Thursday, October 18, 2012
Gleðitár
Ég bakaði 250 gleðitár um daginn :) Gleðitár eru pínkulitlar súkkulaðimúffur með súkkulaðikremi.
Einhver gæti spurt: "Afhverju bakaðir þú fullt af pínkulitlum kökum í staðinn fyrir að baka bara eina stóra?"
Jú, það var vegna þess að ég var svo glöð og þakklát að mér fannst ég þurfa að deila því með svo mörgum.
Ég gaf kennurunum í leikskóla Litla Ljúfs nokkur tár. Þau eru frábær, öll með tölu. Það hefði aldrei hvarflað að mér að ég gæti treyst einhverjum svona fyrir gerseminni minni. Þau standa sig ótrúlega vel og eiga heldur betur skilið klapp á bakið (eða súkkulaði).
Samnemendur mínir og kennarar fengu líka tár. Það væri ekki svona gaman að læra án þeirra. Mér finnst frábært að vera í svona góðum hópi nemenda og kennara. Áhuginn, samviskusemin og metnaðurinn er svo hvetjandi að það hálfa væri nóg.
Í vinnuna fóru svo fullt af tárum. Það er sko ekki sjálfgefið að vera tekið jafn opnum örmum inn á vinnustað :) Hvað þá þegar maður kann ekki neitt og þarf aðstoð á tíu mínútna fresti. Vinnufélagar mínir áttu svo sannarlega skilin nokkur gleðitár fyrir þolinmæðina.
Kveðja, Hanna