Tuesday, November 20, 2012

Einföld og snyrtileg leið til að fylla á sprautupoka


 
Fyrir nokkru síðan lærði bestu leið í heimi til að fylla sprautupoka með kökukremi. Áður hefði ég alltaf reynt að halda pokanum opnum, og skófla kreminu ofan í. Mjög beisik, skyldi maður halda. En... það fór alltaf allt út um allt og þegar ég var búin að skreyta kökuna var gjörsamlega allur eldhúsbekkurinn, tvö viskastykki og ég sjálf útötuð í kremi!

Ég skil eiginlega ekki að ég hafi ekki fattað þetta sjálf ("takk, Martha Stewart"), en besta og einfaldasta leiðin til að fylla á sprautupoka er eftirfarandi.

1. Þú sækir nestispoka og glas.
2. Settu nestispokann ofan í glasið, og brjóttu efsta hlutann af honum yfir brún glassins (sjá mynd).
3. Settu kremið pokann.
4. Lokaðu pokanum (ég nota yfirleitt pokaklemmu, en það er líka alveg hægt að snúa bara upp á endann eða hnýta hnút).

Síðan klippirðu gat á annað hornið á botni pokans og setur pokann ofan í sprautupoka.

Þetta er ekki bara hundrað sinnum snyrtilegra. Ef þú gerir þetta, geturðu tekið nestispokann upp úr sprautupokanum hvenær sem er til að skipta um stút. Þetta er líka ótrúlega sniðugt ef þú ert að nota marga liti. Þá geturðu notað einn og sama sprautupokann fyrir alla litina.


Kveðja, Hanna

Thursday, October 18, 2012

Gleðitár


 Ég bakaði 250 gleðitár um daginn :) Gleðitár eru pínkulitlar súkkulaðimúffur með súkkulaðikremi.

Einhver gæti spurt: "Afhverju bakaðir þú fullt af pínkulitlum kökum í staðinn fyrir að baka bara eina stóra?"


Jú, það var vegna þess að ég var svo glöð og þakklát að mér fannst ég þurfa að deila því með svo mörgum.

Ég gaf kennurunum í leikskóla Litla Ljúfs nokkur tár. Þau eru frábær, öll með tölu. Það hefði aldrei hvarflað að mér að ég gæti treyst einhverjum svona fyrir gerseminni minni. Þau standa sig ótrúlega vel og eiga heldur betur skilið klapp á bakið (eða súkkulaði).



Samnemendur mínir og kennarar fengu líka tár. Það væri ekki svona gaman að læra án þeirra. Mér finnst frábært að vera í svona góðum hópi nemenda og kennara. Áhuginn, samviskusemin og metnaðurinn er svo hvetjandi að það hálfa væri nóg.


Í vinnuna fóru svo fullt af tárum. Það er sko ekki sjálfgefið að vera tekið jafn opnum örmum inn á vinnustað :) Hvað þá þegar maður kann ekki neitt og þarf aðstoð á tíu mínútna fresti. Vinnufélagar mínir áttu svo sannarlega skilin nokkur gleðitár fyrir þolinmæðina.


Kveðja, Hanna

Thursday, October 11, 2012

Nóg að gera...

Ég verð að viðurkenna að ég er hálf snortin vegna "bloggleysis-kvartananna" sem mér hafa borist :) Mikið er gaman að vita að svona margir séu að fylgjast með okkur hérna í útlandinu.


Ástæða blogg-leysisins er einfaldlega sú að ég hef varla haft tíma til að setjast niður síðustu vikur. Ég byrjaði nefnilega að vinna, síðan byrjaði ég í mastersnámi og svo byrjaði ég í annarri vinnu að auki.

