissi að öll leikföngin voru hrein og enginn gaf mér illt auga þó ég vippaði annarri túttunni út til að gefa unganum mínum smá mjólkursopa :) Ekki skemmdi svo fyrir að þetta var töluvert ódýrara en að fara á "alvöru
kaffihús".


Kveðja, Hanna



P.s. Ég nota stút frá Wilton (lokaða stjörnu í stærri kantinum) til að skreyta kökurnar eins og hér að ofan. Þá byrja ég á því að sprauta kreminu á miðja kökuna og fer svo hring eftir hring út að köntunum. Ég hafði hugsað mér að skrifa stutta færslu um einfaldar kökuskreytingar seinna. Hvernig líst þér á það?



Thursday, July 26, 2012

Ber og berar táslur.

Það er svo ótrúlega fallegt og gott veður hjá okkur að ég má varla vera að því að setjast fyrir framan tölvuna :)

Litli stúfurinn borðaði hluta af morgunmatnum í garðinum. Hann var alsæll með það :) Ooo, mér finnst fátt krúttlegra en litli kúturinn minn á táslunum í grasinu.

 

Við fengum mangó og jarðarber í morgunmat :) Ótrúlega girnilegt, finnst þér það ekki? Mér finnst æðislegt að byrja daginn á ferskum ávöxtum.


Kveðja, Hanna

Af busli og sulli


Það er lítið vatn rétt hjá bænum okkar sem við keyrum stundum að í góðu veðri. Við vatnið er hvítur sandur og á heitum dögum verður þarna notaleg „strandarstemming“. Síðastliðna viku erum við búin að fara tvisvar sinnum upp að vatninu.
 
Við tökum með okkur teppi og nesti, sundföt og handklæði. Ég verð að viðurkenna að mér finnst best að hafa það bara notalegt á teppinu í sólbaði. Ég er ekkert stórkostlega hrifin af því að baða mig í vatninu en ég læt mig hafa það og busla með syninum þar sem grynnst er. Það er sko alveg þess virði þegar ég heyri hann skríkja úr kæti. 
 
Sérðu hvað sonur minn er með? Þetta er svalahalda sem kallast dwink. Mér finnst hún stórsniðug :) Litli karlinn minn getur ómögulega drukkið svala án þess að hella helmingnum yfir sig án hennar.

Hún er úr hörðu plasti og með höldum svo það sullast ekki neitt. Að auki er svolítið erfitt fyrir litla grallara að ná fernunni uppúr. Það er gat á botninum sem maður getur ýtt í gegnum til að ýta fernunni uppúr höldunni. Minn stúfur hefur ekki enn uppgötvað það.

Kveðja, Hanna





P.s. Ég þoli ekki að segja og skrifa Hagkaup. Ég veit aldrei hvernig ég á að beygja það. Er það eintölu eða fleirtölu orð? Hefði ég t.d. átt að segja „ég keypti mína í Hagkaupum“? Í auglýsingum frá versluninni sjálfri er það meira að segja misjafnt hvort Hagkaup sé í eintölu eða fleirtölu.



Tuesday, July 24, 2012

Aukaskálar og pastaréttur

Þegar ég elda, eða baka, er ég eiginlega alltaf með eina ruslskál og eina áhaldaskál. Þ.e. annars vegar skál til að setja rusl í (umbúðir, afskurð og fleira) og hins vegar skál sem ég nota undir áhöld sem ég þarf á meðan ég er að elda/baka. Ef þú gerir þetta ekki nú þegar, mæli ég með því. Eldhúsið verður mun snyrtilegra eftir eldamennskuna/baksturinn, og það verður miklu fljótlegra að ganga frá öllu.

