Sunday, July 15, 2012

Drekakaka (með sniðmáti)

Ég fékk að halda upp á fyrsta barnaafmælið í fyrra, þegar sonur minn varð eins árs. Mér fannst það alveg ofsalega skemmtilegt. Brosadi börn, fallegir fjölskyldumeðlimir, marglitar blöðrur, litskrúðugir pakkar, fjörug tónlist og óhefðbundnar kökur.

Drekakaka

Þrátt fyrir að afmælisdrengurinn fengi enga köku sjálfur, ákvað mamman að leyfa sköpunargleðinni aðeins að njóta sín. Pabbinn fékk að velja þema fyrir afmæliskökuna og það var dreki sem varð fyrir valinu. Mér fannst dreki svolítið ógurlegur, svo að þegar kakan var tilbúin minnti hún eiginlega frekar á litla sæta risaeðlu. Hún var samt sem áður kölluð drekakaka.


Svona fór ég að:
  1. Ég bjó til einfalt skúffukökudeig sem ég bakaði svo í tveimur hringlaga formum. 
  2. Síðan frysti ég kökurnar (ath. mikilvægt að þær fái að kólna áður en þær eru settar í frysti).
  3. Svo teiknaði ég sniðmát á smjörpappír (sjá myndir fyrir neðan).
  4. Ég bjó til smjörkrem og litaði það grænt með Wilton matarlit.
  5. Skar síðan frosnu kökurnar eftir sniðmátinu.
  6. Stillti hlutunum upp og festi þá saman með kreminu.
  7. Síðast þakti ég alla kökuna með kreminu og skreytti með After Eight bitum.


Pís of keik!
Kveðja, Hanna