Það er sem sagt alveg nóg að gera :) Ég hef svo reynt að nýta allan tíma utan vinnu og skóla með litla fallega drengnum mínum og fjallmyndarlegum föður hans. Stundum reyni ég að "múltí-taska" eins og sést á myndinni hér fyrir neðan :) Tek t.d. lærdómin með mér á róló. Það gengur misvel :)




Nú er álagið aðeins að minnka, svo hægt og rólega verður aftur almennileg regla á heimilinu. Ég get líka vonandi skrifað þér oftar :)

Kveðja, Hanna

Wednesday, September 19, 2012

Þegar Nína barði Geira

Litli ljúfur hefur ótrúlega gaman af því að hlusta á tónlist, og ef hún er flutt af börnum finnst honum tónlistin enn skemmtilegri. Við flökkuðum aðeins um YouTube í dag og ég sýndi honum m.a. nokkur myndbönd með Rokklingunum. Ég veit ekki alveg hvort okkar skemmti sér betur, mamman í nostalgíunni eða elsku drengurinn (jú reyndar veit ég það... það var alveg án vafa ég).

Það þarf að fylgja ein krúttmynd. Þó hún tengjist póstinum ekki :)

Ég held að flestir kannist við að hafa einhvern tímann misskilið söngtexta. Það hefur komið fyrir oftar en ég kæri mig um að muna hjá mér. Þegar við hlustuðum (og horfðum á) Nínu og Geira í flutningi Rokklinganna datt mér í hug misskilningurinn á þeim texta, sem ég áttaði mig ekki á fyrr en í kringum tvítugt.
"En Nína grét og gekk mér frá.
Hún gat ei skilið sem ég sagði þá."
Ég hélt, frá því að ég var bara 5 ára og fékk að hringja í útvarpið og biðja um óskalag, að Nína hefði lúbarið Geira - alveg gengið frá honum. Mér var létt 15 árum seinna þegar ég áttaði mig á því að hún labbaði bara í burtu frá honum.

Kveðja, Hanna

Thursday, September 13, 2012

Muffinsbrauð


Ég gerði rosa gott bananabrauð um daginn sem ég bakaði í muffinsformum. Ég man ekki alveg uppskriftina því ég smakkaði mig bara til og gleymdi að skrifa niður jafn óðum. Ég þarf endilega að reyna að gera brauðið aftur - og passa þá að hafa penna og blað við höndina.

Það besta við brauðið var að ég gerði það án sykurs. Notaði hunang í staðinn :) Það var alveg hrikalega gott. Betra ef eitthvað er.

Litli ljúfur hélt auðvitað að þetta væri kaka og borðaði brauðið með bestu lyst og bros á vör. Það væri kannski ráð að gera enn hollara brauð og setja það í muffinsform til að gera það girnilegra í augum lítilla kökugrísa?

Kveðja, Hanna

Wednesday, September 12, 2012

Nú legg ég augun aftur

Mér finnst svo dýrmætt að geta átt notalega stund með fallega litla drengnum mínum áður en hann fer að sofa á kvöldin. Hann er svo áhugasamur þegar ég les fyrir hann. Vill skoða allar myndirnar og prófa að segja öll skemmtilegu orðin sem hann heyrir. Það er líka alveg ómetanlegt að fá að strjúka fallegu litlu tásurnar hans og syngja fyrir hann þar til hann leggur aftur augun og svífur inn í Draumalandið.

Í næstum hvert skipti sem ég syng vögguvísur fyrir ljúfinn minn syng ég fyrir hann Nú legg ég augun aftur. Það finnst eflaust einhverjum undarlegt að ég syngi jarðarfararsálm fyrir drenginn minn á hverju kvöldi, en fyrir því eru tvær ástæður.

Annars vegar þykir mér sálmurinn ótrúlega fallegur - lagið og textinn. Hins vegar, vona ég að þegar að því kemur að litli ljúfurinn minn þurfi að fara í jarðarför, þá muni hann tengja friðsæld og ró við sálminn en ekki sorg og sársauka.

Kveðja, Hanna



Tuesday, September 11, 2012

Húsráð: Vaselin fyrir leðurskó

Litli ljúfur á gullfallega brúna Ecco skó sem hann er búinn að nota ótrúlega mikið. Mér finnst þeir æðislegir. Þeir eru léttir, fallegir og mjúkir. Ég held að þeir hljóti bara að vera voða þægilegir.

 
Skóna hefur litli ljúfur notað óspart síðustu mánuði í alls konar veðrum og við ýmsar aðstæður, svo þeir hafa orðið hrikalega skítugir. Sem betur fer eru þeir úr leðri svo það er tiltölulega auðvelt að þrífa þá. Þeir verða svo eins og nýjir ef ég næri þá aðeins líka.  

