Wednesday, September 19, 2012

Þegar Nína barði Geira

Litli ljúfur hefur ótrúlega gaman af því að hlusta á tónlist, og ef hún er flutt af börnum finnst honum tónlistin enn skemmtilegri. Við flökkuðum aðeins um YouTube í dag og ég sýndi honum m.a. nokkur myndbönd með Rokklingunum. Ég veit ekki alveg hvort okkar skemmti sér betur, mamman í nostalgíunni eða elsku drengurinn (jú reyndar veit ég það... það var alveg án vafa ég).

Það þarf að fylgja ein krúttmynd. Þó hún tengjist póstinum ekki :)

Ég held að flestir kannist við að hafa einhvern tímann misskilið söngtexta. Það hefur komið fyrir oftar en ég kæri mig um að muna hjá mér. Þegar við hlustuðum (og horfðum á) Nínu og Geira í flutningi Rokklinganna datt mér í hug misskilningurinn á þeim texta, sem ég áttaði mig ekki á fyrr en í kringum tvítugt.
"En Nína grét og gekk mér frá.
Hún gat ei skilið sem ég sagði þá."
Ég hélt, frá því að ég var bara 5 ára og fékk að hringja í útvarpið og biðja um óskalag, að Nína hefði lúbarið Geira - alveg gengið frá honum. Mér var létt 15 árum seinna þegar ég áttaði mig á því að hún labbaði bara í burtu frá honum.

Kveðja, Hanna

Thursday, September 13, 2012

Muffinsbrauð


Ég gerði rosa gott bananabrauð um daginn sem ég bakaði í muffinsformum. Ég man ekki alveg uppskriftina því ég smakkaði mig bara til og gleymdi að skrifa niður jafn óðum. Ég þarf endilega að reyna að gera brauðið aftur - og passa þá að hafa penna og blað við höndina.

Það besta við brauðið var að ég gerði það án sykurs. Notaði hunang í staðinn :) Það var alveg hrikalega gott. Betra ef eitthvað er.

Litli ljúfur hélt auðvitað að þetta væri kaka og borðaði brauðið með bestu lyst og bros á vör. Það væri kannski ráð að gera enn hollara brauð og setja það í muffinsform til að gera það girnilegra í augum lítilla kökugrísa?

Kveðja, Hanna

Wednesday, September 12, 2012

Nú legg ég augun aftur

Mér finnst svo dýrmætt að geta átt notalega stund með fallega litla drengnum mínum áður en hann fer að sofa á kvöldin. Hann er svo áhugasamur þegar ég les fyrir hann. Vill skoða allar myndirnar og prófa að segja öll skemmtilegu orðin sem hann heyrir. Það er líka alveg ómetanlegt að fá að strjúka fallegu litlu tásurnar hans og syngja fyrir hann þar til hann leggur aftur augun og svífur inn í Draumalandið.

Í næstum hvert skipti sem ég syng vögguvísur fyrir ljúfinn minn syng ég fyrir hann Nú legg ég augun aftur. Það finnst eflaust einhverjum undarlegt að ég syngi jarðarfararsálm fyrir drenginn minn á hverju kvöldi, en fyrir því eru tvær ástæður.

Annars vegar þykir mér sálmurinn ótrúlega fallegur - lagið og textinn. Hins vegar, vona ég að þegar að því kemur að litli ljúfurinn minn þurfi að fara í jarðarför, þá muni hann tengja friðsæld og ró við sálminn en ekki sorg og sársauka.

Kveðja, Hanna



Tuesday, September 11, 2012

Húsráð: Vaselin fyrir leðurskó

Litli ljúfur á gullfallega brúna Ecco skó sem hann er búinn að nota ótrúlega mikið. Mér finnst þeir æðislegir. Þeir eru léttir, fallegir og mjúkir. Ég held að þeir hljóti bara að vera voða þægilegir.