 

Ég tók mynd þegar ég eldaði kvöldmatinn, til þess að sýna þér hvernig ég nota skálarnar. Mér fannst svo alveg upplagt að taka bara mynd af matnum líka og setja inn uppskriftina af kvöldmatnum :)



250 gr   Pasta
120 gr   Beikon
140 gr   Skinka
1 stk     Paprika (ég notaði hálfa rauða og hálfa gula)
8 stk     Sólþurrkaðir tómatar
100 gr.  Ostur
1/2 l      Matreiðslurjómi
            Kjötkraftur
            Pipar

Ég sauð pastað. Steikti svo beikonið þannig að það væri næstum tilbúið og bætti síðan skinkunni, paprikunni og tómötunum út á pönnuna. Ég lét þetta vera á pönnunni í svona 5 mínútur og hellti svo rjómanum, ostinum, smá kjötkraft og pipar út á. Ég man ekki nákvæmlega hvað ég setti mikið af kjötkraft og pipar en þú getur bara smakkað þig áfram. Þegar rjóminn byrjaði að sjóða hrærði ég þangað til allur osturinn var bráðnaður. Næst lækkaði ég undir og blandaði pastanu saman við sósuna. Síðast setti ég lok á og lét malla í u.þ.b. 5-10 mínútur. Þá var þetta tilbúið :)

Pastaréttir eru frábærir til að taka til í ísskápnum. Ég nota eiginlega aldrei fyrirfram ákveðna uppskrift þegar ég elda svona pastarétti. Oftast nota ég bara það sem er til :) Útkoman getur verið misjöfn en þessi réttur heppnaðist barasta alveg ágætlega :)


Kveðja, Hanna



Monday, July 23, 2012

Paprikuplanta & afsökunarbeiðni.

 

Ég fór með vinkonu minni í mollið í dag. Þar keypti ég þessa hrikalega krúttlegu paprikuplöntu sem prýðir núna eldhúsgluggann minn :)

Við kíktum líka aðeins í H&M, og þegar við gengum inn í mátunarklefann til að prófa nýjar buxur sat þar eldri maður og leit út nokkurn veginn eins og maðurinn á myndinni hér að neðan. 

Mynd fengin að láni frá SuperStock

Við gerðum auðvitað ráð fyrir að við værum þær einu í allri Svíþjóð sem tala íslensku og vinkona mín sagði: "Æ, sérðu greyið manninn þarna. Ég vorkenni honum eiginlega." Ég svaraði: "Já, hann virðist ansi bugaður, en hann brosir þó svo hann hefur það varla svo slæmt."

Við héldum svo okkar striki og vinkonan prófaði þessar líka fínu buxur. Þegar hún hafði verið í mátunarklefanum í nokkrar mínútur heyrði ég svo bugaða manninn tala við konuna sína. Á ÍSLENSKU! Úff!

Við vinkonurnar urðu skyndilega þær buguðu og skömmuðumst okkar svo, að við flýttum okkur út úr búðinni - eldrauðar í framan, með skottið á milli lappanna og báðum manninn ekki einu sinni afsökunar. Er það nú! 

Hann fær hér með formlega afsöknarbeiðni.


Kveðja, Hanna


Sunday, July 22, 2012

Góður dagur

Þórey Vala, mágkona mín, er í heimsókn hjá okkur hér í Svíþjóð. Okkur finnst voða gaman að hafa hana :) Sérstaklega litla kútnum mínum sem elskar að draga frænku sína á eftir sér út um allt.


Í dag fórum við í Skara Sommarland. Þar fundu allir eitthvað skemmtilegt að gera. Við mæðginin dunduðum okkur í barnalauginni og svo í barnatívolíinu, á meðan pabbi og Þórey Vala sýndu hversu miklir ofurhugar þau eru, í risastórum rennibrautum og rússíbönum.



Eitt af tækjunum sem kúturinn fékk að prófa var þessi flotta rafmagnsskurðgrafa :) Honum fannst það æði. Hann mokaði og mokaði. Svo hætti hann allt í einu, kallaði: "Kaffi! Kaffi!" og hoppaði af. Frekar fyndið :)



Við tókum fullt af gómsætum berjum með okkur. Ber eru eiginlega alveg brilliant þegar maður fer í svona ferðir. Ekkert til að skera niður eða flysja, og subbuskapurinn helst í lágmarki.


