Thursday, November 19, 2015

Nýjir skór


Ég er skóböðull og geng alveg rammskakkt. Svona líta skórnir mínir út núna. Hælarnir algjörlega uppspændir á skónum sem ég lét þó sóla fyrir síðasta vetur. Ég er búin að vera að velta fyrir mér hvort ég eigi að láta laga þá aftur, en hef ekki látið verða að því sökum þess að ég held að ég sé búin að ganga leðrið svo mikið til að skórinn styður ekki lengur rétt við fótinn hvort sem er. Svo er ég líka búin að vera með augastað á draumaskónum í svolítinn tíma en tími ekki að kaupa mér þá.


Ég þarf varla að taka það fram að ég er auðvitað búin að vera að drepast í fótunum og bakinu, gangandi um með hálfan hæl undir skónum.

Elsku Elli minn ákvað þess vegna að taka málin í sínar hendur í dag. Bauð mér í hádegismat í bæinn og kom mér svo alveg á óvart með því að gefa mér draumaskóna! Ég vil sofa í þeim - þeir eru svo dásamlegir!


Bjútífúll á fæti! Gjeggaðir á litnn.


 Sjúklega þægilegir! Mjúkir og næs, en styðja samt svo vel við fótinn.


...og sérðu sólann! Ég spæni þennan nú ekki upp á einum vetri.

Takk Elli minn!

Kveðja, Hanna

 

Monday, November 16, 2015

Morgunstund gefur gull í mund


Stóri bróðir vildi endilega sýna systur sinni Pocoyo. Mér fannst þau voða krútt í þessar tuttugu sekúndur sem litla systir entist áður en hún fór að rúlla sér út um allt :)


Elsku mömmuljúfurinn minn dundaði sér við að setja saman þotuna sem hann fékk í 5 ára afmælisgjöf frá ömmu og afa á Íslandi í síðustu viku.

Hann var heldur betur montinn með sig þegar hún var síðan tilbúin, enda búinn að setja saman heilt legosett fyrir 9 til 14 ára - alveg sjálfur! Hann spyr auðvitað stundum hvort hann sé að gera rétt (ef leiðbeiningarnar eru ekki alveg skýrar), en annars fékk hann nánast enga hjálp.

Ég þarf varla að taka það fram að ég er að springa úr stolti yfir þessum snillingi. Að setja saman svona stórt sett er nefnilega æfing í svo miklu fleiru en að setja saman kubba. Til dæmis eru þolinmæði, þrautseigja og skýr rökhugsun meðal þess sem þjálfast. Þetta vann hann í 1-2 tíma á dag í fimm daga.




Elsku litla ljúfan stækkar og stækkar. Hún er farin að rúlla sér um allt, draga sig áfram með höndunum og svo hjalar hún og skríkir svo fallega allan daginn. Hún passar alveg fullkomlega í málglöðustu fjölskyldu Evrópu og virðist hafa lært snemma af bróður sínum að kyrrseta sé ofmetin :) Henni finnst þó ennþá ægilega gott að hjúfra þessar bollukinnar í mömmufang og er helst ekki meira en tuttugu sentimetra frá mér. Alveg eins og það á að vera!

Kveðja,
Hanna

Sunday, November 8, 2015

Feðradagurinn 2015


"Það er bara leiðinlegt fólk sem leiðist" sagði pabbi við mig þegar ég var svona 8 kannski 9 ára og kvartaði yfir því að hafa ekkert að gera. Þessi setning hefur svo sannarlega fylgt mér í lífið. Boðskapurinn er einfaldur og hnitmiðaður. Ef maður vill vera skemmtilegur þarf maður bara að hafa gaman. Ef maður vill vera duglegur, þarf maður bara að leggja hart að sér og vinna vel. Ef maður vill verða góður í að bakka - ja, þá þarf maður bara að bakka í stæði á bílaplaninu hjá Coca Cola í tvo klukkutíma. Simple as that! Hver er sinnar gæfu smiður er það besta sem pabbi hefur kennt mér.

