Monday, December 23, 2013

Jólaknús í kærleikspakka


Ég er svo rík af ömmum, og þær eru svo miklar listakonur :) Ég fékk jólagjöf í ár frá ömmu Jóhönnu og afa Guðmundi sem ég mátti opna fyrir jólin. Í pakkanum leyndist gullfallegt jólaskraut sem elsku amma mín hafi heklað. Mér fannst það svo fallegt og akkúrat í "ömmustíl" að ég fór bara að gráta smá. Fékk agalega heimþrá og fannst voða skrýtið að fara ekki í neina jólaheimsókn til ömmu og afa.

 Allt uppáhaldsskrautið mitt er heimatilbúið :) Nú bættist við gullfalleg jólasería með hekluðum jólaklukkum (efsta myndin), og heklað jólaskraut á jólatréð (síðustu tvær myndirnar). Ég gat ekki setið á mér, reif niður allt rauða Ikea-skrautið sem ég hafði sett á jólatréð og setti nýja fína skrautið á í staðinn :) Rauðu jólakúlurnar fengu nýjan stað í eldhúsinu. Litli ljúfurinn bjó svo til þennan fína jólasveinatopp efst á trénu :)


Ofsalega langar mig að kunna að gera svo fallegt. Kannski ég geti platað ömmu til að kenna mér handtökin þegar við förum næst heim til Íslands? 
 
Það er alveg ómetanlegt að geta skreytt jólin með svolitlum kærleika úr ömmu og afa koti. Eins og að hafa nokkur knús út um allt.

Takk!

Kveðja, Hanna Björg

Tuesday, December 17, 2013

Fyrsta jólatréð


Við, litla fjölskyldan, höfum aldrei verið heima hjá okkur á Aðfangadagskvöldi svo að við höfum aldrei haft jólatré. Nú höfum við ákveðið að halda fyrstu jólin okkar heima og því skunduðum við í búðina til að kaupa jólatré síðustu helgi.

Litli jólaálfurinn minn, var  fyrir löngu búinn að ákveða að við myndum hafa "liiiiisa stólt jólatlé" með mörgum jólakúlum. Við fundum þetta líka fína 2ja metra gervitré fyrir 99 SEK - rétt undir 2.000 ISK :) Ég átti allt skrautið, en ég hefði kannski átt að splæsa í eina seríu í viðbót.

Þegar ég var lítil setti mamma alltaf fullt af seríum á tréð, sem gerði það að fallegasta tré í heimi. Við systurnar (ég og Kolfinna) skreyttum svo yfirleitt tréð en ef þú þekkir okkur þá þarf ég varla að segja þér að við höfðum oft mjög ólíkar skoðanir á því hvernig tréð átti að líta út. Þess vegna var oft töluverður munur á því hvernig efri og neðri hlutinn á trénu var skreyttur. Síðustu árin sem við skreyttum tréð höfðum við bara hvor sína hlið :) Kolfinna sofnaði svo yfirleitt í sófanum á meðan ég kláraði, svo ég gat bara snúið minni hlið eins og ég vildi (hún vissi það ekki fyrr en hún las þetta).

"Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja" sagði einhver, en það er líka erfitt að kenna ungum konum að skreyta heilt jólatré þegar þær hafa alla tíð bara skreytt hálft. Ég verð því að viðurkenna að það er bara helmingurinn af trénu skreyttur. Ég sakna þín litla systir!

Kveðja,
Hanna Björg


Tuesday, November 26, 2013

KitchenAid

Frú KitchenAid að þeyta kókosrjóma :)

Mig hefur aldrei langað jafn mikið, eða jafn lengi, í nokkurn hlut, eins og mig langaði í glansandi rauða KitchenAid hrærivél. Þú getur rétt ímyndað þér hvað ég varð glöð þegar ég fékk hana í útskriftargjöf eftir sálfræðinámið frá elsku mömmu minni og Maríusi. Reyndar fór ég fyrst að hágráta - en svo hoppaði ég um af kæti - í nokkra daga :) Mig var búið að langa í hana svo lengi. Alveg frá því ég sá hana fyrst.

