Tuesday, April 9, 2013

Föndurhorn

Í nýja húsinu okkar er eitt aukaherbergi. Það verður nýtt sem svona vinnu-/gestaherbergi :) Eins og er, er það bara vinnuherbergi - en gestarúmið/svefnsófann finnum við vonandi bráðum.

Það er ekkert tilbúið enn, en hér er smá sýnishorn af föndurhorninu :)


Ég ákvað að hafa flest föndurdótið í þeirri hæð sem hentaði litla listamanninum mínum, þannig að hann gæti sótt það sjálfur. Því sé ég ALLS ekki eftir. Þarna dundar hann sér tímunum saman, drengurinn sem á erfitt með að sitja kyrr í tvær mínútur :) Að vísu situr hann ekkert kyrr allan tímann. Yfirleitt byrjar hann á einu, fær fljótt nóg af því og prófar eitthvað nýtt. En það er líka bara allt í lagi :)

Yfirleitt fær hann alveg að ráða sér sjálfur í föndurhorninu, hvað hann notar, hversu lengi o.s.fr.v., en hann á að ganga frá eftir sig sjálfur. Það gerir hann líka, oftast alveg óumbeðinn :) Hann er svo duglegur, þessi stórkostlegi strákur sem ég á.

 
Ég hef alltaf verið hrifin af glerkrukkum. Stórum, litlum, djúpum, grunnum... fæ ekki nóg af þeim. Þess vegna verð ég alltaf voða glöð þegar ég finn nýjan tilgang fyrir krukkurnar, sem annars staflast upp í eldhússkápunum og taka allt of mikið pláss.

Ég var voða sorgmædd þegar ég þurfti að losa mig barnamats-krukkurnar þegar við fluttum frá Íslandi. Ella fannst ekki jafn sniðugt og mér að flytja tvö hundruð litlar glerkrukkur milli landa.


Ég er líka voða hrifin af fallegum skilaboðum - og listaverkum eftir litla, sæta listamenn.

Eitt af fyrstu orðum litla ljúfsins míns, var SAMAN.  Hann notaði það voða mikið þegar hann vildi hafa okkur pabba sinn nálægt sér. Þegar hann vildi finna, eða sýna, ást og hlýju. Mér finnst orðið fallegt. Fyrir mér þýðir það svo margt. Það er eitt af uppáhalds orðunum mínum.

Listaverkin eru eftir snillinginn minn. Til hægri er Nyckelpigevägen (Maríuhænuvegur), en þar er einmitt nýja húsið okkar. Við kenndum stubbnum okkar að segja hvar hann ætti heima, um leið og við fluttum. Mér fannst það voða sniðugt, ef (7-9-13) hann skyldi einhvern tímann týnast. Til vinsti er svo Mótorhjól 22. Elsku drengurinn er sérstaklega hrifinn af tölunni 22. Allt er betra ef það er 22. Ég get að vísu tengt að einhverju leyti, við þessar tilfinningar við tölur - en það er efni í annan póst.

Kertastjakinn (sem búinn er till úr glerkrukku og alls konar föndurdóti) er einnig eftir fallega son minn. Hann, amma og mamma eiga heiðurinn af flestu því sem prýðir heimilið mitt :)

Kveðja, Hanna

Sunday, April 7, 2013

Kókoskúlur fyrir mömmur

Elsku litli drengurinn minn veit fátt betra en að gæða sér á gómsætri kókoskúlu og drekka ískalda mjólk með. Ég smakkaði mig því áfram með hinu og þessu úr eldhússkápunum, og tókst að gera þessar hrikalega góðu og svakalega girnilegu kókoskúlur - án allrar óhollustunnar (enginn sykur, hveiti, o.s.fr.v.).



Ég var hrikalega ánægð með mig, og svo spennt að leyfa honum að smakka, að ég leyfði honum að fá sér eina í sunnudags-morgunkaffi.

Hann settist niður, alveg svaka spenntur, og gerði sig tilbúinn til að taka kúluna í einum munnbita. Beið eftir að ég segði "gjörðu svo vel", beit í kúluna, frussaði henni svo út úr sér og sagði "bleh".

Frábært!

Jæja, ég á a.m.k. u.þ.b. fimmtán æðislegar kókoskúlur sem ég fæ að borða alveg sjálf :)

Kveðja, Hanna

P.s. viltu uppskriftina?