Wednesday, February 20, 2013

Hreinn vaskur?

Mig langar að sýna þér hvað eldhúsvaskurinn var fínn þegar við tókum við húsinu okkar. Skínandi hreinn, ekki satt?


ALLS EKKI! Öðru hverju þarf nefnilega að losa sigtin úr niðurföllunum og þrífa þar undir. Við hellum nefnilega alls konar þarna ofan í og smám saman safnast óhreinindin upp. Sjáðu bara hverju ég mætti þegar ég skrúfaði sigtin laus.




Það tekur enga stund að skrúbba þetta burt, þannig að vaskurinn verði eins og nýr. Ég var í u.þ.b. 15 mínútur núna en eins og þú sérð var vaskurinn alveg ógeðslegur. Ég þríf þetta yfirleitt með tveggja vikna millibili, og þá er ég ekki í meira en svona fimm mínútur - í mestalagi.

Ég nota vatn, edik, matarsóda, svamp með grófri hlið og tannbursta en þú getur ábyggilega notað bara góða sápu og svamp ef þér finnst það betra.


Ég byrja á því að láta heitt vatn renna í skál, og blanda ediki út í (u.þ.b. 1 á móti 15). Næst skrúfa ég sigtin af og skola ég  alla hluta eins vel og ég get (en hafðu í huga að rörið losnar þegar þú tekur skrúfuna úr sigtinu). Síðan nudda ég matarsóda á óhreinindin sem sitja eftir með höndunum (í hönskum) og með tannburstanum. Ég læt matarsódann sitja á í 2-3 mínútur, bleyti svo svampinn í edikblöndunni og skrúbba svo óhreinindin í burtu. Að lokum skola ég með heitu vatni, og skrúfa sigtin aftur á.


Er vaskurinn þinn hreinn?

Kveðja, Hanna Björg

Tuesday, February 19, 2013

Fisktacó

Á síðasta ári tók ég mig aðeins á, hvað varðar að bjóða upp á fisk í kvöldmat, og við fjölskyldan borðum lax u.þ.b. einu sinni í viku. Það er svo sem alveg ágætt, og heilmikil framför frá árinu á undan þegar ég eldaði fisk u.þ.b. fjórum sinnum yfir allt árið. Mig langar þó að gera enn betur, og vera með fisk tvisvar til þrisvar í viku þetta árið.

Ég veit ekki alveg hvenær, en einhvern tímann ákvað ég með sjálfri mér að fiskur væri vondur. Ætli þetta hafi ekki verið hliðarverkun unglingaveikinnar á sínum tíma, ég veit það ekki. Sem betur fer fór ég smám saman að fatta að hann er bara alveg ótrúlega góður, en hingað til hafa fiskréttirnir mínir verið heldur ófjölbreyttir - oftast einhver mynd af ÞESSUM rétti, steiktur eða ofnbakaður lax með kartöflum og salati.

Þessa viku ætla ég að nota til að prófa nýjan fiskrétt á hverjum degi, aðeins til að auka fjölbreytnina. Ótrúlega spennandi, þykir mér.

Í gær vorum við með fisktacó. Ég fékk hugmyndina frá Evu Laufeyju Kjaran, en útfærði hana aðeins eftir eigin höfði (og gerði þar með tilraun til að höfða til allra fjölsdkyldumeðlima. Það var ÓTRÚLEGA gott. Ég hef svo sem oft heyrt um fisktacó, en ekki langað að prófa það fyrr. Vá, hvað ég sé eftir því. Mér fannst það betra en tacó með hakki. Ég held reyndar að Elli hafi ekki verið sammála, en hann var sko alveg til í að hafa þennan fiskrétt aftur seinna :)


Ég skar þorsk í litla bita. Nota til þess einn af nýju fínu hnífunum sem við fengum í jólagjöf frá mömmu og Maríusi. Þeir eru frá merkinu KAI en línan heitir Pure Komachi 2. Þeir eru bara svona fallegir heldur renna þeir bara í gegnum það sem þeim ég vil skera. Kjöt, fiskur, grænmeti, ávextir... ekkert mál.

Mér fannst ég þurfa að spara þá fyrst, svo bitið færi ekki, því ég var svo stressuð yfir því að það yrði vesen að brýna þá en hafi svo bara samband við umboðsaðilann á Íslandi sem sagði mér að það mætti brýna hnífana á sama hátt og aðra stálhnífa. Hér  geturðu lesið um hnífana hjá Progastro (umboðsaðili á Íslandi).


Þegar ég hafði skorið þorskinn í litla bita, hellti ég smá olíu á, og rúllaði þeim upp úr kryddblöndunni sem sést á myndinni hér fyrir ofan. Á pokanum stendur Crispy Chicken Bites Spice Mix og hann er frá Santa Maria.