Ég var löngu búin að ákveða að ég myndi eignast hana einn daginn en mér datt ekki í hug að það yrði svona fljótt - og hvað þá að einhver myndi gefa mér hana. Ég get svo svarið það, að hjartað í mér slær hraðar bara við að rifja upp hvað ég varð glöð :)

Það er alls ekkert óvart, að hún laumast með á myndirnar sem ég set á bloggið. Hún gerir bara allt fallegra. Líka bloggið.

Litli ljúfurinn minn á ljóðabók, eftir Þórarin Eldjárn, sem heitir Óðhalaringla. Í henni er ljóð sem hefði alveg getað verið samið um okkur vinkonurnar. Mig og frú KitchenAid.



Sundur og saman

Hrærivélin hrærir
í hjarta mínu strengi.
Hún hrærir bara og hrærir
og hefur gert það lengi.

Ekkert lík við erum
en hvað það er skrítið:
Þótt ólíkt allt við gerum
við elskumst meira en lítið.

Ég gátur heimsins greini
og grisja lífsins undur, 
í ró og þögn ég reyni
að rekja þræði sundur. 

En fátt er hún víst fróð um
og finnst það langmest gaman 
með hamagangi og hljóðum
að hræra öllu saman.



Kveðja, Hanna

Saturday, November 23, 2013

Snjókrukkur



Ég held að það sé enginn til sem hefur jafn mikið dálæti á krukkum og ég. Það er alveg sama hversu fullir eldhússkáparnir mínir eru orðnir, ég bara get ekki hent krukkunum. Öðru hvoru finn ég eitthvað sniðugt að föndra með krukkurnar og finnst það voða gaman. Ég er þó agalega hugmyndasnauð, svona yfirleitt en Pinterest er stórsniðug síða fyrir svona krukkuunndendur eins og mig. Endalausar hugmyndir að finna þar.

Undur og stórmerki gerast þó, og ég fékk (þó ég segi sjálf frá) brilljand hugmynd áðan. Einfalt krukku-jólaföndur sem eins árs barn gæti ábyggilega gert með lokuð augun!

Þú þarft:
krukku, límstifti, kókosmjöl og disk.

Aðferð:
1. Helltu kókosmjölinu á disk.
2. Renndu límstiftinu yfir krukkuna. Passaðu að þekja vel.
3. Rúllaðu krukkunni upp úr kókosmjölinu.

Tada! Tilbúið! Einfaldasta jólaföndur í heimi :)

Kveðja, Hanna

Friday, November 15, 2013

Málverk frá Maju

Það beið mín frábær glaðningur á pósthúsinu í gær. Ég á nefnilega alveg yndislega frænku, Maríu Bóel, sem hafði lesið um tómu veggina í húsinu mínu í síðasta pósti - og sendi mér í snatri fallegan kærleikspakka.

Í pakkanum var þetta fallega málverk, eftir Elínu G. sem prýðir nú heimilið, og sér til þess að ég hugsa enn oftar til Maju :)


Það er fátt eins skemmtilegt og að fá svona áminningu um að fólki þyki vænt um mann, og hugsi til manns.

Takk fyrir mig!

Kveðja, Hanna

Monday, November 4, 2013

Innlit í stofuna

Ég var spurð að því þrisvar sinnum í dag hvort ég væri hætt að blogga og ákvað því að pásunni væri lokið. Get þó engu lofað um áframhaldið. Ætli það fari kannski ekki bara eftir lestrinum á síðunni :)

Í ljósi þess að næstum hálft ár er liðið frá síðustu færslu, hefur vissulega margt skemmtilegt á daga okkar fjölskyldunnar drifið. Ég ætla samt ekkert að rifja það allt upp, heldur bara sýna þér nokkrar myndir af heimilinu okkar sem er loksins að taka á sig þá mynd sem við höfðum í huga í upphafi :)


Ég hafði hugsað mér að taka nokkrar myndir af litla grallaranum þar sem hann sat svo stilltur og prúður að kubba...