 
Í gær tók ég þá í gegn. Það eina sem ég notaði var vatn, tuska, handsápa og vaselin.


Ég byrjaði á því að þrífa skóna. Skolaði þá vel og nuddaði svo pínulítið af handsápu á þá. Síðan skolaði ég sápuna af, þurrkaði þá aðeins og lét þá svo þorna alveg.  


Ég tók innleggin líka úr og þreif þau sérstaklega.


Svo makaði ég á þá vaselini. Tók bara lítið í einu og nuddaði því vel inn í leðrið. Síðan lét ég skóna standa yfir nótt.


Eins og nýjir, er það ekki? Ég verð reyndar að viðurkenna að þegar ég hef notað vörur sem eru sérstaklega ætlaðar fyrir skóumhirðu, þá endist árangurinn lengur.

Kveðja, Hanna

Monday, September 10, 2012

Ostakaka með hindberjum og hvítu súkkulaði


Ég gerði æðislega ostaköku um síðustu helgi. Hér er uppskriftin :) 

Botn:
300 gr Hafrakex 
100 gr Smjör
100 gr Hvítt súkkulaði

Byrjaðu á því að mylja kexið. Því fínni sem mylsnan verður, því betra :) Bræddu smjörið og súkkulaðið. Hrærðu svo öllu saman, settu í eldfast mót eða kökuform og inn í kæli. Þú þarft að þekja formið vel.

Ég mæli með því að þú notir smelluform, og jafnvel að þú klæðir formið með smjörpappír ef þú ætlar að taka kökuna úr því - annars er svolítil hætta á að það verði erfitt að ná kökunni úr.

Fylling: 
400 g Rjómaostur
½ l Rjómi
4 dl Flórsykur 

Þeyttu rjómann. Settu síðan rjómaostinn og flórsykurinn í aðra skál og blandaðu vel saman. Hrærðu svo rjómann og ostablönduna varlega saman. Þá er fyllingin tilbúin og þú getur sett hana í botninn. Settu svo kökuna inn í kæli í a.m.k. 3 tíma.

Ég setti svolítið af frosnum hindberjum á kökuna mína. Mér fannst þau passa svo vel við. Þú getur auðvitað nota hvaða ber eða ávexti sem er :)

Við kláruðum ekki kökuna, svo ég frysti hana. Við borðuðum hana frosna nokkrum dögum seinna, og hún var sko engu síðri frosin. Fínasta ísterta :)

Kveðja, Hanna

Thursday, September 6, 2012

Einni tönn fátækari...



Í dag var dreginn úr mér endajaxl. Ég var svo hrædd að ég fékk Fríðu, yndislegu vinkonu mína, til að koma og sitja hjá mér á meðan tannlæknirinn reif tönnina út. Ég get ekki lýst léttinum sem ég fann fyrir þegar ég áttaði mig á því, að þetta var alls ekki eins slæmt og ég hélt að það myndi verða. Þó get ég alveg viðurkennt að þetta var ekki besti dagur lífs míns.

Yndislegi Elli minn keypti haug af verkjalyfjum og allt í fljótandi formi, sem mér finnst gott og fæst í búðinni. Meðal þess sem ég fékk var íslenskt skyr (sem er samt ekki eins og íslenskt skyr). Namm :) Litli ljúfur er líka búinn að vera alveg sérstaklega blíður við mömmu sína. Finnur líklega á sér að hún er eitthvað brothætt.

Það er svo gott að eiga góða að þegar maður er lítið grey.

Nú er komið að síðasta hluta sjálfsvorkunnarinnar - kúri í sófanum. Ég ríf mig svo upp á morgun og hætti þessu væli :)

Kveðja, Hanna.

P.s. ertu ekki fegin/n að hafa fengið mynd af skyrinu í staðinn fyrir að hafa fengið mynd af tönninni?

Wednesday, September 5, 2012

Takk

Ég var að ganga frá í svefnherberginu þegar litli ljúfur fór að sofa í kvöld. Hann fylgdist aðeins með mömmu sinni en sneri sér svo við og spjallaði við voffann sinn.

