Þessi plómupæ tengist færslunni ekki neitt, en allt er betra með smá pæ - er það ekki? |
Annað slagið hef ég lesið fréttir af einföldum, fallegum og hversdagslegu góðverkum sem hafa ratað í fjölmiðla eftir að þeir sem þau hafa unnið, hafa skrifað um þau á Facebook. Ég hef líka lesið athugasemdirnar við þessar fréttir, og einmitt þær eru tilefni þessarar færslu.
Glatað góðverk
Um helgina birtist ein svona frétt á dv.is, og eftirfarandi athugasemdir fylgdu.
"Það var nú góðverk! Gefur einhverja smáaura til að geta skrifað um það á Facebook og litið út eins og einhver hetja."
"Mér finst nú góðverk missa sjarmann ef maður þarf að skrifa facebook status um hvað maður er frábær að hjálpa öðrum."
"Vá.. hann skipti klinki í seðla fyrir manninn og leyfði honum að eiga afganginn. Og mættur á facebook til að tilkynna heiminum það"
"Svo kemur í ljós að þessi viðkomandi maður sem hjálpar skipti smápeningum í í stærri mynt og bætti við 7 pundum sem eru jú hvað 1400 krónur. Vissulega fallegt en varla nokkuð einsdæmi."
"Erlend frétt - í forgrunni á miðlinum!"Svipaðar athugasemdir hef ég t.d. lesið við fréttir af unglingsstrák sem bauð heimilislausum manni upp á pítsu, konu sem borgaði matarinnkaup fyrir einstæða móður sem hafði fengið synjun á kassanum í Bónus og annarri sem gaf sér tíma til að aðstoða gamla konu sem hún sá rogast heim á leið með þunga poka á íslenskum vetrardegi með tilheyrandi roki, kulda og slabbi.
Reglur um góðverk
Ég held ég hljóti að vera eitthvað að misskilja reglurnar um góðverk, en þú getur kannski aðstoðað mig?
1. Hvað þarf góðverkið að kosta mikið til að vera nógu merkilegt til að segja öðrum frá?
2. Hefði verið í lagi að fréttin væri í forgrunni á miðlinum, ef atvikið hefði átt sér stað á Íslandi?
3. Er mjög mikilvægt að allar fréttir séu af atvikum sem eru einsdæmi, eða gildir það bara um fréttir af góðverkum?
4. Verður góðverkið alveg glatað ef skrifað er um það á Facebook? Núllast það út?
Mín skoðun
Persónulega finnst mér fréttir af þessum hversdags-góðverkum aðeins af hinu góða. Þegar ég les þær, langar mig að hjálpa öðrum. Ég á engar stórar upphæðir og get ekki hjálpað öllum í einu, en ég get kannski auðveldað einhverjum lífið bara pínulítið í dag. Það er eitthvað, er það ekki?
Flest sækjum við einhvern innblástur á samfélagsmiðlum - og þó það sé rosalega skemmtilegt að uppgötva nýja kökuuppskrift, nýjan blómavasa í stofuna eða nýja leið til að nota matarsóda við heimilisþrif - þá finnst mér mun verðugra að uppgötva nýja leið til að bæta umheiminn og gleðja náungann.
Kveðja, Hanna