...en sökum anna einkasonarins við ruslabílasamsetningu sem olli því að hann mátti ómögulega vera að því að brosa (eða yfir höfuð að líta upp), var myndatökunni aflýst. Mömmunni fannst þá kjörið að taka í staðinn myndir af sjálfri stofunni.


Undir sjónvarpið settum við tvær tvöfaldar malm kommóður. Okkur fannst það bæði líta vel út og vera ótrúlega praktískt enda taka þessar kommóður endalaust við svo okkur skortir aldrei skúffupláss. Það er svo á dagskrá að finna skáp með glerhurðum sem passar í hornið þar sem litli stóllinn er.


Það vantar líka ennþá fullt af myndum á veggina, en það kemur allt saman :) Ég er líka að bíða eftir að rekast á "fullkomna" ljósið til að hafa yfir borðstofuborðinu. Ég mun finna það!

Ég þarf að taka almennilega mynd af hillunni fyrir ofan borðstofuborðið, við tækifæri. Mér þykir voða vænt um það sem á henni er. Annars vegar er þar mynd eftir ömmu Kolfinnu, sem hún málaði með HNÍF :-O og hins vegar eru tréstafirnir sem stafa uppáhaldsorðið mitt í heiminum. Saman. Ég skrifaði meira að segja sér færslu um það einhvern tímann.


Ég læt fylgja með eina mynd af yfirbyggða pallinum okkar :)

Mér verða væntanlega ekki veitt nein verðlaun fyrir ljósmyndun á næstunni, en ég vona að þú hafir haft gaman af innlitinu :) Það er svo gaman að geta leyft fjölskyldu og vinum sem ekki hafa tök á að koma í heimsókn að sjá aðeins hvernig við búum.

Kveðja,
Hanna

Monday, May 13, 2013

Litli tónlistarmaðurinn

Elsku litla ljósið mitt kann alveg að leika á hjartastrengi móður sinnar. 

Ég söng fyrir hann Litla tónlistarmanninn (Mömmulagið - eins og hann kallar það sjálfur) í kvöld. Það er í alveg einstöku uppáhaldi þessa dagana. Þegar ég ætlaði svo að bjóða honum góða nótt strauk hann mér svo ofurblítt um vangann og sönglaði "Mamma - mér finnst gott að koma til þín. Mamma - þú ert mamma mín".

Það þarf varla að taka það fram að ég hætti við að læðast fram. Sat hjá honum í staðinn og dáðist hugfangin að þessari litlu, fallegu og góðu sál sem hann er. Alveg þangað til hann hafði stungið af í draumalandið.

Kveðja, Hanna

Sunday, May 12, 2013

Til mömmu...

30 ástæður fyrir því að þú ert besta mamma í heimi, og enginn gæti nokkurn tímann komið í staðinn fyrir þig.
Mamma, ég og litli ljúfur
1. Þegar þú verður svo spennt yfir einhverju að þú gleymir þér og getur varla hugsað um nokkuð annað.
2. Þegar við sitjum saman og syngjum.
3. Lyktin þín.
4. Þegar þú brosir og ég get ekki annað gert en að brosa með.
5. Þegar þú huggar mig þegar mér líður illa. Líka þegar mér líður illa yfir einhverju ómerkilegu sem skiptir engu máli.
6. Þegar þú ert að horfa á spennandi þátt og ég er að reyna að tala við þig – og þú segir bara „já, einmitt“.
7. Þegar þú er besta mamma í heimi.
8. Þegar enginn annar segir mér „the ugly truth“ nema þú - en ég finn samt að það er í ást og umhyggju.
9. Þegar þú hrósar mér fyrir það sem ég er stolt af.
10. Þegar þú hlustar á mig – alltaf. Líka þegar ég segi þér sama hlutinn í tuttugasta og fjórða skipti.
11. Þegar þú ert besta amma í heimi.
12. Þegar þú hrósar mér fyrir það sem mig langar að vera stolt af, en finnst kannski samt asnalegt og kjánalegt. Þá finnst mér að ég „megi vera stolt af því“.
13. Þegar ég get leitað til þín með hvað sem er, stórt og smátt, og þú reynir eins og þú getur að hjálpa mér.
14. Þegar þú hlustar á Scorpions.
15. Þegar þú veist að ég þarf hjálp, áður en ég veit það.
16. Knúsið þitt.
17. Þegar þú skilur þó enginn annar geri það... bara því við skiljum hvor aðra.
18. Þegar þú veist upp á hár hvað mér finnst skemmtilegt og fallegt.
19. Þegar þú dansar við „stuðlög“ frá „the eighties“.
20. Þegar þú hvetur mig áfram, þegar ég er hrædd
21. Þegar að þú segir að það verði allt í lagi.
22. Þegar við hlustum á „Ó, helga nótt“.
23. Þegar þú ert svaka pæja og gerir „pæjudansinn“.
24. Hláturinn þinn.
25. Þegar ég finn að þú elskar okkur systkinin meira en allt.
26. Þegar þú verður hoppandi reið ef einhver er vondur við mig.
27. Þú, Ajax og Bylgjan.
28. Þegar þú ert duglegust í heimi, og ég skil ekki hvernig þó hefur farið að þessu öllu.
29. Þegar þú málar postulín, saumar rúmteppi og prjónar hraðar en ég tala.
30. Þegar það er svo margt sem ég elska við þig, að þrjátíu punkta listi er ekki nóg.

