Sunday, July 26, 2015

Smá ferðalag


Sérðu nýja fína skápinn minn? Ég er svo ánægð með hann að það hálfa væri nóg. Hann heitir Isala og fæst í Ikea. Við fórum í smá ferðalag í vikunni sem endaði á Ikea-ferð í Jönköping. Við ætluðum reyndar að kaupa rosalega einfaldan skenk úr Bestå seríunni en þessi æðislegi skápur var bara alveg harðákveðinn í að koma með okkur heim :) Mér til mikillar gleði.

Það tók Ella smá stund að koma saman skápnum. Á myndinn hér að neðan er hann hálfnaður. Hann var búinn að setja allan skápinn saman en átti eftir að "rétta hurðarnar". Þær eru náttúrulega rammskakkar eins og allir sjá ;) Ég viðurkenni alveg að ég hefði ekki látið þennan millimetra-mun fara í taugarnar á mér, en vegna þess að Elli er vandvirkasti maður allrar Evrópu á ég núna geggjaðan skáp með alveg þráðbeinum hurðum.


 Litla ljúfan varð auðvitað svöng á löngum göngutúrnum, svo við tókum pásu í hægindastóladeildinni. Það er greinilega vinsæll staður till brjóstagjafar, því þar sátu tvær aðrar mömmur með litla svanga unga :)


 Þó að Ikea hafi verið skemmtileg þá var það skemmtilegasta við stutta ferðalagið okkar heimsóknin til ömmu og afa. Þangað er alltaf jafn notalegt að koma.

Litli ljúfur var alsæll í garðinum með langömmu. Tíndi þar allskonar ber og fékk að vökva blómin hennar. Mig langar alltaf að taka til hendinni í heima og í garðinum mínum eftir heimsóknir til ömmu og afa. Þau gefa manni svo mikinn innblástur og góðar hugmyndir.


Ljúfan mín litla var líka hrifin af þessari fínu langömmu, og reyndar langafa líka - þó hann hafi ekki náðst á mynd í þetta skiptið. Þetta var fyrsta ferðalag prinsessunnar og það gekk alveg ótrúlega vel. Hún svaf alla leiðina frá Skövde til Laholm, og á heimleiðinni svaf hún og hló að bróður sínum til skiptis. Þvílík dásemdarbörn, sem ég á.



Takk fyrir okkur, amma & afi!



Kveðja, Hanna

Sunday, July 19, 2015

Að lemja eða kremja


"Afhverju elskar þú og pabbi að lemja mig?"

...spurði stubburinn áðan. Ég fékk auðvitað í hjartað og spurði hvað hann væri að meina, við hefðum auðvitað aldrei lamið hann. Hann hélt það nú samt... á hverjum degi! -Og litlu systur líka.

Til að gera langa sögu stutta, þá var krúttköggullinn minn aðeins að ruglast á lemja og kremja - og svo kremja og knúsa (knús á sænsku er "kram"). Spurningin var sem sagt "Afhverju elskar þú og pabbi að knúsa mig?".

Svona skemmtilegur misskilningur kemur reglulega upp hér, enda ekki alltaf auðvelt að læra öll þessi tungumál í einu. Hann stendur sig þó svo ótrúlega vel, þessi duglegi strákur sem ég á. Ég er svo stolt af honum að ég er að springa.

Nýjasti draumurinn er að verða eins og "Mike" (Michael Jordan). Myndirnar í færslunni eru frá körfuboltaæfingu gærdagsins. Stubburinn alveg með taktana á hreinu, og fyrir löngu orðinn betri en mamma sín. Litla systir fékk að koma með, innpökkuð í kósý teppi frá langömmu Jóhönnu.










Kveðja, Hanna

Friday, July 17, 2015

Þessi fallegi dagur


Í u.þ.b. 25 stiga hita sat ég úti á palli í hádeginu í dag með krúttlegan kaffibolla og prjóna. Litla ljúfan mín svaf værum blundi á meðan í rúma tvo tíma, þrátt fyrir að hafa sofið alla nóttina og vaknað klukkan rúmlega 7 í morgun, og strákarnir mínir fóru saman í hjólatúr og á æfingu.

