Monday, September 10, 2012

Ostakaka með hindberjum og hvítu súkkulaði


Ég gerði æðislega ostaköku um síðustu helgi. Hér er uppskriftin :) 

Botn:
300 gr Hafrakex 
100 gr Smjör
100 gr Hvítt súkkulaði

Byrjaðu á því að mylja kexið. Því fínni sem mylsnan verður, því betra :) Bræddu smjörið og súkkulaðið. Hrærðu svo öllu saman, settu í eldfast mót eða kökuform og inn í kæli. Þú þarft að þekja formið vel.

Ég mæli með því að þú notir smelluform, og jafnvel að þú klæðir formið með smjörpappír ef þú ætlar að taka kökuna úr því - annars er svolítil hætta á að það verði erfitt að ná kökunni úr.

Fylling: 
400 g Rjómaostur
½ l Rjómi
4 dl Flórsykur 

Þeyttu rjómann. Settu síðan rjómaostinn og flórsykurinn í aðra skál og blandaðu vel saman. Hrærðu svo rjómann og ostablönduna varlega saman. Þá er fyllingin tilbúin og þú getur sett hana í botninn. Settu svo kökuna inn í kæli í a.m.k. 3 tíma.

Ég setti svolítið af frosnum hindberjum á kökuna mína. Mér fannst þau passa svo vel við. Þú getur auðvitað nota hvaða ber eða ávexti sem er :)

Við kláruðum ekki kökuna, svo ég frysti hana. Við borðuðum hana frosna nokkrum dögum seinna, og hún var sko engu síðri frosin. Fínasta ísterta :)

Kveðja, Hanna