Tuesday, November 20, 2012

Einföld og snyrtileg leið til að fylla á sprautupoka


 
Fyrir nokkru síðan lærði bestu leið í heimi til að fylla sprautupoka með kökukremi. Áður hefði ég alltaf reynt að halda pokanum opnum, og skófla kreminu ofan í. Mjög beisik, skyldi maður halda. En... það fór alltaf allt út um allt og þegar ég var búin að skreyta kökuna var gjörsamlega allur eldhúsbekkurinn, tvö viskastykki og ég sjálf útötuð í kremi!

Ég skil eiginlega ekki að ég hafi ekki fattað þetta sjálf ("takk, Martha Stewart"), en besta og einfaldasta leiðin til að fylla á sprautupoka er eftirfarandi.

1. Þú sækir nestispoka og glas.
2. Settu nestispokann ofan í glasið, og brjóttu efsta hlutann af honum yfir brún glassins (sjá mynd).
3. Settu kremið pokann.
4. Lokaðu pokanum (ég nota yfirleitt pokaklemmu, en það er líka alveg hægt að snúa bara upp á endann eða hnýta hnút).

Síðan klippirðu gat á annað hornið á botni pokans og setur pokann ofan í sprautupoka.

Þetta er ekki bara hundrað sinnum snyrtilegra. Ef þú gerir þetta, geturðu tekið nestispokann upp úr sprautupokanum hvenær sem er til að skipta um stút. Þetta er líka ótrúlega sniðugt ef þú ert að nota marga liti. Þá geturðu notað einn og sama sprautupokann fyrir alla litina.


Kveðja, Hanna