Ég er svo lánsöm, að elsku pabbi minn er ekki bara leiðbeinandi minn um lífið - heldur er hann líka vinur minn. Við getum spjallað í marga klukkutíma í einu um allt milli himins og jarðar. Hann heimsótti okkur einmitt fyrir tveimur vikum og við gerðum í raun ekkert annað en að spjalla. Mér þótti svo vænt um það, og heimilið varð svolítið notalegra við nærveru hans.

Ég get náttúrulega ekki skrifað heila færslu um pabba án þess að þakka honum fyrir tónlistarsmekkinn minn, sem hann á heiðurinn af - alveg skuldlaust. Hugsa sér tómarúmið í lífinu ef í það vantaði Pearl Jam, Zeppelin, Stevie Ray Vaughan og fleiri. Þér er alveg fyrirgefið fyrir að hafa "óvart" brotið Britney Spears diskinn áður en hann komst í fyrstu spilun ;)

Annað, sem mér þykir einstaklega vænt um, er gagnrýna hugsunin sem pabbi kenndi mér. Að trúa ekki því sem ég les eða heyri án þess að efast. Það hefur pabbi kennt mér frá því ég var pínulítil, án þess kannski að gera sér grein fyrir því :) Klár karl!


Ég gæti skrifað heila bók um elsku pabba en læt þessa færslu nægja í bili. Skrifa kannski nýja lofræðu að ári ;)


Ég heyrði einhvern tímann að aðeins bestu pabbarnir væru hækkaði í tign og gerðir að öfum. Pabbi minn átti þá stöðuhækkun sannarlega skilið og veldur henni einstaklega vel sem "afi mótorhjól". 

Takk, elsku pabbi, fyrir allt sem þú ert og allt sem þú gerir <3

Kveðja, Hanna

Thursday, October 29, 2015

5 ára!

 

Litli strákurinn minn verður víst stærri á hverjum degi... og nú er hann fimm ára!

Þetta er auðvitað stór áfangi fyrir hann og elsku ljúfurinn minn er búinn að bíða spenntur "lengi" eftir þessum miklu tímamótum :) Fimm ára er nefnilega svo miklu meira en fjögurra ára. Ég komst að því eftir að við mæðgin ræddum aðeins saman um muninn á 4 og 5 ára.

  • Það er miklu betra að vera fimm ára en fjögurra ára, því fimm ára eru nefnilega elstir í leikskólanum. Fimm ára eru líka betri í körfu og fótbolta en fjögurra ára.  
  • Fimm ára hlýða ALLTAF því sem mamma og pabbi segja. Nema þegar þeir gleyma sér smá. Þá bara minna mamma og pabbi á. 
  • Fimm ára eru líka rosalega hugrakkir en kunna samt að passa sig, og láta mömmu eða pabba vita ef eitthvað er of hættulegt eða hræðilegt. 
  • Fimm ára geta sett saman heilt legosett alveg sjálfir, án nokkurrar aðstoðar.  
  • Fimm ára kunna að ryksuga herbergið sitt sjálfir, og líka búa um. Fimm ára finnst samt ekki gaman að búa um - bara að ryksuga. 
  • Fimm ára kunna allar umferðarreglurnar. 
  • Fimm ára geta farið sjálfir í heimsókn til vina sinna og verið sjálfir í afmælum.
  • Fimm ára geta líka passað litlu systur sína - ef mamma eða pabbi eru nálægt.
  • Fimm ára geta klifrað hærra og hlaupið hraðar en fjögurra ára 
  • Fimm ára kunna að skreyta afmælisköku alveg sjálfir.
  • ...og þó fimm ára séu rosalega stórir mega þeir samt líka vera litlir stundum þegar þá vantar kúr og knús. Maður verður nefnilega aldrei of stór fyrir svoleiðis. 

