Það er fátt sem mér finnst skemmtilegra en að spjalla við góða vinkonu yfir kaffi og kökusneið. Eftir að ég átti elsku strákinn minn hefur þó stundum verið svolítið erfitt að finna stað og stund sem hentar nógu vel till þess að ég geti slappað af notið kaffitímans. Það er vissulega til fullt af kaffihúsum sem henta vel fyrir leikandi börn og kaffidrekkandi mæður, en flest passa betur þeim sem eiga eldri börn en ég.
Vegna þessa, var ég orðin mjög dugleg að bjóða vinkonum mínum (og börnunum þeirra) heim til mín í mömmukaffi. Ég skil ekkert í sjálfri mér að hafa ekki fattað að gera það fyrr.
Ég gat meira að segja boðið upp á ljómandi fínan Café Latté, eftir að ég keypti mjólkurþeytara í Ikea fyrir 195 kr. :) Ég frysti svo bara nokkrar muffinskökur og átti tilbúið krem í ísskápnum. Útkoman varð ósköp notalegur kaffitími með góðri vinkonu, í afar afslöppuðu umhverfi þar sem ég vissi að öll leikföngin voru hrein og enginn gaf mér illt auga þó ég vippaði annarri túttunni út til að gefa unganum mínum smá mjólkursopa :) Ekki skemmdi svo fyrir að þetta var töluvert ódýrara en að fara á "alvöru
kaffihús".
Kveðja, Hanna
P.s. Ég nota stút frá Wilton (lokaða stjörnu í stærri kantinum) til að skreyta kökurnar eins og hér að ofan. Þá byrja ég á því að sprauta kreminu á miðja kökuna og fer svo hring eftir hring út að köntunum. Ég hafði hugsað mér að skrifa stutta færslu um einfaldar kökuskreytingar seinna. Hvernig líst þér á það?