 
Skóna hefur litli ljúfur notað óspart síðustu mánuði í alls konar veðrum og við ýmsar aðstæður, svo þeir hafa orðið hrikalega skítugir. Sem betur fer eru þeir úr leðri svo það er tiltölulega auðvelt að þrífa þá. Þeir verða svo eins og nýjir ef ég næri þá aðeins líka.  

 
Í gær tók ég þá í gegn. Það eina sem ég notaði var vatn, tuska, handsápa og vaselin.


Ég byrjaði á því að þrífa skóna. Skolaði þá vel og nuddaði svo pínulítið af handsápu á þá. Síðan skolaði ég sápuna af, þurrkaði þá aðeins og lét þá svo þorna alveg.  


Ég tók innleggin líka úr og þreif þau sérstaklega.


Svo makaði ég á þá vaselini. Tók bara lítið í einu og nuddaði því vel inn í leðrið. Síðan lét ég skóna standa yfir nótt.


Eins og nýjir, er það ekki? Ég verð reyndar að viðurkenna að þegar ég hef notað vörur sem eru sérstaklega ætlaðar fyrir skóumhirðu, þá endist árangurinn lengur.

Kveðja, Hanna

Monday, September 10, 2012

Ostakaka með hindberjum og hvítu súkkulaði


Ég gerði æðislega ostaköku um síðustu helgi. Hér er uppskriftin :) 

Botn:
300 gr Hafrakex 
100 gr Smjör
100 gr Hvítt súkkulaði

Byrjaðu á því að mylja kexið. Því fínni sem mylsnan verður, því betra :) Bræddu smjörið og súkkulaðið. Hrærðu svo öllu saman, settu í eldfast mót eða kökuform og inn í kæli. Þú þarft að þekja formið vel.

Ég mæli með því að þú notir smelluform, og jafnvel að þú klæðir formið með smjörpappír ef þú ætlar að taka kökuna úr því - annars er svolítil hætta á að það verði erfitt að ná kökunni úr.

Fylling: 
400 g Rjómaostur
½ l Rjómi
4 dl Flórsykur 

Þeyttu rjómann. Settu síðan rjómaostinn og flórsykurinn í aðra skál og blandaðu vel saman. Hrærðu svo rjómann og ostablönduna varlega saman. Þá er fyllingin tilbúin og þú getur sett hana í botninn. Settu svo kökuna inn í kæli í a.m.k. 3 tíma.

Ég setti svolítið af frosnum hindberjum á kökuna mína. Mér fannst þau passa svo vel við. Þú getur auðvitað nota hvaða ber eða ávexti sem er :)

Við kláruðum ekki kökuna, svo ég frysti hana. Við borðuðum hana frosna nokkrum dögum seinna, og hún var sko engu síðri frosin. Fínasta ísterta :)

Kveðja, Hanna

Thursday, September 6, 2012

Einni tönn fátækari...



Í dag var dreginn úr mér endajaxl. Ég var svo hrædd að ég fékk Fríðu, yndislegu vinkonu mína, til að koma og sitja hjá mér á meðan tannlæknirinn reif tönnina út. Ég get ekki lýst léttinum sem ég fann fyrir þegar ég áttaði mig á því, að þetta var alls ekki eins slæmt og ég hélt að það myndi verða. Þó get ég alveg viðurkennt að þetta var ekki besti dagur lífs míns.

Yndislegi Elli minn keypti haug af verkjalyfjum og allt í fljótandi formi, sem mér finnst gott og fæst í búðinni. Meðal þess sem ég fékk var íslenskt skyr (sem er samt ekki eins og íslenskt skyr). Namm :) Litli ljúfur er líka búinn að vera alveg sérstaklega blíður við mömmu sína. Finnur líklega á sér að hún er eitthvað brothætt.

Það er svo gott að eiga góða að þegar maður er lítið grey.

Nú er komið að síðasta hluta sjálfsvorkunnarinnar - kúri í sófanum. Ég ríf mig svo upp á morgun og hætti þessu væli :)

Kveðja, Hanna.

P.s. ertu ekki fegin/n að hafa fengið mynd af skyrinu í staðinn fyrir að hafa fengið mynd af tönninni?

