Thursday, February 7, 2013

Gangur (fyrir og á meðan)

Hér koma fyrstu myndirnar innan úr húsinu okkar :) Svona fyrir og "á meðan".

Stigi, fyrir og "á meðan"

Stiginn var orðinn frekar ljótur og slitinn, svo við ákváðum að taka hann í gegn. Fyrst var hann pússaður, svo var gamla ljóta teppið tekið úr honum og síðan var hann grunnaður og lakkaður fjórar umferðir.

Við erum búin að velta því ansi mikið fyrir okkur hvort við ættum að setja teppi ofan á þrepin aftur, eða hvort við ættum að gera eitthvað annað. Eins og er líst okkur best á að setja fallegt teppi, því við höfum á tilfinningunni að það sé öruggast (besta gripið) fyrir snögga litla fætur. Hvað finnst þér?


Taktu eftir hurðakörmunum. Þeir voru svartir og hálf kjánalegir við hvítar hurðarnar. Ég hef mikið velt þessari samsetningu fyrir mér en skil ekki enn hvers vegna einhver vill hafa svarta karma og hvíta hurð. Það eina sem mér dettur í hug er að viðkomandi hafi verið sjónskertur, og að dökku hurðakarmarnir hafi verið hugsaðir sem svona "HÉR ER HURÐ" aðvörun :)

Karmarnir voru með einhverskonar plasthúð að utan. Við pússuðum þá, fórum eina umferð með hefti-grunn yfir allt og lökkuðum svo með hvítu. Fimm umferðir, takk fyrir.

Eins og þú sérð erum við líka búin að parketleggja ganginn. Þvílíkur munur, þó þetta sé ekki tilbúið :)

Kveðja, Hanna