Kveðja, Hanna


Saturday, July 21, 2012

Pizzakvöld


Í kvöld var pizzakvöld. Ég gerði heilhveitipizzur úr sama deigi og ég notaði í snúðana sem ég gerði í gær. Þær heppnuðust ótrúlega vel :) 


Mér fannst svolítið gaman að dunda mér við að fletja deigið út þannig það yrði svona fallega hringlaga. Ég notaði pizzaskera til þess að skera frá köntunum þar sem þess var þörf. Afskurðinn notaði ég síðan til að gera litlar pizzur fyrir soninn. Það sló alveg í gegn :)



Kveðja, Hanna.


Friday, July 20, 2012

Snúðar með súkkulaðikremi



Heimilisfaðirinn byrjaði í sumarfríi í dag. Því var fagnað í kaffitímanum :)
 
Ég bakaði hrikalega góða heilhveiti-kanelsnúða með alvöru þykku súkkulaðikremi. Nammi namm. Uppskriftin af súkkulaðikreminu er fjölskylduleyndarmál en hér kemur uppskriftin af snúðunum. 

Heilhveitisnúðar

150 gr       Heilhveiti
200 gr       Hveiti
1/2  tsk     Sykur
1/2 bréf     Þurrger
3 dl           Vatn
1 dl           Olía

Byrjaðu á að setja vatn, sykur og ger í skál. Láttu það svo freyða (tekur um 5 mínútur). Næst skaltu setja heilhveitið, hveitið, og olíuna saman við. Svo þarf að hnoða deigið (KitchenAid sér um það fyrir mig). Láttu deigið hefast í a.m.k. klukkustund.

Næst fletur þú deigið út, penslar það með matarolíu og stráir kanelsykri yfir. Svo þarf að rúlla deiginu upp og skera niður í hæfilega stóra bita. Raða snúðunum síðan á bökunarplötu og setja í ofninn.

Bakaðu snúðana í u.þ.b. 12 mínútur við 175°C.




Verði þér að góðu!
Kveðja, Hanna.


P.s. Sérðu hvað ég á fínan kökudisk og kaffibolla? Snillingurinn hún mamma mín málaði svona sett handa mér. Meira um það seinna :)


Thursday, July 19, 2012

Fallegasta blóm í heimi

Mér finnst þetta fallegasta blóm sem til er. Þetta er allra fyrsta "leikskólaföndrið" sem við foreldrarnir höfum fengið frá duglega litla stráknum okkar. Það situr fyrir ofan eldavélina, og hlýjar mér í hjartanu í hvert sinn sem ég lít það.




Það er svo gaman að sjá hvernig litli drengurinn minn ljómar allur þegar hann fær hrós.

Þú ættir að sjá hvað hann verður montinn þegar hann bendir á blómið sitt og segir: "Eglingi mála".

Hann fær alltaf sömu viðbrögðin - mömmu eða pabba sem skælbrosa út að eyrum og segja á móti: "Já, ofsalega varstu duglegur að mála blómið". Svo kíkjum við saman á blómið. Ofsalega varlega samt, því mamma hans ætlar að eiga þetta blóm alla ævi.

Kveðja, Hanna


Wednesday, July 18, 2012

Þrír litir af ávöxtum á dag


Ég er ein af þeim sem bara geta ekki hugsað sér að fara í gegnum daginn án þess að borða eitthvað sætt. Ég er þó svo heppin að mér finnst ávextir og ber miklu betri en sælgæti - og samt er ég alveg agaleg ef ég veit af nammi hérna heima.

Ég læðist inn í eldhús, og litli bitinn sem ég ætlaði að fá mér verður allt í einu að heilu súkkulaðistykki. Oh, ég skammast mín fyrir að segja frá því.

Fyrir nokkru setti ég mér markið: að borða þrjá liti af ávöxtum á dag. Ég get svo svarið það að ég pæli ekki einu sinni í súkkulaðinu, sem situr í efstu hillunni í eldhússkápnum á móti vaskinum, þá daga sem ég næ markmiðinu. Ég fæ líka aldrei samviskubit yfir því að hafa borðað yfir mig af ávöxtum. Þvert á móti líður mér betur með hverjum bita :)

Í dag borðuðum við bláberin, jarðaberin og vínberin sem við keyptum á torginu í gær. Þau voru æðisleg :) Ótrúlega sæt og safarík.