Við héldum smá veislu á afmælisdaginn, með "sænsku stórfjölskyldunni" okkar, og svo verður önnur haldin fyrir leikskólavinina á sunnudaginn. Ég leyfi smá myndum að fylgja með :)

Pakkar og blöðrur biðu afmælisbarnsins þegar hann vaknaði - og vöktu mikla lukku :)
 
Sérstök ósk um súkkulaðimorgunmat, eins og heima hjá ömmu, var uppfyllt. Litla systir fékk samt bara hafragraut og vatn :)


Það var rosalega erfitt að bíða eftir gestunum, en smá dans reddaði því alveg :) Gluggarnir okkar eru ekki málaðir svartir... við héldum bara veisluna klukkan 17, og þá var orðið dimmt.


 Í boði voru pylsur, súkkulaðikúlur með kökuskrauti...


...súkkulaðikaka með vanillukremi og nammi (skreytt af afmælisbarninu)...


 ...kanelsnúðar og fullt af nammi...


og auðvitað nammikaka með súkkulaðikremi (einnig skreytt af afmælisbarninu).


Mömmuljúfurinn var himinlifandi og hamingjusamur með "besta dag í heimi". Takk elsku vinir og fjölskylda fyrir að vera með (úr fjarlægð eða hér hjá okkur) og gera daginn svona yndislegan og eftirminnilegan!

Kveðja,
Hanna

Monday, October 19, 2015

Bleika slaufan


Það er svo notalegt að hafa litrík og falleg blóm í kringum sig. Heimilið ljómar og verður svo fínt. Eða það finnst mér að minnsta kosti. Ég kaupi mér reglulega pottablóm en af einhverri ástæðu finnst mér hálf vandræðalegt að kaupa mér sjálfri blómvönd svo ég geri það aldrei. Kjánalegt, ekki satt? En verður til þess að mér þykir enn skemmtilegra þegar ég fæ blómvönd :)

Ég fékk þessar fínu rósir í síðustu viku, og fannst tilvalið að skreyta vasann (sem reyndar er bara glas, því ég á ekki vasa) í tilefni Bleika dagsins á föstudag :) Ég valsaði klædd í bleikustu flíspeysu í heimi og keypti þrjár slaufur sama dag :)

Íslensku slaufurnar eru alltaf svo fallegar. Ég er búin að fá þær í jólagjöf undanfarin ár, og þykir svo vænt um það. Yndisleg gjöf sem gefur.

Hér er hægt að kaupa bleiku slaufuna -- Vefverslun fyrir bleiku slaufuna

Kveðja, Hanna

Monday, October 12, 2015

Sjóræningjaróló


Það er búið að vera óvenju hlýtt og gott veður þetta haustið. Einhvern blíðviðrisdaginn í síðustu viku fórum við á einn af uppáhalds leikvöllunum okkar - Sjóræningjarólóinn. Ég man ekki afhverju við fórum að kalla hann það. Það er ekkert sjóræningalegt við hann. Samt verður hann einhvern veginn skemmtilegri fyrir vikið. Það yrði hvaða staður sem er meira spennandi við að kallast "sjóræningja"-eitthvað. Ég held a.m.k. að rólóinn væri ekki eins mikið uppáhalds ef við kölluðum hann bara rólóinn í bænum.


Það er voðalegt sport að klifra í trjám þessa dagana, og kúturinn er orðinn ótrúlega flinkur við það. Ég get þó ekki sagt að ég sé sérstaklega hrifin af þessari iðju hans. Mér finnst alltaf að hann sé við það að detta niður og fá gat á hausinn, og stend yfirleitt frekar taugaveikluð og stressuð við tréð. Þrátt fyrir að hann fái ekki að klifra hærra en svona 1 til 1,5 metra :) Æj, hann er bara svo brothættur og lítill.


Í þessari róló-ferð fékk litla systir að róla í fyrsta sinn. Það fannst henni stórskemmtilegt og hún skríkti af kæti allan tíman. Líklega fólst þó mesta gleðin í því að vera með stóra bróður sem gretti sig, geyflaði og hló allan tímann.


Kveðja, Hanna




Thursday, October 8, 2015

Blúndugalli


Við höfum ekki þurft að nota útigalla mikið fyrir litlu ljúfuna hingað til. Helst bara þegar við vorum á Íslandi í sumar. Þá keyptum við ekki nýjan galla fyrir hana, heldur notuðum aftur notalegan, ljósan 66°n flísgalla sem stóri bróðir fékk þegar hann var pínulítill.

