Thursday, October 29, 2015

5 ára!

 

Litli strákurinn minn verður víst stærri á hverjum degi... og nú er hann fimm ára!

Þetta er auðvitað stór áfangi fyrir hann og elsku ljúfurinn minn er búinn að bíða spenntur "lengi" eftir þessum miklu tímamótum :) Fimm ára er nefnilega svo miklu meira en fjögurra ára. Ég komst að því eftir að við mæðgin ræddum aðeins saman um muninn á 4 og 5 ára.

  • Það er miklu betra að vera fimm ára en fjögurra ára, því fimm ára eru nefnilega elstir í leikskólanum. Fimm ára eru líka betri í körfu og fótbolta en fjögurra ára.  
  • Fimm ára hlýða ALLTAF því sem mamma og pabbi segja. Nema þegar þeir gleyma sér smá. Þá bara minna mamma og pabbi á. 
  • Fimm ára eru líka rosalega hugrakkir en kunna samt að passa sig, og láta mömmu eða pabba vita ef eitthvað er of hættulegt eða hræðilegt. 
  • Fimm ára geta sett saman heilt legosett alveg sjálfir, án nokkurrar aðstoðar.  
  • Fimm ára kunna að ryksuga herbergið sitt sjálfir, og líka búa um. Fimm ára finnst samt ekki gaman að búa um - bara að ryksuga. 
  • Fimm ára kunna allar umferðarreglurnar. 
  • Fimm ára geta farið sjálfir í heimsókn til vina sinna og verið sjálfir í afmælum.
  • Fimm ára geta líka passað litlu systur sína - ef mamma eða pabbi eru nálægt.
  • Fimm ára geta klifrað hærra og hlaupið hraðar en fjögurra ára 
  • Fimm ára kunna að skreyta afmælisköku alveg sjálfir.
  • ...og þó fimm ára séu rosalega stórir mega þeir samt líka vera litlir stundum þegar þá vantar kúr og knús. Maður verður nefnilega aldrei of stór fyrir svoleiðis. 

Við héldum smá veislu á afmælisdaginn, með "sænsku stórfjölskyldunni" okkar, og svo verður önnur haldin fyrir leikskólavinina á sunnudaginn. Ég leyfi smá myndum að fylgja með :)

Pakkar og blöðrur biðu afmælisbarnsins þegar hann vaknaði - og vöktu mikla lukku :)
 
Sérstök ósk um súkkulaðimorgunmat, eins og heima hjá ömmu, var uppfyllt. Litla systir fékk samt bara hafragraut og vatn :)


Það var rosalega erfitt að bíða eftir gestunum, en smá dans reddaði því alveg :) Gluggarnir okkar eru ekki málaðir svartir... við héldum bara veisluna klukkan 17, og þá var orðið dimmt.


 Í boði voru pylsur, súkkulaðikúlur með kökuskrauti...


...súkkulaðikaka með vanillukremi og nammi (skreytt af afmælisbarninu)...


 ...kanelsnúðar og fullt af nammi...


og auðvitað nammikaka með súkkulaðikremi (einnig skreytt af afmælisbarninu).


Mömmuljúfurinn var himinlifandi og hamingjusamur með "besta dag í heimi". Takk elsku vinir og fjölskylda fyrir að vera með (úr fjarlægð eða hér hjá okkur) og gera daginn svona yndislegan og eftirminnilegan!

Kveðja,
Hanna