Tuesday, September 11, 2012

Húsráð: Vaselin fyrir leðurskó

Litli ljúfur á gullfallega brúna Ecco skó sem hann er búinn að nota ótrúlega mikið. Mér finnst þeir æðislegir. Þeir eru léttir, fallegir og mjúkir. Ég held að þeir hljóti bara að vera voða þægilegir.

 
Skóna hefur litli ljúfur notað óspart síðustu mánuði í alls konar veðrum og við ýmsar aðstæður, svo þeir hafa orðið hrikalega skítugir. Sem betur fer eru þeir úr leðri svo það er tiltölulega auðvelt að þrífa þá. Þeir verða svo eins og nýjir ef ég næri þá aðeins líka.  

 
Í gær tók ég þá í gegn. Það eina sem ég notaði var vatn, tuska, handsápa og vaselin.


Ég byrjaði á því að þrífa skóna. Skolaði þá vel og nuddaði svo pínulítið af handsápu á þá. Síðan skolaði ég sápuna af, þurrkaði þá aðeins og lét þá svo þorna alveg.  


Ég tók innleggin líka úr og þreif þau sérstaklega.


Svo makaði ég á þá vaselini. Tók bara lítið í einu og nuddaði því vel inn í leðrið. Síðan lét ég skóna standa yfir nótt.


Eins og nýjir, er það ekki? Ég verð reyndar að viðurkenna að þegar ég hef notað vörur sem eru sérstaklega ætlaðar fyrir skóumhirðu, þá endist árangurinn lengur.

Kveðja, Hanna