Þegar ég elda, eða baka, er ég eiginlega alltaf með eina ruslskál og eina áhaldaskál. Þ.e. annars vegar skál til að setja rusl í (umbúðir, afskurð og fleira) og hins vegar skál sem ég nota undir áhöld sem ég þarf á meðan ég er að elda/baka. Ef þú gerir þetta ekki nú þegar, mæli ég með því. Eldhúsið verður mun snyrtilegra eftir eldamennskuna/baksturinn, og það verður miklu fljótlegra að ganga frá öllu.
Ég tók mynd þegar ég eldaði kvöldmatinn, til þess að sýna þér hvernig ég nota skálarnar. Mér fannst svo alveg upplagt að taka bara mynd af matnum líka og setja inn uppskriftina af kvöldmatnum :)
250 gr Pasta
120 gr Beikon
140 gr Skinka
1 stk Paprika (ég notaði hálfa rauða og hálfa gula)
8 stk Sólþurrkaðir tómatar
100 gr. Ostur
1/2 l Matreiðslurjómi
Kjötkraftur
Pipar
Ég sauð pastað. Steikti svo beikonið þannig að það væri næstum tilbúið og bætti síðan skinkunni, paprikunni og tómötunum út á pönnuna. Ég lét þetta vera á pönnunni í svona 5 mínútur og hellti svo rjómanum, ostinum, smá kjötkraft og pipar út á. Ég man ekki nákvæmlega hvað ég setti mikið af kjötkraft og pipar en þú getur bara smakkað þig áfram. Þegar rjóminn byrjaði að sjóða hrærði ég þangað til allur osturinn var bráðnaður. Næst lækkaði ég undir og blandaði pastanu saman við sósuna. Síðast setti ég lok á og lét malla í u.þ.b. 5-10 mínútur. Þá var þetta tilbúið :)
Pastaréttir eru frábærir til að taka til í ísskápnum. Ég nota eiginlega aldrei fyrirfram ákveðna uppskrift þegar ég elda svona pastarétti. Oftast nota ég bara það sem er til :) Útkoman getur verið misjöfn en þessi réttur heppnaðist barasta alveg ágætlega :)
Kveðja, Hanna