Ávextir eru líka svo fallegir, sjáðu bara myndina. Þetta finnst mér mun girnilega en mynd af marssúkkulaði. Ertu ekki sammála?

Kveðja, Hanna


Tuesday, July 17, 2012

Brúna peysan


Ég tók þessa mynd af fallega og yndislega syni mínum, þegar hann lék sér í garðinum okkar síðasta vor.

Við fjölskyldan erum svo heppin að allt í kringum okkur eru ótrúlega hæfileikaríkir og duglegir listamenn.

Monday, July 16, 2012

Súkkulaðið


Ég verð að segja þér frá uppáhalds namminu mínu Maribou Premium Dark Chocolate & Mousse. Það er dökkt súkkulaði fyllt með súkkulaðimús og súkkulaðikremi.

Mér finnst það best með mjólk en það er líka æðislegt með kaffi. Svo þarf ég ekki nema einn til tvo bita - þá hef ég fengið nóg. Ég sleppi því þá að gúffa í mig mörgum sneiðum af köku eða heilum poka af sælgæti.


Mmmmmm, ég ætla að fá mér bita.

Kveðja, Hanna


Sunday, July 15, 2012

Drekakaka (með sniðmáti)

Ég fékk að halda upp á fyrsta barnaafmælið í fyrra, þegar sonur minn varð eins árs. Mér fannst það alveg ofsalega skemmtilegt. Brosadi börn, fallegir fjölskyldumeðlimir, marglitar blöðrur, litskrúðugir pakkar, fjörug tónlist og óhefðbundnar kökur.

Drekakaka

Þrátt fyrir að afmælisdrengurinn fengi enga köku sjálfur, ákvað mamman að leyfa sköpunargleðinni aðeins að njóta sín. Pabbinn fékk að velja þema fyrir afmæliskökuna og það var dreki sem varð fyrir valinu. Mér fannst dreki svolítið ógurlegur, svo að þegar kakan var tilbúin minnti hún eiginlega frekar á litla sæta risaeðlu. Hún var samt sem áður kölluð drekakaka.


Svona fór ég að:
  1. Ég bjó til einfalt skúffukökudeig sem ég bakaði svo í tveimur hringlaga formum. 
  2. Síðan frysti ég kökurnar (ath. mikilvægt að þær fái að kólna áður en þær eru settar í frysti).
  3. Svo teiknaði ég sniðmát á smjörpappír (sjá myndir fyrir neðan).
  4. Ég bjó til smjörkrem og litaði það grænt með Wilton matarlit.
  5. Skar síðan frosnu kökurnar eftir sniðmátinu.
  6. Stillti hlutunum upp og festi þá saman með kreminu.
  7. Síðast þakti ég alla kökuna með kreminu og skreytti með After Eight bitum.


Pís of keik!
Kveðja, Hanna



Saturday, July 14, 2012

Egg í muffinsformi


Elsku mamma og Maríus voru hjá okkur í síðustu viku. Við áttum æðislegan tíma saman sem við nýttum meðal annars í að skoða bæinn okkar, spjalla, spila, hlæja og borða.

Mér fannst svolítið gaman hversu heillaður Maríus (sem er kokkur) var af muffinseggjunum mínum. Þau voru smá tilraunastarfsemi sem heppnaðist svona líka ofsalega vel. Ég gerði þrjár útfærslur af muffinseggjunum. Ég segi þér alveg örugglega frá þeim öllum, en ég ætla að byrja á einföldum eggjum & beikoni.




Ótrúlega einfalt, skemmtilegt og sniðugt.

Egg, Beikon, Uppskrift, Einfalt, Í ofni, Muffins, Muffinsegg

Þú þarft:
Egg
Beikon
Muffinspönnu
Muffinsform



 Aðferð:
1. Hita ofninn, 180°C.
2. Setja skúffu neðst í ofninn.
3. Raða beikoni á grind og setja inn í ofninn.
4. Leggja muffinsform í muffinspönnu.
5. Setja eitt egg í hvert form og setja inn í ofninn.
6. Taka allt út eftir u.þ.b. 25-30 mínútur.

Einfaldara verður það ekki :)


Kveðja, Hanna