Gleðilegan mæðradag, elsku mamma mín. Takk fyrir allt.
Ég elska þig og sakna þín.

Wednesday, May 8, 2013

Ofnbakaður pestólax með mozzarella

Þennan rétt háma allir í sig með bestu lyst á mínu heimili. Hann er svo rosalega einfaldur (eins og allt sem ég elda!) að það er eiginlega ekki hægt að klúðra honum.

Rétturinn ÁÐUR en hann fór í ofninn :)

Þú þarft:

500 gr. Lax (ég kaupi filé sem búið er að roðfletta, snyrta og búta niður frá Findus)
1 dl Rautt pestó
1/3 dl Grænt pestó
Ferskur mozzarella ostur (ég kaupi eina stóra kúlu, og nota u.þ.b. 2/3 af henni)
Kirsuberjatómata (ekki nauðsynlegt)
Furuhnetur (ekki nauðsynlegar, en setur punktinn yfir i-ið)
  1. Stilltu ofninn á 180°c.
  2. Blandaðu saman rauða og græna pestóinu. Magnið hér að ofan er bara viðmið.
  3. Skerðu tómatana í báta og ostinn í sneiðar (ca. 3 mm þykkar).
  4. Skerðu svo smá "vasa" í laxbitana.
  5. Settu pestóblönduna í eldfast mót, og laxinn með. Nuddaðu laxinum svo aðeins upp úr pestóinu.
  6. Fylltu "vasana" á laxinum með mozzarella ostinum.
  7. Settu tómatana í mótið, og stráðu smá furuhnetum yfir (ef þú vilt... þetta er ekki nauðsynlegt).
  8. Skelltu mótinu í ofninn í 15-20 mínútur.
 Síðast þegar þessi réttur var í matinn hjá mér, bar ég fram Quinua (fæst flestum venjulegum matvöruverslunum - mjög einfalt og svakalega hollt) og salat (spínat, sólþurrkaðir tómatar og lárpera).

Kveðja, Hanna

Tuesday, April 9, 2013

Föndurhorn

Í nýja húsinu okkar er eitt aukaherbergi. Það verður nýtt sem svona vinnu-/gestaherbergi :) Eins og er, er það bara vinnuherbergi - en gestarúmið/svefnsófann finnum við vonandi bráðum.