Ég gat ekki annað en flissað þegar ég heyrði hann segja við hundinn: "Epli. Smakka". Síðan sagði hann spyrjandi: "Takk?" eins og til að fá hundinum til að þakka fyrir sig. Svo knúsaði hann hundinn sinn blíðlega.

Mamman stóðst ekki mátið og knúsaði fallega litla ljúfinn sinn og sagði honum að hann er heimsins duglegasti drengur.

Þessi fallegi, yndislegi, duglegi og kurteisi drengur :) Í kvöld fékk hann mömmu sína til að trúa því að hún stæði sig ágætlega.


Kveðja, Hanna

Tuesday, September 4, 2012

Kósýdagur og bananakex



Í dag var litli ljúfur smá lasinn :( Sem betur fer ekkert alvarlegt samt, bara smá haustflensa, svo við ákváðum bara að eiga voðalega notalegan dag saman.


Kúrðum fullt, lásum allar bækurnar hans, byggðum lestir og fórum í bíló. Hrikalega kósý og næs.


Við ætluðum líka að baka bananabrauð, en áttum engan sykur svo við fengum okkur í staðinn hafrakex með bananafyllingu.


Við byrjuðum á því að stappa banana. Litla ljúf fannst það ótrúlega gaman :) Ég setti bananann í svona 30 sekúndur inn í örbylgjuofn áður en við stöppuðum hann. Hann varð aðeins mýkri fyrir vikið.

Svo settum við bananamaukið á hafrakex.
 

Síðast settum við annað kex ofan á og þrýstum smá. Þá var kexkakan okkar tilbúin.

Kveðja, Hanna

Monday, September 3, 2012

Húsráð: Kökukefli við sushigerð

Það eru bara tæp tvö ár síðan ég smakkaði fyrst sushi. Áður hafði ég ákveðið að sushi væri vont, og vildi ekki einu sinni smakka það. Í dag er það uppáhaldsmaturinn minn.

Uppáhalds sushi-staðurinn minn er SushiSamba en mér finnst líka ótrúlega gaman að gera sushi sjálf. 
Mér fannst alltaf svolítið erfitt að dreifa hrísgrjónunum jafnt yfir nori-blaðið þegar ég var að gera maki-rúllur. Mér fannst líka ótrúlega leiðinlegt hvað ég (og allt í kringum mig) varð subbulegt við það (ef þú hefur gert sushi, geri ég ráð fyrir að þú vitir um hvað ég er að tala).


Svo datt mér þessi snilld (þó ég segi sjálf frá) í hug. "Auðvitað! Ég nota bara kökukefli til að dreifa hrísgrjónunum" :) Ef þú notar trékefli, mæli ég með að þú vefjir það með plastfilmu. Ég held að það sé óþarfi ef þú átt t.d. silicone-kefli.


Þú byrjar á að setja hrísgrjónin á nori-blaðið. 


Síðan rúllarðu einfaldlega yfir.

Útkoman verður jafnt lag af hrísgrjónum, hreinar hendur, hreint eldhús og fallegra sushi. Ef þér finnst vanta hrísgrjón einhvers staðar, þá seturðu bara smá grjón þar og rúllar yfir aftur.
Ég hef hvergi heyrt um þetta áður, og finnst það hálf ótrúlegt. Ég "googl-aði" þetta meira að segja en fann ekkert svipað. Ég trúi því eiginlega ekki að engum hafi dottið þetta í hug. Þetta er svo ótrúlega einfalt og þægilegt.


Viltu lesa meira um sushi? T.d. um hugmyndir af fyllingu, hvernig á að gera "inside out" rúllur, eða bara byrjendaleiðbeiningar? Ég gæti skrifað um sushi alla vikuna ef einhver nennti að lesa það ;)

Kveðja, Hanna


Friday, August 31, 2012

Að gefa sér tíma


Ég las einhvern tímann lista yfir einfalda hluti sem gera börn hamingjusamari, sem við fullorðna fólkið eigum til að gleyma í hversdeginum. Eitt af því sem stóð á listanum var: "Eyddu meiri tíma í að horfa á vinnuvélar og maura". Með þessu átti höfundur listans við að maður ætti að gefa sér meiri tíma í að skoða með börnunum það sem þeim þykir merkilegt. Mér fannst frábært að vera minnt á þetta og fer eftir þessu af fremsta megni.