Ég var orðin svolítið leið á gallanum, svo ég saumaði á hann smá blúndu og er ekkert smá ánægð með útkomuna. Voða einföld og látlaus breyting, en mér fannst þetta verða ný flík.


"Fyrir"myndin er ansi hreyfð og óskýr. Ástæðan er sú að hugmyndin að breytingunni var svolítil fluga, og ég mátti eiginlega ekki vera að því að taka myndina. Ég var svo æst í að byrja að sauma :)


Tilbúinn og algjört krútt!


Að sjálfsögðu hafa fleiri flíkur verið skreyttar með smá blúndu í framhaldinu. Hvað verður ekki fallegra með smá blúndu á?

Kveðja, Hanna

Wednesday, October 7, 2015

Hálfs árs


Fallega, ljúfa, yndislega, litla dóttir mín er hálfs árs í dag. Ég trúi vart að mér hafi hlotnast sú blessun og lukka að eignast þessa dásamlegu litlu blómarós.

Ég er alveg viss um að tíminn hafi aldrei liðið jafn hratt og síðustu 6 mánuði. Það er eflaust satt sem þeir segja - tíminn líður sannarlega hraðar þegar það er gaman.

Glaðvær, rólynd og forvitin eru orðin sem lýsa litlu mömmumúsinni minni best, og það besta sem hún veit er að vakna. Engum í heiminum þykir jafn gaman að opna augun eftir væran blund og þessari litlu dásemd. Hún skríkir úr kæti og brosir svo blítt að það myndi bræða hvern sem er. Það er fátt, ef eitthvað, sem jafnast á við að fylgjast með þessu augnabliki.


Á sinni stuttu ævi hefur hún fært svo mikla gleði í heiminn... bætt hann svo um munar. Ég hlakka svo til að fylgjast með henni halda áfram að vaxa og dafna. Bæta og kæta allt í kringum sig enn meira, með blíðu brosi og hlýju hjarta.

Kveðja, Hanna

Friday, October 2, 2015

Spilastund



Gullkornin rúlla af vörum þessa undursamlega og stórskemmtilega drengs.

"Mamma, ég ætla að krumpa þig!" sagði hann í morgun þegar við settumst niður til að spila. Aðspurður um orðavalið, sagði hann að honum þætti svo ljótt að segjast ætla að rústa einhverjum.

Kveðja, Hanna

Monday, September 28, 2015

Glatað góðverk?

Þessi plómupæ tengist færslunni ekki neitt, en allt er betra með smá pæ - er það ekki?

 
Annað slagið hef ég lesið fréttir af einföldum, fallegum og hversdagslegu góðverkum sem hafa ratað í fjölmiðla eftir að þeir sem þau hafa unnið, hafa skrifað um þau á Facebook. Ég hef líka lesið athugasemdirnar við þessar fréttir, og einmitt þær eru tilefni þessarar færslu.
 

Glatað góðverk

Um helgina birtist ein svona frétt á dv.is, og eftirfarandi athugasemdir fylgdu.
"Það var nú góðverk! Gefur einhverja smáaura til að geta skrifað um það á Facebook og litið út eins og einhver hetja."
"Mér finst nú góðverk missa sjarmann ef maður þarf að skrifa facebook status um hvað maður er frábær að hjálpa öðrum."
"Vá.. hann skipti klinki í seðla fyrir manninn og leyfði honum að eiga afganginn. Og mættur á facebook til að tilkynna heiminum það"
"Svo kemur í ljós að þessi viðkomandi maður sem hjálpar skipti smápeningum í í stærri mynt og bætti við 7 pundum sem eru jú hvað 1400 krónur. Vissulega fallegt en varla nokkuð einsdæmi."
 "Erlend frétt - í forgrunni á miðlinum!"
Svipaðar athugasemdir hef ég t.d. lesið við fréttir af unglingsstrák sem bauð heimilislausum manni upp á pítsu, konu sem borgaði matarinnkaup fyrir einstæða móður sem hafði fengið synjun á kassanum í Bónus og annarri sem gaf sér tíma til að aðstoða gamla konu sem hún sá rogast heim á leið með þunga poka á íslenskum vetrardegi með tilheyrandi roki, kulda og slabbi.



