Tuesday, September 1, 2015

Langt ferðalag


 
Ferðalagið til Laholm, sem ég skrifaði um síðast, var voða fínn undirbúningur fyrir Íslandsferðina sem við fjölskyldan fórum í nú í byrjun ágúst. Þá var liðið næstum eitt og hálft ár síðan við vorum síðast á Íslandi, svo það var voðalega gott að fara aðeins "heim".

Ferðalögin, bæði milli landa og innanlands, gengu ótrúlega vel. Litla ljúfan svaf næstum allan tímann og stóri stúfurinn ýmist svaf, lék "Frúna í Hamborg" eða spilaði í spjaldtölvu. Þessi yndislegu dásemdarbörn sem ég á :)

Við gerðum auðvitað heilmargt, en samt gerðum við ekki allt sem við ætluðum. Þannig er það alltaf þegar við förum til Íslands. Við gleymum nefnilega alltaf að reikna með tímanum fyrir einföldu og notalegu stundirnar með fjölskyldunni og vinum. Heilum dögum sem fara bara í að  spjalla, knúsast, leika og vera saman. Það eru einmitt þær stundir sem eru dýrmætastar af öllum. Þegar öll athyglin er á fólkinu okkar, ekki einhverju öðru.