Sunday, November 8, 2015

Feðradagurinn 2015


"Það er bara leiðinlegt fólk sem leiðist" sagði pabbi við mig þegar ég var svona 8 kannski 9 ára og kvartaði yfir því að hafa ekkert að gera. Þessi setning hefur svo sannarlega fylgt mér í lífið. Boðskapurinn er einfaldur og hnitmiðaður. Ef maður vill vera skemmtilegur þarf maður bara að hafa gaman. Ef maður vill vera duglegur, þarf maður bara að leggja hart að sér og vinna vel. Ef maður vill verða góður í að bakka - ja, þá þarf maður bara að bakka í stæði á bílaplaninu hjá Coca Cola í tvo klukkutíma. Simple as that! Hver er sinnar gæfu smiður er það besta sem pabbi hefur kennt mér.

Ég er svo lánsöm, að elsku pabbi minn er ekki bara leiðbeinandi minn um lífið - heldur er hann líka vinur minn. Við getum spjallað í marga klukkutíma í einu um allt milli himins og jarðar. Hann heimsótti okkur einmitt fyrir tveimur vikum og við gerðum í raun ekkert annað en að spjalla. Mér þótti svo vænt um það, og heimilið varð svolítið notalegra við nærveru hans.

Ég get náttúrulega ekki skrifað heila færslu um pabba án þess að þakka honum fyrir tónlistarsmekkinn minn, sem hann á heiðurinn af - alveg skuldlaust. Hugsa sér tómarúmið í lífinu ef í það vantaði Pearl Jam, Zeppelin, Stevie Ray Vaughan og fleiri. Þér er alveg fyrirgefið fyrir að hafa "óvart" brotið Britney Spears diskinn áður en hann komst í fyrstu spilun ;)

Annað, sem mér þykir einstaklega vænt um, er gagnrýna hugsunin sem pabbi kenndi mér. Að trúa ekki því sem ég les eða heyri án þess að efast. Það hefur pabbi kennt mér frá því ég var pínulítil, án þess kannski að gera sér grein fyrir því :) Klár karl!


Ég gæti skrifað heila bók um elsku pabba en læt þessa færslu nægja í bili. Skrifa kannski nýja lofræðu að ári ;)


Ég heyrði einhvern tímann að aðeins bestu pabbarnir væru hækkaði í tign og gerðir að öfum. Pabbi minn átti þá stöðuhækkun sannarlega skilið og veldur henni einstaklega vel sem "afi mótorhjól". 

Takk, elsku pabbi, fyrir allt sem þú ert og allt sem þú gerir <3

Kveðja, Hanna