Reglur um góðverk

Ég held ég hljóti að vera eitthvað að misskilja reglurnar um góðverk, en þú getur kannski aðstoðað mig?

1. Hvað þarf góðverkið að kosta mikið til að vera nógu merkilegt til að segja öðrum frá?
2. Hefði verið í lagi að fréttin væri í forgrunni á miðlinum, ef atvikið hefði átt sér stað á Íslandi?
3. Er mjög mikilvægt að allar fréttir séu af atvikum sem eru einsdæmi, eða gildir það bara um fréttir af góðverkum?
4. Verður góðverkið alveg glatað ef skrifað er um það á Facebook? Núllast það út?


Mín skoðun

Persónulega finnst mér fréttir af þessum hversdags-góðverkum aðeins af hinu góða. Þegar ég les þær, langar mig að hjálpa öðrum. Ég á engar stórar upphæðir og get ekki hjálpað öllum í einu, en ég get kannski auðveldað einhverjum lífið bara pínulítið í dag. Það er eitthvað, er það ekki?

Flest sækjum við einhvern innblástur á samfélagsmiðlum - og þó það sé rosalega skemmtilegt að uppgötva nýja kökuuppskrift, nýjan blómavasa í stofuna eða nýja leið til að nota matarsóda við heimilisþrif - þá finnst mér mun verðugra að uppgötva nýja leið til að bæta umheiminn og gleðja náungann.



Kveðja, Hanna

Wednesday, September 23, 2015

Gleði og stolt

 

Um helgina var haldið upp á Skövde Pridefestival í fyrsta skipti. Hátíð sem, eins og Hinsegin dagar í Reykjavík, fagnar fjölbreytileikanum og minnir á mikilvægi þess að allir njóti sömu mannréttinda.

Á leiðinni í gleðigönguna átti eftirfarandi samtal sér stað:
Ég: Hvers vegna heldur þú að það sé svona mikilvægt að hafa svona hátíð - þar sem maður sér að allir eru ólíkir og glaðir saman?

Hann: Af því að annars þorir maður ekki að vera eins og maður vill.

Ég: En afhverju er það svona mikilvægt að maður þori því?

Hann: Kannski verður maður annars bara leiður og finnst ekkert gaman.

Ég hef sjaldan verið eins ótrúlega stolt. Tæplega fimm ára gamall, litli, klári og fallegi sonur minn veit nú þegar nokkuð sem margir fullorðnir eiga enn eftir að læra.


Kveðja, Hanna



Friday, September 18, 2015

Annar prinsessukjóll


Ég er búin að sýna þér handverk frá ömmum, mömmu og fleirum en er eiginlega hálfspéhrædd við að sýna mitt eigið. Það bliknar allt sem ég geri í samanburði við þessi listaverk sem þær gera. Ég þarf bara að minna mig á að þær eru búnar að vera að töluvert lengur en ég :)

Ég ætla samt að stíga út fyrir þægindahringinn og leyfa þér að sjá. Það verður  náttúrulega allt gullfallegt með svona fyrirsætu <3


Ég saumaði blúnduborða, sem ég átti afgangs úr öðru verkefni, aftan í kjólinn í staðinn fyrir að setja tölu. Mér finnst það koma ægilega krúttlega út.


Hún leit nokkrum sinnum upp til mín...



 ...en þótti Transformer-karlinn sem bróðir hennar skildi eftir í sófanum mun meira spennandi en ég.



Litlu fingurnir eru voða forvitnir og krúttan litla vill smakka allt, svo við þurfum aldeilis að taka okkur í því að skilja ekki eftir dót með svona litlum hlutum í þar sem hún nær til.


Fimm ára legosnillingar og forvitin fimm mánaða snúlla er kannski ekki alveg besta blandan. Æ, jú... oftast er það alveg fullkomin blanda. Bara ekki þegar kubbarnir gleymast á stofugólfinu.


