Friday, August 31, 2012

Að gefa sér tíma


Ég las einhvern tímann lista yfir einfalda hluti sem gera börn hamingjusamari, sem við fullorðna fólkið eigum til að gleyma í hversdeginum. Eitt af því sem stóð á listanum var: "Eyddu meiri tíma í að horfa á vinnuvélar og maura". Með þessu átti höfundur listans við að maður ætti að gefa sér meiri tíma í að skoða með börnunum það sem þeim þykir merkilegt. Mér fannst frábært að vera minnt á þetta og fer eftir þessu af fremsta megni.

Elsku liti drengurinn minn er alveg heillaður af mótorhjólum og flugvélum. Þegar hann sér svoleiðis, reynum við að gefa okkur tíma til að fylgjast með þeim í smá stund. Svo spjöllum við aðeins um tækin. Honum finnst það æði :) Verður svo spenntur að hamingjan skín úr fallegu brúnu augunum hans.


Honum finnst fátt skemmtilegra en að klifra. Oftast má ekki klifra - ýmist af því að það er svo hættulegt eða af því að við höfum ekki tíma. Öðru hverju finnum við okkur stað og stund, og gefum við okkur bara smá tíma til þess að klifra :) Það þarf ekki nema eina girðingu til (og mömmu sem hjálpar manni svo maður slasi sig ekki). Oftast er einfalt best :)


Litli klifurkappinn minn veit fátt skemmtilegra en að fá að spreyta sig á ýmis konar þrautabrautum. Stundum vill hann líka bara skoða hvernig hlutar brautarinnar virka. Hvað gerist ef hann ýtir í þá. Hvað gerist ef hann hoppar á þeim. Athuga hvernig þeir eru viðkomu og svo framvegis. Honum finnst líka rosalega gaman að sýna mömmu sinni það sem honum þykir merkilegt.


Myndirnar tók ég þegar við tókum okkur pásu á hjólatúrnum, á leiðinni heim úr leikskólanum um daginn. Maður þarf ekkert alltaf að drífa sig beinustu leið heim :)

 
Kveðja, Hanna

Thursday, August 30, 2012

Púsl-samlokur


Ég gerði þessar krúttlegu samlokur fyrir ljúfinn minn áðan. 


Því miður fattaði ég ekki fyrr en þær voru tilbúnar, að hann hefði auðvitað haft ótrúlega gaman af því að skera þær út sjálfur. Klaufinn ég! Man það næst.


Það er ábyggilega betra að nota piparkökuform en ég á ekkert svoleiðis svo ég notaði leikfang frá litla ljúf :)


Ég smurði samloku með skinkumyrju (á báðar brauðsneiðarnar) og setti skinku á milli. Síðan skar ég út litla krúttlega púslbita með því að þrýsta forminu í gegnum samlokuna. Voila! Tilbúið.

Kveðja, Hanna

Wednesday, August 29, 2012

Pastaréttur með kjúklingi

Ég gerði pastasúpu með kjúklingi í kvöld. Súpa er reyndar svolítið rangnefni. Þetta er eiginlega svona mitt á milli þess að vera súpa og kássa.

Eins og flest sem ég elda, er þessi réttur ósköp einfaldur :)


Innihald:
1 l         tómatsafi
1 stk     laukur
2 stk     hvítlauksrif
6 stk     sólþurkkaðir tómatar
5 dl       pasta
2 stk     kjúklingabringur
             kjúklingakraftur
             pizza & pasta krydd
             (frá Knorr)


Aðferð:
  1. Byrjaðu á því að saxa laukinn og skera tómatana og kjúklinginn.
  2. Síðan skaltu svissa laukinn aðeins í potti, pressa svo hvítlauk út í og bæta við sólþurrkuðu tómötunum.
  3. Næst hellirðu tómatsafanum saman við og lætur sjóða.
  4. Þegar suðan er komin upp skaltu bæta kjúklingnum við og leyfa honum að malla þar til hann er næstum tilbúinn. Þá er komið að því að bæta pastaskrúfunum út í.
  5. Leyfðu svo öllu að malla í dálitla stund þar til pastað og kjúklingurinn eru tilbúin.
  6. Þá er um að gera að smakka réttinn og bæta við smá kryddi ef þér þykir þörf á.


