Monday, October 12, 2015

Sjóræningjaróló


Það er búið að vera óvenju hlýtt og gott veður þetta haustið. Einhvern blíðviðrisdaginn í síðustu viku fórum við á einn af uppáhalds leikvöllunum okkar - Sjóræningjarólóinn. Ég man ekki afhverju við fórum að kalla hann það. Það er ekkert sjóræningalegt við hann. Samt verður hann einhvern veginn skemmtilegri fyrir vikið. Það yrði hvaða staður sem er meira spennandi við að kallast "sjóræningja"-eitthvað. Ég held a.m.k. að rólóinn væri ekki eins mikið uppáhalds ef við kölluðum hann bara rólóinn í bænum.


Það er voðalegt sport að klifra í trjám þessa dagana, og kúturinn er orðinn ótrúlega flinkur við það. Ég get þó ekki sagt að ég sé sérstaklega hrifin af þessari iðju hans. Mér finnst alltaf að hann sé við það að detta niður og fá gat á hausinn, og stend yfirleitt frekar taugaveikluð og stressuð við tréð. Þrátt fyrir að hann fái ekki að klifra hærra en svona 1 til 1,5 metra :) Æj, hann er bara svo brothættur og lítill.


Í þessari róló-ferð fékk litla systir að róla í fyrsta sinn. Það fannst henni stórskemmtilegt og hún skríkti af kæti allan tíman. Líklega fólst þó mesta gleðin í því að vera með stóra bróður sem gretti sig, geyflaði og hló allan tímann.


Kveðja, Hanna