Síðan skar ég niður kirsuberjatómata, sveppi, gula og rauða papriku og svissaði á pönnunni með smá olíu og hvítlauk. Síðast setti ég fiskinn út á pönnuna og steikti hann með grænmetinu.


Á meðan allt mallaði á pönnunni, skar ég niður grænmeti í ósköp fábrotið, en hrikalega gott, ferskt salat. Jöklasalat, graslaukur og avocado.

Vissirðu að avocado heitir lárpera á íslensku? Mér finnst það miklu flottara nafn en avocado. 


 Voila! Tilbúið! Borið fram með mexíkóskum pönnukökum, salsa sósu og sýrðum rjóma. 

Kveðja, Hanna Björg


Saturday, February 9, 2013

Mamma til bjargar!

Við erum flutt! Jibbí!

Með aðstoð hörkuduglegra og fílsterkra manna og mömmu, tókst okkur að flytja á u.þ.b. 3 klukkustundum á laugardaginn í síðustu viku. Við búum bara á neðri hæðinni eins og er, en það styttist í að við getum notað allt húsið :)


Við vorum svo ótrúlega heppin að fá elsku mömmu í heimsókn um síðustu helgi. Oh, það var sko best í heimi. Mér fannst svo gaman að hún skyldi vera með okkur á þessum skemmtilegu tímamótum. Og elsku litla stráknum mínum fannst ekki síður gaman að hafa ömmu sína. Hann naut sko hverrar mínútu.


Síðasta kvöldið sem mamma var hjá okkur, undirbjó ég sushiveislu fyrir okkur - og á meðan sungum við mamma hástöfum við allt frá Scorpions til Villa Vill og Celine Dion. Við gerðum þetta oft þegar ég var yngri, systur minni til mikils ama (þ.e. sungum - sushi græðgin er nokkuð nýleg). Svo spjölluðum við svo mikið að þegar mamma fór þá var ég í þrjá daga að endurheimta orðakvótann minn. Æj, það er enginn eins og mamma.


Thursday, February 7, 2013

Gangur (fyrir og á meðan)

Hér koma fyrstu myndirnar innan úr húsinu okkar :) Svona fyrir og "á meðan".

Stigi, fyrir og "á meðan"

Stiginn var orðinn frekar ljótur og slitinn, svo við ákváðum að taka hann í gegn. Fyrst var hann pússaður, svo var gamla ljóta teppið tekið úr honum og síðan var hann grunnaður og lakkaður fjórar umferðir.

Við erum búin að velta því ansi mikið fyrir okkur hvort við ættum að setja teppi ofan á þrepin aftur, eða hvort við ættum að gera eitthvað annað. Eins og er líst okkur best á að setja fallegt teppi, því við höfum á tilfinningunni að það sé öruggast (besta gripið) fyrir snögga litla fætur. Hvað finnst þér?


Taktu eftir hurðakörmunum. Þeir voru svartir og hálf kjánalegir við hvítar hurðarnar. Ég hef mikið velt þessari samsetningu fyrir mér en skil ekki enn hvers vegna einhver vill hafa svarta karma og hvíta hurð. Það eina sem mér dettur í hug er að viðkomandi hafi verið sjónskertur, og að dökku hurðakarmarnir hafi verið hugsaðir sem svona "HÉR ER HURÐ" aðvörun :)

Karmarnir voru með einhverskonar plasthúð að utan. Við pússuðum þá, fórum eina umferð með hefti-grunn yfir allt og lökkuðum svo með hvítu. Fimm umferðir, takk fyrir.

Eins og þú sérð erum við líka búin að parketleggja ganginn. Þvílíkur munur, þó þetta sé ekki tilbúið :)

Kveðja, Hanna

Friday, February 1, 2013

Þriggja hæða salat

Ég er mikill aðdáandi einfaldra og hollra rétta (eins og þú kannski veist nú þegar). Um daginn gerði ég voða gott og einfalt kjúklingasalat.


Ég keypti tilbúinn (fulleldaðan) kjúkling og notaði grænmeti og hnetur sem var til hér heima. Úr þessu varð meinhollur og hrikalega góður skyndibiti sem allir fjölskyldumeðlimir voru hæstánægðir með.


Yfirleitt, þegar ég geri kjúklingasalat skelli ég öllu í skál en þegar ég var að leita að sigtinu rakst ég á þriggja hæða kökudiskinn minn, sem er auðvitað alveg kjörinn fyrir svona :) Ég raðaði hráefninu á diskinn, og það gat þá hver um sig útbúið sitt eigið salat. Fullkomið þegar fjölskyldumeðlimir eru ekki sammála um hvert hlutfall grænmetis og kjúklings á að vera ;)

Kveðja, Hanna