Þú afsakar ónákvæmnina í uppskriftinni. Ég steingleymdi að fylgjast með því hvað ég var lengi að hverju. Ég þreif nefnilega eldhúsið og lagði á borð á meðan ég var að elda og kíkti bara reglulega í pottinn á meðan.


.
Talandi um að leggja á borð. Mér finnst svo gaman að gera borðið fínt með því að nota sætar servíettur og diskamottur. Ég get svo svarið fyrir það að maturinn smakkast betur :)

Kveðja, Hanna

Tuesday, August 28, 2012

Að smakka eitthvað nýtt

Mangósalat í morgunmat
Ég efast um að það hafi farið fram hjá nokkrum lesanda þessa bloggs, að mér finnst ávextir ótrúlega góðir. Það finnst ljúfinum mínum sem betur fer líka.

"Sem betur fer" segi ég eins og að það sé heppni. Ég held samt að það sé engin heppni.

Hann fær ávexti á hverjum degi. Marga á dag. Þannig hefur það verið síðan hann fékk fyrst að borða eitthvað meira en mjólk og graut.

Fyrir nokkrum mánuðum smakkaði hann fyrst mangó. Hann fékk sér einn bita, gretti sig og ýtti honum í burtu. Síðan fékk hann banana, sem hann borðaði af bestu lyst. Ég dró þá ályktun að honum hlyti að finnast mangó ógeðslega vont og reyndi ekki einu sinni að fá hann til að borða það aftur.

Mangó, Bláber og Havre Fras
Nokkrum dögum seinna var ég að borða mangó. Hann var með vínber, sem voru uppáhaldið hans. Hann teygði sig eftir einum bita hjá mér og smakkaði. Síðan fékk hann sér annan bita, og svo annan, og annan og áður en ég vissi af var hann búinn með heilt mangó.

Síðan þá má varla opna ísskápinn án þess að hann biðji um mangó. Það er það allra besta sem hann veit.

Hann lætur oft svona þegar hann smakkar eitthvað nýtt, þ.e. eins og honum finnist það vont.

Hann er aldrei látinn borða það sem hann vill ekki borða, en eftir mangóið setjum við alltaf á diskinn hans það sem við viljum að hann smakki, og hvetjum hann til að prófa. Oftar en ekki virðist hann bara þurfa að venjast nýja matnum.

Ég held að alltof margir foreldrar geri sömu mistök og ég gerði þegar ég hélt að litla ljúf þætti mangó vont - hætti að bjóða barninu sínu það sem barnið hefur fúlsað við einu sinni.

Auðvitað finnst börnum (og fullorðnum) matur misgóður en það er gott að hafa í huga að bragðskyn þroskast og breytist. Það sem þeim þykir vont í dag getur þeim þótt gott á morgun.


Kveðja, Hanna

Monday, August 27, 2012

Muffinsrós



Ég talaði um það, um daginn, að setja inn smá kökuskreytingarkennslu. Ég bakaði nokkrar súkkulaðimúffur í gær, og skreytti þær með einfaldri rós. 


Þú þarft stút, svipaðan þeim sem er á myndinni hér fyrir ofan. Þegar ég skreyti múffur, nota ég yfirleitt svolítið stóra stúta því mér finnst rósirnar verða fallegri.

Súturinn á myndinni er ódýr stútur úr plasti, keyptur í Bónus (minnir mig). Ég á líka dýrari stúta frá Wilton, og ég verð að viðurkenna að mér finnst útkoman yfirleitt fallegri þegar ég nota þá. Þú getur borið saman þessar rósir við þær í póstinum um heimatilbúið mömmukaffi. Ég notaði sama krem á kökurnar í hinum póstinum - en Wilton stútana.


Það er mikilvægt að byrja í miðjunni. Þú kreistir svo pokann með kreminu bara varlega.