Það er ekkert tilbúið enn, en hér er smá sýnishorn af föndurhorninu :)


Ég ákvað að hafa flest föndurdótið í þeirri hæð sem hentaði litla listamanninum mínum, þannig að hann gæti sótt það sjálfur. Því sé ég ALLS ekki eftir. Þarna dundar hann sér tímunum saman, drengurinn sem á erfitt með að sitja kyrr í tvær mínútur :) Að vísu situr hann ekkert kyrr allan tímann. Yfirleitt byrjar hann á einu, fær fljótt nóg af því og prófar eitthvað nýtt. En það er líka bara allt í lagi :)

Yfirleitt fær hann alveg að ráða sér sjálfur í föndurhorninu, hvað hann notar, hversu lengi o.s.fr.v., en hann á að ganga frá eftir sig sjálfur. Það gerir hann líka, oftast alveg óumbeðinn :) Hann er svo duglegur, þessi stórkostlegi strákur sem ég á.

 
Ég hef alltaf verið hrifin af glerkrukkum. Stórum, litlum, djúpum, grunnum... fæ ekki nóg af þeim. Þess vegna verð ég alltaf voða glöð þegar ég finn nýjan tilgang fyrir krukkurnar, sem annars staflast upp í eldhússkápunum og taka allt of mikið pláss.

Ég var voða sorgmædd þegar ég þurfti að losa mig barnamats-krukkurnar þegar við fluttum frá Íslandi. Ella fannst ekki jafn sniðugt og mér að flytja tvö hundruð litlar glerkrukkur milli landa.


Ég er líka voða hrifin af fallegum skilaboðum - og listaverkum eftir litla, sæta listamenn.

Eitt af fyrstu orðum litla ljúfsins míns, var SAMAN.  Hann notaði það voða mikið þegar hann vildi hafa okkur pabba sinn nálægt sér. Þegar hann vildi finna, eða sýna, ást og hlýju. Mér finnst orðið fallegt. Fyrir mér þýðir það svo margt. Það er eitt af uppáhalds orðunum mínum.

Listaverkin eru eftir snillinginn minn. Til hægri er Nyckelpigevägen (Maríuhænuvegur), en þar er einmitt nýja húsið okkar. Við kenndum stubbnum okkar að segja hvar hann ætti heima, um leið og við fluttum. Mér fannst það voða sniðugt, ef (7-9-13) hann skyldi einhvern tímann týnast. Til vinsti er svo Mótorhjól 22. Elsku drengurinn er sérstaklega hrifinn af tölunni 22. Allt er betra ef það er 22. Ég get að vísu tengt að einhverju leyti, við þessar tilfinningar við tölur - en það er efni í annan póst.

Kertastjakinn (sem búinn er till úr glerkrukku og alls konar föndurdóti) er einnig eftir fallega son minn. Hann, amma og mamma eiga heiðurinn af flestu því sem prýðir heimilið mitt :)

Kveðja, Hanna

Sunday, April 7, 2013

Kókoskúlur fyrir mömmur

Elsku litli drengurinn minn veit fátt betra en að gæða sér á gómsætri kókoskúlu og drekka ískalda mjólk með. Ég smakkaði mig því áfram með hinu og þessu úr eldhússkápunum, og tókst að gera þessar hrikalega góðu og svakalega girnilegu kókoskúlur - án allrar óhollustunnar (enginn sykur, hveiti, o.s.fr.v.).



Ég var hrikalega ánægð með mig, og svo spennt að leyfa honum að smakka, að ég leyfði honum að fá sér eina í sunnudags-morgunkaffi.

Hann settist niður, alveg svaka spenntur, og gerði sig tilbúinn til að taka kúluna í einum munnbita. Beið eftir að ég segði "gjörðu svo vel", beit í kúluna, frussaði henni svo út úr sér og sagði "bleh".

Frábært!

Jæja, ég á a.m.k. u.þ.b. fimmtán æðislegar kókoskúlur sem ég fæ að borða alveg sjálf :)

Kveðja, Hanna

P.s. viltu uppskriftina?

Wednesday, March 13, 2013

Sushi tillögur

Hér koma loksins nokkrar hugmyndir af fyllingu í maki-rúllur :)


Ég var sérstaklega beðin um hugmyndir að grænmetisrúllum og rúllum fyrir þá sem vilja ekki mikið af framandi sjávarfangi. Ég sá það eftir á, að ég var full æst í lárperur (avocado). Ef þér finnst þær ekki góðar, sleppirðu þeim bara :)


 Rjómaostur, sæt kartafla, graslaukur og lárpera.

