Monday, November 16, 2015

Morgunstund gefur gull í mund


Stóri bróðir vildi endilega sýna systur sinni Pocoyo. Mér fannst þau voða krútt í þessar tuttugu sekúndur sem litla systir entist áður en hún fór að rúlla sér út um allt :)


Elsku mömmuljúfurinn minn dundaði sér við að setja saman þotuna sem hann fékk í 5 ára afmælisgjöf frá ömmu og afa á Íslandi í síðustu viku.

Hann var heldur betur montinn með sig þegar hún var síðan tilbúin, enda búinn að setja saman heilt legosett fyrir 9 til 14 ára - alveg sjálfur! Hann spyr auðvitað stundum hvort hann sé að gera rétt (ef leiðbeiningarnar eru ekki alveg skýrar), en annars fékk hann nánast enga hjálp.

Ég þarf varla að taka það fram að ég er að springa úr stolti yfir þessum snillingi. Að setja saman svona stórt sett er nefnilega æfing í svo miklu fleiru en að setja saman kubba. Til dæmis eru þolinmæði, þrautseigja og skýr rökhugsun meðal þess sem þjálfast. Þetta vann hann í 1-2 tíma á dag í fimm daga.




Elsku litla ljúfan stækkar og stækkar. Hún er farin að rúlla sér um allt, draga sig áfram með höndunum og svo hjalar hún og skríkir svo fallega allan daginn. Hún passar alveg fullkomlega í málglöðustu fjölskyldu Evrópu og virðist hafa lært snemma af bróður sínum að kyrrseta sé ofmetin :) Henni finnst þó ennþá ægilega gott að hjúfra þessar bollukinnar í mömmufang og er helst ekki meira en tuttugu sentimetra frá mér. Alveg eins og það á að vera!

Kveðja,
Hanna