Síðan sprautar þú kreminu hring eftir hring, eins og í spíral.


Ótrúlega einfalt. Þú getur þetta alveg. Ég var innan við tvær mínútur að skreyta tólf kökur. Pís of keik!


Ég sá það ekki fyrr en ég skoðaði myndirnar núna, hvað rósamynstrið sést illa. Ég set kannski inn skýrari myndir þegar ég geri svona næst :)


Kveðja, Hanna

P.s. Það er svo sem spurning hvort ég kaupi ekki bráðum síma með betri myndavél. Mælir þú með einhverjum?

Friday, August 24, 2012

Heimatilbúið lok fyrir glas

Það er svo gaman að leika úti í garði í góða veðrinu :) 

Við erum með litla sæta busllaug sem stúfurinn litli hefur ótrúlega gaman af.

Hann getur líka gleymt sér heila eilífð á meðan hann málar húsveggi og grindverk með vatni. 

Stundum er alveg ótrúlega gaman að fylgjast með fólkinu sem labbar fram hjá og jafnvel heilsa því. 

Svo er litli ljúfur orðinn ofsalega duglegur að hjóla á þríhjólinu sem hann fékk frá afa og ömmu í Mosó :)

Okkur mæðginum finnst líka voðalega notalegt að fara í lautarferð í garðinn okkar. Við tökum með okkur teppi, púða, bækur og smá nesti.


Þegar maður fer út með nesti, koma stundum svangar flugur sem langar að smakka. Við erum ekkert rosalega hrifin af þeim, og viljum bara eiga matinn okkar í friði. Ég sá alveg stórsniðuga hugmynd, sem heldur flugunum úr glösum, um daginn á Pinterest og prófaði hana. Það eina sem þú þarft er glas, muffinsform og rör.


Þú gerir gat á mitt muffinsformið. Ég notaði grillpinna. Síðan seturðu rör ofan í gatið, og leggur svo formið öfugt ofan á glas. Muffinsformið þarf að passa á glasið, svo þau þurfa að vera í stærri kantinum. Ég notaði form frá Tiger. 100 litrík form fyrir 300 krónur.


Ljúfurinn minn var hæstánægður með þetta nýja, fína glas - og mér fannst þetta ekki bara stórsniðugt, heldur líka hrikalega krúttlegt. 

Kveðja, Hanna

Thursday, August 23, 2012

Taska, taska

Litli stúfurinn minn er búinn að vera rosa spenntur fyrir töskum síðustu daga. Mig grunar að uppspretta áhugans sé áhorf hans á Dóru landkönnuð en hún á einmitt voða fína tösku.


Þegar við löbbuðum heim úr leikskólanum í dag vildi ljúfurinn litli alveg endilega halda sjálfur á leikskólatöskunni sinni. Það gekk frekar brösulega, enda taskan á stærð við hann sjálfan. Við komum þess vegna við í bænum og keyptum litla sæta tösku sem hann getur borið alveg sjálfur.


Hann valdi þessa fínu tösku alveg sjálfur :) Vildi ekki líta við neinum öðrum. Mér fannst það í góðu lagi, enda er þetta taskan sem ég hefði sjálf valið fyrir hann.


Hann var ekkert lítið roggin, þegar hann fékk að setja á sig bakpokann og labba með hann heim. Mér fannst hann duglegasti strákur í heimi :)

Kveðja, Hanna

Wednesday, August 22, 2012

Húsráð: pottur sem sýður ekki upp úr

Ég man ekki hvar ég heyrði eða las þetta ráð en það er eitt af þeim bestu sem ég hef prófað.

Ef þú setur trésleif (eða tréprik eins og ég gerði, því ég á ekki trésleif) yfir suðupott, þá sýður ekki upp úr honum.


Finnst þér þetta hljóma ótrúlega? Mér fannst það. Svo prófaði ég þetta - og það sýður aldrei upp úr. 