Elsku liti drengurinn minn er alveg heillaður af mótorhjólum og flugvélum. Þegar hann sér svoleiðis, reynum við að gefa okkur tíma til að fylgjast með þeim í smá stund. Svo spjöllum við aðeins um tækin. Honum finnst það æði :) Verður svo spenntur að hamingjan skín úr fallegu brúnu augunum hans.


Honum finnst fátt skemmtilegra en að klifra. Oftast má ekki klifra - ýmist af því að það er svo hættulegt eða af því að við höfum ekki tíma. Öðru hverju finnum við okkur stað og stund, og gefum við okkur bara smá tíma til þess að klifra :) Það þarf ekki nema eina girðingu til (og mömmu sem hjálpar manni svo maður slasi sig ekki). Oftast er einfalt best :)


Litli klifurkappinn minn veit fátt skemmtilegra en að fá að spreyta sig á ýmis konar þrautabrautum. Stundum vill hann líka bara skoða hvernig hlutar brautarinnar virka. Hvað gerist ef hann ýtir í þá. Hvað gerist ef hann hoppar á þeim. Athuga hvernig þeir eru viðkomu og svo framvegis. Honum finnst líka rosalega gaman að sýna mömmu sinni það sem honum þykir merkilegt.


Myndirnar tók ég þegar við tókum okkur pásu á hjólatúrnum, á leiðinni heim úr leikskólanum um daginn. Maður þarf ekkert alltaf að drífa sig beinustu leið heim :)

 
Kveðja, Hanna

Thursday, August 30, 2012

Púsl-samlokur


Ég gerði þessar krúttlegu samlokur fyrir ljúfinn minn áðan. 


Því miður fattaði ég ekki fyrr en þær voru tilbúnar, að hann hefði auðvitað haft ótrúlega gaman af því að skera þær út sjálfur. Klaufinn ég! Man það næst.


Það er ábyggilega betra að nota piparkökuform en ég á ekkert svoleiðis svo ég notaði leikfang frá litla ljúf :)


Ég smurði samloku með skinkumyrju (á báðar brauðsneiðarnar) og setti skinku á milli. Síðan skar ég út litla krúttlega púslbita með því að þrýsta forminu í gegnum samlokuna. Voila! Tilbúið.

Kveðja, Hanna

Wednesday, August 29, 2012

Pastaréttur með kjúklingi

Ég gerði pastasúpu með kjúklingi í kvöld. Súpa er reyndar svolítið rangnefni. Þetta er eiginlega svona mitt á milli þess að vera súpa og kássa.

Eins og flest sem ég elda, er þessi réttur ósköp einfaldur :)


Innihald:
1 l         tómatsafi
1 stk     laukur
2 stk     hvítlauksrif
6 stk     sólþurkkaðir tómatar
5 dl       pasta
2 stk     kjúklingabringur
             kjúklingakraftur
             pizza & pasta krydd
             (frá Knorr)


Aðferð:
  1. Byrjaðu á því að saxa laukinn og skera tómatana og kjúklinginn.
  2. Síðan skaltu svissa laukinn aðeins í potti, pressa svo hvítlauk út í og bæta við sólþurrkuðu tómötunum.
  3. Næst hellirðu tómatsafanum saman við og lætur sjóða.
  4. Þegar suðan er komin upp skaltu bæta kjúklingnum við og leyfa honum að malla þar til hann er næstum tilbúinn. Þá er komið að því að bæta pastaskrúfunum út í.
  5. Leyfðu svo öllu að malla í dálitla stund þar til pastað og kjúklingurinn eru tilbúin.
  6. Þá er um að gera að smakka réttinn og bæta við smá kryddi ef þér þykir þörf á.


Þú afsakar ónákvæmnina í uppskriftinni. Ég steingleymdi að fylgjast með því hvað ég var lengi að hverju. Ég þreif nefnilega eldhúsið og lagði á borð á meðan ég var að elda og kíkti bara reglulega í pottinn á meðan.