 Rjómaostur, paprikusmurostur, paprika, lárpera og surimi (krabbalíki).


Lárpera, sæt kartafla, rauð paprika, rjómaostur og kínversk tómatsósa (sterk).



Rækjur, graslaukur, lárpera, paprika og rjómaostur.


Rækjuostur, rækjur, surimi, lárpera og gúrka.

Paprikusmurostur, rauð paprika, gul paprika, sæt kartafla og hunang.

Hart grænmeti (t.d. gulrætur og kartöflur) sýð ég yfirleitt smá áður en ég set það í rúlluna. Þá verður það aðeins mýkra, sem mér finnst betra. Það er svo auðvitað bara smekksatriði.

Ef þú varst ekki búin að sjá póstinn minn um hvernig þú getur notað kökukefli til að auðvelda sushigerðina, kíktu þá endilega á hann HÉR.

Kveðja, Hanna Björg

Wednesday, March 6, 2013

Hollur súkkulaðidesert :)

Eitt af bloggunum sem ég skoða reglulega er Chocolate Covered Katie. Hún birtir allskonar hollar uppskriftir á síðunni sinni, flestar að eftirréttum. Um daginn rakst ég á uppskrift hjá henni að "Cool Whip", eins konar þeyttum rjóma, sem hún hafði búið til úr kókosmjólk. Mér fannst þetta svo sniðugt að ég varð að prófa.


Kauptu eina dós af kókosmjólk, ekki fituskerta, opnaðu hana og láttu standa inni í ísskáp yfir nótt (ég setti nestispoka utan um mína). Þegar þú tekur hana út ætti hún að vera orðin nógu þykk til að skeið geti staðið ofan í, eins og á myndinni hér fyrir ofan.


EKKI HRÆRA kókosmjólkina í dósinni. Helltu henni fyrst í fínt sigti, og svo því sem situr eftir í sigtinu í skál.


Þá máttu hræra :) Ég leyfði frú KitchenAid að dansa í svona 5-7 mínútur. Mér fannst reyndar "rjóminn" ekki alveg nógu stífur svo kannski hefði ég átt að þeyta lengur. Prófa það næst.

Þá var ég búin að prófa að þeyta kókosmjólk. Ég vissi bara ekki alveg hvað ég átti að gera við hana. Mig langaði bara að sjá hvort þetta virkaði. Eftir dálítið grúsk í eldhússkápunum ákvað ég að búa bara til súkkulaðidesert :)


Við kókosmjólkina bætti ég:
3-4 msk kakó
3 tsk hunang
1 tsk hnetusmjör
1/2 banani
pínu vanilla

Svo hrærði ég allt saman. Þá varð blandan mín svolítið þunn, svo ég tók fram ísvélina og skellti öllu ofan í, í ca. 3 mínútur - bara til að blandan yrði líkari búðingi, ekki nógu lengi til að gera ís. Þú þarft enga ísvél, ef þú átt hana ekki. Það hefur örugglega svipuð áhrif að setja þetta í kæli í svolitla stund (ekki samt frysti, ég held að þá komi fljótt svona "krap").


Að lokum setti ég búðinginn í glas og toppaði með berjum og rifnum kókos. Ég vaaaaaaar að klára síðasta bitann bara akkúrat núna. Mmmmmm, ég mæli sko hiklaust með þessum hrikalega holla og góða súkkulaðidesert (sem má alveg borða með góðri samvisku á miðvikudagskvöldum). Ísköld mjólk er alveg fullkomin með.

Kveðja, Hanna

Wednesday, February 20, 2013

Hreinn vaskur?

Mig langar að sýna þér hvað eldhúsvaskurinn var fínn þegar við tókum við húsinu okkar. Skínandi hreinn, ekki satt?


ALLS EKKI! Öðru hverju þarf nefnilega að losa sigtin úr niðurföllunum og þrífa þar undir. Við hellum nefnilega alls konar þarna ofan í og smám saman safnast óhreinindin upp. Sjáðu bara hverju ég mætti þegar ég skrúfaði sigtin laus.