Prófaðu þetta endilega þegar þú sýður eitthvað næst :) 

Kveðja, Hanna

Tuesday, August 21, 2012

BBQ lax með kartöflum og salati


 

Ég gerði rosa góðan lax í kvöld. Ég hugsa að þessi réttur sé sá einfaldasti sem ég kann, og ábyggilega sá hollasti líka.Ég nota lax, tilbúna marineringu, kartöflur og ferskt grænmeti.



Marineringin heitir BBQmarinade garlic og er frá Santa Maria. Hún sést á myndinni hér fyrir ofan. Ég veit ekki hvort hún fæst á Íslandi, þú mátt endilega láta mig vita ef þú veist það. Ég hef notað alls konar BBQ marineringar til að gera þennan rétt. Þú getur eflaust notað einhverja aðra ef þú finnur þessa ekki.


Ég byrja á því að setja kartöflurnar í suðu. 

Svo sný ég mér að fiskinum. Ég set hann, ásamt marineringunni í skál og passa að þekja fiskinn vel. Litli hjálparkokkurinn minn fékk að aðstoða við það í dag :) Hann stóð sig frábærlega eins og sést á myndinni :)

Síðan sker ég niður smá grænmeti til að hafa með. Í dag var það jöklasalat, graslaukur og gulrætur. Það er líka um að gera að leggja á borð á meðan beðið er eftir kartöflunum. Jafnvel hægt að sópa gólfið :)

Þegar kartöflunar eru alveg að verða tilbúnar steiki ég fiskinn í u.þ.b. 5-7 mínútur á hvorri hlið.

Síðast helli ég vatninu af kartöflunum, og skelli þeim á pönnuna í u.þ.b. 1-2 mínútur, bara til að nýta mareneringuna sem er eftir á pönnunni.

Þá er þetta tilbúið og ég segi "Gjörið svo vel" við fallegu fjölskylduna mína :)



Kveðja, Hanna

Monday, August 20, 2012

Mér finnst rigningin góð


Ég keypti mér regnkápu og stígvél um daginn. Kápuna keypti ég í Lindex en stígvélin fékk ég á útsölu í Skopunkten.


Litli ljúfurinn minn veit fátt skemmtilegra en að leika úti í rigningunni og það gekk bara ekki lengur að útifataleysi mömmunnar kæmu í veg fyrir pollahopp og rigningahlaup :)


Á laugardaginn kom hellidemba. Við gripum tækifærið og drifum okkur út. Hoppuðum saman í alla polla sem við fundum og bjuggum til stærðarinnar sandkastala úr fullkomnum byggingarsandi. Litla ljósið mitt ljómaði úr gleði :)


Kveðja, Hanna

Friday, August 17, 2012

Kósýkvöld

Í kvöld er kósýkvöld hjá okkur, myskvöld eins og við köllum það (af því það heitir myskväll á sænsku).

Við vorum svo heppin, að þegar litla systir mín kom í heimsókn um daginn fengum við smá sendingu frá pabba og Lindu "mömmu". Í henni var meðal annars gómsætt og girnilegt íslenskt nammi sem við ætlum að gæða okkur á í kvöld.

Appollo lakkrísreimar, Sírius rjómasúkkulaði og ísköld mjólk. Fullkomið föstudagsnammi :)



Kveðja, Hanna

Thursday, August 16, 2012

Sumarleg baka

Það er búið að vera svo gott veður hjá okkur síðustu daga. Dagurinn í dag var engin undantekning, svo mig langaði að hafa eitthvað sumarlegt í kvöldmatinn. Eitthvað létt en samt mettandi. Litrík baka fannst mér alveg tilvalin :)

Eins og oftast þegar ég elda, fór ég ekki eftir neinni uppskrift heldur notaði bara það sem mig langaði í. Deigið keypti ég tilbúið, útflatt og upprúllað - smjördeig frá Sarah Lee. Ég held það fáist í flestum matvöruverslunum á Íslandi. Annars er nú ekki mikið mál að gera það sjálfur.