 Krúttlega samfellan með hvíta kraganum er frá Lindex.

  


Ég notaði uppskrift úr Sandnes ungbarnablaði nr. 1504 (sjá mynd), en breytti reyndar hálsmálinu aðeins. Nú er ég byrjuð á næsta kjól (þessum á forsíðunni), úr yndislegu og dúnmjúku fjólubláu alpakka silki. 


Kveðja, Hanna

Thursday, September 17, 2015

Sumarbragð



Ég var að fletta í gegnum nokkrar frá sumrinu og rakst á nokkrar frá jarðaberjatínslunni okkar. Við fórum á jarðaberjaakur rétt hjá bænum okkar og tíndum heil 6 kíló.

Ég kann eiginlega ekki að lýsa bragðinu af nýjum berjunum... þau smökkuðust eiginlega bara ekkert eins og jarðaberin sem ég hef keypt út í búð. Ekki einu sinni eins og þau sem ég hef keypt fersk á torginu.

Það fór svona svipað mikið upp í okkur á akrinum og við tókum með heim. Berin voru volg og mjúk, og bókstaflega bráðnuðu upp í manni.  Smökkuðust eiginlega bara eins og... sumar? Ef það er bragð? Mmmmm!

Við hefðum ekki þurft að tína svona mikið. Gáfum helling með okkur, og frystum líka. Næsta sumar fer ég oftar og tíni minna í einu. Sumarbragðið breytist nefnilega svo fljótt í svona "venjulegt jarðaberjabragð".




Mömmukúturinn minn gaf yndislegu nágrönnum okkar eitt berjabox, sem hann skreytti svona fallega með regnboga :) Krútt!
 
Kveðja, Hanna

Wednesday, September 2, 2015

Krúttlegur kjóll

Þessi kjóll er enginn venjulegur kjóll, og mér þykir ótrúlega vænt um hann.

Það var listakonan hún amma mín Jóhanna, sem gerði kjólinn en elskulegur pabbi minn passaði upp á hann í 26 ár - alveg síðan ég klæddist honum sjálf. Nú hangir hann hér heima fyrir litlu ljúfuna mína.

Litla draumadísin fékk einmitt að máta kjólinn um daginn á meðan mamman myndaði smá :) Ég leyfi nokkrum myndum að fylgja með.

Ég, sem er nú frekar væmin og viðkvæm almennt (og var þarna kasólett með tilheyrandi hormónabrengli), viðurkenni alveg að það trilluðu nokkur gleðitár fram þegar pabbi kom með kjólinn til mín. Ég hafði ekki hugmynd um að hann hefði geymt hann allan þennan tíma. 



Hér er svo ég í kjólnum... :)



Takk amma og pabbi <3

Kveðja, Hanna Björg


Tuesday, September 1, 2015

Langt ferðalag


 
Ferðalagið til Laholm, sem ég skrifaði um síðast, var voða fínn undirbúningur fyrir Íslandsferðina sem við fjölskyldan fórum í nú í byrjun ágúst. Þá var liðið næstum eitt og hálft ár síðan við vorum síðast á Íslandi, svo það var voðalega gott að fara aðeins "heim".

Ferðalögin, bæði milli landa og innanlands, gengu ótrúlega vel. Litla ljúfan svaf næstum allan tímann og stóri stúfurinn ýmist svaf, lék "Frúna í Hamborg" eða spilaði í spjaldtölvu. Þessi yndislegu dásemdarbörn sem ég á :)

Við gerðum auðvitað heilmargt, en samt gerðum við ekki allt sem við ætluðum. Þannig er það alltaf þegar við förum til Íslands. Við gleymum nefnilega alltaf að reikna með tímanum fyrir einföldu og notalegu stundirnar með fjölskyldunni og vinum. Heilum dögum sem fara bara í að  spjalla, knúsast, leika og vera saman. Það eru einmitt þær stundir sem eru dýrmætastar af öllum. Þegar öll athyglin er á fólkinu okkar, ekki einhverju öðru.