Það tekur enga stund að skrúbba þetta burt, þannig að vaskurinn verði eins og nýr. Ég var í u.þ.b. 15 mínútur núna en eins og þú sérð var vaskurinn alveg ógeðslegur. Ég þríf þetta yfirleitt með tveggja vikna millibili, og þá er ég ekki í meira en svona fimm mínútur - í mestalagi.

Ég nota vatn, edik, matarsóda, svamp með grófri hlið og tannbursta en þú getur ábyggilega notað bara góða sápu og svamp ef þér finnst það betra.


Ég byrja á því að láta heitt vatn renna í skál, og blanda ediki út í (u.þ.b. 1 á móti 15). Næst skrúfa ég sigtin af og skola ég  alla hluta eins vel og ég get (en hafðu í huga að rörið losnar þegar þú tekur skrúfuna úr sigtinu). Síðan nudda ég matarsóda á óhreinindin sem sitja eftir með höndunum (í hönskum) og með tannburstanum. Ég læt matarsódann sitja á í 2-3 mínútur, bleyti svo svampinn í edikblöndunni og skrúbba svo óhreinindin í burtu. Að lokum skola ég með heitu vatni, og skrúfa sigtin aftur á.


Er vaskurinn þinn hreinn?

Kveðja, Hanna Björg

Tuesday, February 19, 2013

Fisktacó

Á síðasta ári tók ég mig aðeins á, hvað varðar að bjóða upp á fisk í kvöldmat, og við fjölskyldan borðum lax u.þ.b. einu sinni í viku. Það er svo sem alveg ágætt, og heilmikil framför frá árinu á undan þegar ég eldaði fisk u.þ.b. fjórum sinnum yfir allt árið. Mig langar þó að gera enn betur, og vera með fisk tvisvar til þrisvar í viku þetta árið.

Ég veit ekki alveg hvenær, en einhvern tímann ákvað ég með sjálfri mér að fiskur væri vondur. Ætli þetta hafi ekki verið hliðarverkun unglingaveikinnar á sínum tíma, ég veit það ekki. Sem betur fer fór ég smám saman að fatta að hann er bara alveg ótrúlega góður, en hingað til hafa fiskréttirnir mínir verið heldur ófjölbreyttir - oftast einhver mynd af ÞESSUM rétti, steiktur eða ofnbakaður lax með kartöflum og salati.

Þessa viku ætla ég að nota til að prófa nýjan fiskrétt á hverjum degi, aðeins til að auka fjölbreytnina. Ótrúlega spennandi, þykir mér.

Í gær vorum við með fisktacó. Ég fékk hugmyndina frá Evu Laufeyju Kjaran, en útfærði hana aðeins eftir eigin höfði (og gerði þar með tilraun til að höfða til allra fjölsdkyldumeðlima. Það var ÓTRÚLEGA gott. Ég hef svo sem oft heyrt um fisktacó, en ekki langað að prófa það fyrr. Vá, hvað ég sé eftir því. Mér fannst það betra en tacó með hakki. Ég held reyndar að Elli hafi ekki verið sammála, en hann var sko alveg til í að hafa þennan fiskrétt aftur seinna :)


Ég skar þorsk í litla bita. Nota til þess einn af nýju fínu hnífunum sem við fengum í jólagjöf frá mömmu og Maríusi. Þeir eru frá merkinu KAI en línan heitir Pure Komachi 2. Þeir eru bara svona fallegir heldur renna þeir bara í gegnum það sem þeim ég vil skera. Kjöt, fiskur, grænmeti, ávextir... ekkert mál.

Mér fannst ég þurfa að spara þá fyrst, svo bitið færi ekki, því ég var svo stressuð yfir því að það yrði vesen að brýna þá en hafi svo bara samband við umboðsaðilann á Íslandi sem sagði mér að það mætti brýna hnífana á sama hátt og aðra stálhnífa. Hér  geturðu lesið um hnífana hjá Progastro (umboðsaðili á Íslandi).