Sumarleg bökufylling
Innihald:
200 gr Skinka
100 gr Ostur
1 dl Matreiðslurjómi
8 Egg
8 Kirsuberjatómatar
1/2 Rauð paprika
1/2 Gul paprika

Ég byrjaði á að hita ofninn í 180°C og setti deigið í bökuform. Næst skar ég niður grænmetið og skinkuna, reif niður ostinn, og hrærði saman eggin og rjómann.

Síðan raðaði ég skinkunni og grænmetinu ofan á deigið í forminu, stráði osti yfir og hellti síðan eggjahrærunni yfir allt.

Bakan fór svo inn í ofn í u.þ.b. 25-30 mínútur.


Ég hafði ferskt salat með. Í því var jöklasalat, skinka, paprika og graslaukur. Setti punktinn alveg yfir i-ið.

Kveðja, Hanna

Tuesday, August 14, 2012

Saman


Litli fallegi ljúfurinn minn var í leikskólanum frá hálf níu til að verða fimm í dag. Úff, það tók svo á mömmuhjartað að ég verð með strengi á morgun. Hann hefur aldrei verið svona lengi áður. Var þó alveg rólegur, tók eflaust ekkert eftir því að hann var lengur en venjulega.


Það er svo gaman hvað kúturinn minn er farinn að tala mikið. Hann er voðalega upptekinn af orðinu "saman". Þegar við förum í bílinn segir hann: "Eglingi sitja, mamma sitja, pabbi sitja. Saman."

Hann segir það líka ef við knúsumst öll í einu.
-Og þegar hann kemur upp í.

"Saman."

Mér finnst þetta litla orð svo fallegt.

Kveðja, Hanna

Monday, August 13, 2012

Klósettrúllukubbar


Litli herramaðurinn á heimilinu er að læra að nota klósettið. Ég hef notað ýmsar aðferðir til þess að fá hann til að sitja kyrr. Við syngjum voða mikið, lesum, spjöllum, teljum tær og fingur - og í dag bjuggum við til klósettrúllukubba :)

Grallaraspóinn minn sat ábyggilega í tíu mínútur og raðaði saman klósettrúllum. Hann hefur aldrei fengist til að sitja svona lengi áður.


Ég fór svo að hugsa hvort við gætum ekki föndrað eitthvað sniðugt úr rúllunum og fékk snilldarhugmynd (þó ég segi sjálf frá). Við föndruðum þroskaleikfang úr klósettrúllunum.



Við máluðum hverja klósettrúllu í tveimur litum. Hver litur var notaður tvisvar sinnum. Hugsunin var að það ætti að para saman litina, á sama hátt og maður parar saman punktana á domino kubbum.



Þannig gátum við eflt hreyfiþroskann (þegar hann raðaði rúllunum saman) og vitsmunaþroskann (þegar hann paraði saman samstæða liti). Í bónus fengum við stórskemmtilegt föndurverkefni sem við unnum saman.


Kveðja, Hanna


Sunday, August 12, 2012

Mesquite kjúklingasalat

Mesquite kjúklingasalat

Mér finnst svo gaman að búa til holla, góða og einfalda rétti sem tekur stutta stund að matreiða. Einn af uppáhaldsréttunum mínum er Mesquite kjúklingasalat.

Ég krydda kjúklingabringur með olíu og mesquite kryddi, pakka þeim í álpappír og elda svo í ofni á 180°c í u.þ.b. 30 mínútur.

Mesquite krydd, fæst t.d. í
Bónus og Hagkaup.
Á meðan kjúklingurinn er í ofninum sker ég niður grænmeti. Það er svolítið misjafnt hvaða grænmeti ég nota. Oftast nota ég bara það sem er til. Í salatinu á myndinni er jöklasalat, rauð paprika, rauð vínber, gúrka og púrrulaukur. Hrikalega góð blanda.

Ég leyfi kjúklingnum yfirleitt að kólna aðeins áður en ég sker hann. Ég las nefnilega einhvern tímann að þá verði hann safaríkari.  Ég veit ekki hvort það er rétt, en minn kjúklingur verður a.m.k. oftast mjög djúsí :)

Kveðja, Hanna