.
Talandi um að leggja á borð. Mér finnst svo gaman að gera borðið fínt með því að nota sætar servíettur og diskamottur. Ég get svo svarið fyrir það að maturinn smakkast betur :)

Kveðja, Hanna

Tuesday, August 28, 2012

Að smakka eitthvað nýtt

Mangósalat í morgunmat
Ég efast um að það hafi farið fram hjá nokkrum lesanda þessa bloggs, að mér finnst ávextir ótrúlega góðir. Það finnst ljúfinum mínum sem betur fer líka.

"Sem betur fer" segi ég eins og að það sé heppni. Ég held samt að það sé engin heppni.

Hann fær ávexti á hverjum degi. Marga á dag. Þannig hefur það verið síðan hann fékk fyrst að borða eitthvað meira en mjólk og graut.

Fyrir nokkrum mánuðum smakkaði hann fyrst mangó. Hann fékk sér einn bita, gretti sig og ýtti honum í burtu. Síðan fékk hann banana, sem hann borðaði af bestu lyst. Ég dró þá ályktun að honum hlyti að finnast mangó ógeðslega vont og reyndi ekki einu sinni að fá hann til að borða það aftur.

Mangó, Bláber og Havre Fras
Nokkrum dögum seinna var ég að borða mangó. Hann var með vínber, sem voru uppáhaldið hans. Hann teygði sig eftir einum bita hjá mér og smakkaði. Síðan fékk hann sér annan bita, og svo annan, og annan og áður en ég vissi af var hann búinn með heilt mangó.

Síðan þá má varla opna ísskápinn án þess að hann biðji um mangó. Það er það allra besta sem hann veit.

Hann lætur oft svona þegar hann smakkar eitthvað nýtt, þ.e. eins og honum finnist það vont.

Hann er aldrei látinn borða það sem hann vill ekki borða, en eftir mangóið setjum við alltaf á diskinn hans það sem við viljum að hann smakki, og hvetjum hann til að prófa. Oftar en ekki virðist hann bara þurfa að venjast nýja matnum.

Ég held að alltof margir foreldrar geri sömu mistök og ég gerði þegar ég hélt að litla ljúf þætti mangó vont - hætti að bjóða barninu sínu það sem barnið hefur fúlsað við einu sinni.

Auðvitað finnst börnum (og fullorðnum) matur misgóður en það er gott að hafa í huga að bragðskyn þroskast og breytist. Það sem þeim þykir vont í dag getur þeim þótt gott á morgun.


Kveðja, Hanna

Monday, August 27, 2012

Muffinsrós



Ég talaði um það, um daginn, að setja inn smá kökuskreytingarkennslu. Ég bakaði nokkrar súkkulaðimúffur í gær, og skreytti þær með einfaldri rós. 


Þú þarft stút, svipaðan þeim sem er á myndinni hér fyrir ofan. Þegar ég skreyti múffur, nota ég yfirleitt svolítið stóra stúta því mér finnst rósirnar verða fallegri.

Súturinn á myndinni er ódýr stútur úr plasti, keyptur í Bónus (minnir mig). Ég á líka dýrari stúta frá Wilton, og ég verð að viðurkenna að mér finnst útkoman yfirleitt fallegri þegar ég nota þá. Þú getur borið saman þessar rósir við þær í póstinum um heimatilbúið mömmukaffi. Ég notaði sama krem á kökurnar í hinum póstinum - en Wilton stútana.


Það er mikilvægt að byrja í miðjunni. Þú kreistir svo pokann með kreminu bara varlega.


Síðan sprautar þú kreminu hring eftir hring, eins og í spíral.


Ótrúlega einfalt. Þú getur þetta alveg. Ég var innan við tvær mínútur að skreyta tólf kökur. Pís of keik!


Ég sá það ekki fyrr en ég skoðaði myndirnar núna, hvað rósamynstrið sést illa. Ég set kannski inn skýrari myndir þegar ég geri svona næst :)


Kveðja, Hanna

P.s. Það er svo sem spurning hvort ég kaupi ekki bráðum síma með betri myndavél. Mælir þú með einhverjum?