Wednesday, September 5, 2012

Takk

Ég var að ganga frá í svefnherberginu þegar litli ljúfur fór að sofa í kvöld. Hann fylgdist aðeins með mömmu sinni en sneri sér svo við og spjallaði við voffann sinn.

Ég gat ekki annað en flissað þegar ég heyrði hann segja við hundinn: "Epli. Smakka". Síðan sagði hann spyrjandi: "Takk?" eins og til að fá hundinum til að þakka fyrir sig. Svo knúsaði hann hundinn sinn blíðlega.

Mamman stóðst ekki mátið og knúsaði fallega litla ljúfinn sinn og sagði honum að hann er heimsins duglegasti drengur.

Þessi fallegi, yndislegi, duglegi og kurteisi drengur :) Í kvöld fékk hann mömmu sína til að trúa því að hún stæði sig ágætlega.


Kveðja, Hanna

Tuesday, September 4, 2012

Kósýdagur og bananakex



Í dag var litli ljúfur smá lasinn :( Sem betur fer ekkert alvarlegt samt, bara smá haustflensa, svo við ákváðum bara að eiga voðalega notalegan dag saman.


Kúrðum fullt, lásum allar bækurnar hans, byggðum lestir og fórum í bíló. Hrikalega kósý og næs.


Við ætluðum líka að baka bananabrauð, en áttum engan sykur svo við fengum okkur í staðinn hafrakex með bananafyllingu.


Við byrjuðum á því að stappa banana. Litla ljúf fannst það ótrúlega gaman :) Ég setti bananann í svona 30 sekúndur inn í örbylgjuofn áður en við stöppuðum hann. Hann varð aðeins mýkri fyrir vikið.

Svo settum við bananamaukið á hafrakex.
 

Síðast settum við annað kex ofan á og þrýstum smá. Þá var kexkakan okkar tilbúin.

Kveðja, Hanna

Monday, September 3, 2012

Húsráð: Kökukefli við sushigerð

Það eru bara tæp tvö ár síðan ég smakkaði fyrst sushi. Áður hafði ég ákveðið að sushi væri vont, og vildi ekki einu sinni smakka það. Í dag er það uppáhaldsmaturinn minn.

Uppáhalds sushi-staðurinn minn er SushiSamba en mér finnst líka ótrúlega gaman að gera sushi sjálf. 
Mér fannst alltaf svolítið erfitt að dreifa hrísgrjónunum jafnt yfir nori-blaðið þegar ég var að gera maki-rúllur. Mér fannst líka ótrúlega leiðinlegt hvað ég (og allt í kringum mig) varð subbulegt við það (ef þú hefur gert sushi, geri ég ráð fyrir að þú vitir um hvað ég er að tala).


Svo datt mér þessi snilld (þó ég segi sjálf frá) í hug. "Auðvitað! Ég nota bara kökukefli til að dreifa hrísgrjónunum" :) Ef þú notar trékefli, mæli ég með að þú vefjir það með plastfilmu. Ég held að það sé óþarfi ef þú átt t.d. silicone-kefli.


Þú byrjar á að setja hrísgrjónin á nori-blaðið. 


Síðan rúllarðu einfaldlega yfir.

Útkoman verður jafnt lag af hrísgrjónum, hreinar hendur, hreint eldhús og fallegra sushi. Ef þér finnst vanta hrísgrjón einhvers staðar, þá seturðu bara smá grjón þar og rúllar yfir aftur.
Ég hef hvergi heyrt um þetta áður, og finnst það hálf ótrúlegt. Ég "googl-aði" þetta meira að segja en fann ekkert svipað. Ég trúi því eiginlega ekki að engum hafi dottið þetta í hug. Þetta er svo ótrúlega einfalt og þægilegt.


Viltu lesa meira um sushi? T.d. um hugmyndir af fyllingu, hvernig á að gera "inside out" rúllur, eða bara byrjendaleiðbeiningar? Ég gæti skrifað um sushi alla vikuna ef einhver nennti að lesa það ;)

Kveðja, Hanna