Sumir dagar eru svo yndislega værir og fallegir.


Kveðja, Hanna





Wednesday, July 15, 2015

Systkinakærleikur

 

Það er svo dásamlegt að fá að fylgjast með fallegu litlu systkininum kynnast. Elskulegi, duglegi drengurinn minn er svo ótrúlega góður við ljúfu litlu systur sína, sem er farin að spjalla og hlæja svo skemmtilega á móti.

Myndirnar sem fylgja færslunni eru teknar fyrr í vikunni, klukkan korter í sex; þegar börnin voru búin að vera vakandi í smá stund. Foreldrar og börn voru ekki alveg sammála um hvort það væri ennþá nótt eða hvort dagurinn væri loksins byrjaður. Börnin höfðu betur, og við fórum á fætur.

Þrátt fyrir að myndirnar séu hreyfðar og ekki af bestu gæðum, eru þær svo fullar af ást og gleði að ég bara varð að deila þeim með þér.


Kveðja, Hanna

Saturday, July 11, 2015

Heimsóknir


Það erfiðasta við að búa erlendis, er fjarlægðin frá fjölskyldunni. Það er alltaf jafnleiðinlegt að geta ekki tekið þátt í fallegu og skemmtilegu gleðistundunum; brúðkaup, afmælisveislur, þegar nýjir fullkomnir litlir einstaklingar koma í heiminn eða þegar einhver útskrifast úr stembnu námi. Það nístir líka í hjartað að geta ekki syrgt saman á erfiðum tímum.

Mér finnst líka alltaf leiðinlegt að hugsa til þess hvað yndislegu litlu börnin mín missa af miklu - að hafa ekki ömmur, afa, frænkur og frændur í kringum sig. Svona smáatriði eins og að vera sóttur í leikskólann af ömmu eða að fá að gista hjá frændsystkinum verða allt í einu svo stór.

Við erum þó svo heppin, að fólkið okkar er voða duglegt að heimsækja okkur. Við erum t.d. búin að vera með heimsóknir frá Íslandi síðastliðinn mánuð. Okkur þykir ósköp vænt um það að fólkið okkar kjósi að koma og eyða fríinu sínu hjá okkur. Við erum líka ótrúlega heppin með yndislega vini hér í Skövde. Án þeirra værum við löööngu flutt aftur til Íslands.

Nú eru allir gestir farnir og húsið hálftómlegt, verð ég að viðurkenna. Ég verð alltaf svolítið sorgmædd þegar gestirnir okkar fara, þá sérstaklega mamma. Það falla alltaf nokkur tár þegar hún fer aftur heim. 

Núna erum við búin að panta okkur ferð til Íslands til að skíra litlu ljúfuna okkar, svo það er ekki langt í næsta knús.

Ég læt nokkrar myndir frá síðustu vikum fylgja með.

Ömmu- og afaknús á ströndinni :)


...og fleiri knús heima :)

Svona var amman stóran hluta heimsóknarinnar :)

Það var að sjálfsögðu spilað. Sumir unnu, aðrir töpuðu... förum ekki nánar út í það ;)

Litla Sólin sem heimsótti okkur með mömmu sinni.

Ljúfan mín <3

Það þarf ekki mikið til að hafa ofan af fyrir börnunum... vatn, skófla og fata er alveg nóg.

... segið "sís".


Steinhissa á þessari býflugu sem elti hana um allt!
<3
Systurnar <3
Það var ekki auðvelt að fá litla ljúfinn til að stoppa og brosa nógu lengi til að smella af :)
Ís í hitanum....
<3
Sumarstelpa :)

Bjútífúl... og alveg með sísið á hreinu :)
Heiða kann að njóta sumarsins :)




Kveðja, Hanna
 
P.s. Þú sérð glytta í nýja húsið mitt á nokkrum myndanna... það er þó efni í sérpóst :) Hlakka til að sýna þér betur.