Þegar ég hafði skorið þorskinn í litla bita, hellti ég smá olíu á, og rúllaði þeim upp úr kryddblöndunni sem sést á myndinni hér fyrir ofan. Á pokanum stendur Crispy Chicken Bites Spice Mix og hann er frá Santa Maria.


Síðan skar ég niður kirsuberjatómata, sveppi, gula og rauða papriku og svissaði á pönnunni með smá olíu og hvítlauk. Síðast setti ég fiskinn út á pönnuna og steikti hann með grænmetinu.


Á meðan allt mallaði á pönnunni, skar ég niður grænmeti í ósköp fábrotið, en hrikalega gott, ferskt salat. Jöklasalat, graslaukur og avocado.

Vissirðu að avocado heitir lárpera á íslensku? Mér finnst það miklu flottara nafn en avocado. 


 Voila! Tilbúið! Borið fram með mexíkóskum pönnukökum, salsa sósu og sýrðum rjóma. 

Kveðja, Hanna Björg


Saturday, February 9, 2013

Mamma til bjargar!

Við erum flutt! Jibbí!

Með aðstoð hörkuduglegra og fílsterkra manna og mömmu, tókst okkur að flytja á u.þ.b. 3 klukkustundum á laugardaginn í síðustu viku. Við búum bara á neðri hæðinni eins og er, en það styttist í að við getum notað allt húsið :)


Við vorum svo ótrúlega heppin að fá elsku mömmu í heimsókn um síðustu helgi. Oh, það var sko best í heimi. Mér fannst svo gaman að hún skyldi vera með okkur á þessum skemmtilegu tímamótum. Og elsku litla stráknum mínum fannst ekki síður gaman að hafa ömmu sína. Hann naut sko hverrar mínútu.


Síðasta kvöldið sem mamma var hjá okkur, undirbjó ég sushiveislu fyrir okkur - og á meðan sungum við mamma hástöfum við allt frá Scorpions til Villa Vill og Celine Dion. Við gerðum þetta oft þegar ég var yngri, systur minni til mikils ama (þ.e. sungum - sushi græðgin er nokkuð nýleg). Svo spjölluðum við svo mikið að þegar mamma fór þá var ég í þrjá daga að endurheimta orðakvótann minn. Æj, það er enginn eins og mamma.


Thursday, February 7, 2013

Gangur (fyrir og á meðan)

Hér koma fyrstu myndirnar innan úr húsinu okkar :) Svona fyrir og "á meðan".

Stigi, fyrir og "á meðan"

Stiginn var orðinn frekar ljótur og slitinn, svo við ákváðum að taka hann í gegn. Fyrst var hann pússaður, svo var gamla ljóta teppið tekið úr honum og síðan var hann grunnaður og lakkaður fjórar umferðir.

Við erum búin að velta því ansi mikið fyrir okkur hvort við ættum að setja teppi ofan á þrepin aftur, eða hvort við ættum að gera eitthvað annað. Eins og er líst okkur best á að setja fallegt teppi, því við höfum á tilfinningunni að það sé öruggast (besta gripið) fyrir snögga litla fætur. Hvað finnst þér?


Taktu eftir hurðakörmunum. Þeir voru svartir og hálf kjánalegir við hvítar hurðarnar. Ég hef mikið velt þessari samsetningu fyrir mér en skil ekki enn hvers vegna einhver vill hafa svarta karma og hvíta hurð. Það eina sem mér dettur í hug er að viðkomandi hafi verið sjónskertur, og að dökku hurðakarmarnir hafi verið hugsaðir sem svona "HÉR ER HURÐ" aðvörun :)

Karmarnir voru með einhverskonar plasthúð að utan. Við pússuðum þá, fórum eina umferð með hefti-grunn yfir allt og lökkuðum svo með hvítu. Fimm umferðir, takk fyrir.

Eins og þú sérð erum við líka búin að parketleggja ganginn. Þvílíkur munur, þó þetta sé ekki tilbúið :)

Kveðja, Hanna