Ég var spurð að því þrisvar sinnum í dag hvort ég væri hætt að blogga og ákvað því að pásunni væri lokið. Get þó engu lofað um áframhaldið. Ætli það fari kannski ekki bara eftir lestrinum á síðunni :)
Í ljósi þess að næstum hálft ár er liðið frá síðustu færslu, hefur vissulega margt skemmtilegt á daga okkar fjölskyldunnar drifið. Ég ætla samt ekkert að rifja það allt upp, heldur bara sýna þér nokkrar myndir af heimilinu okkar sem er loksins að taka á sig þá mynd sem við höfðum í huga í upphafi :)
Ég hafði hugsað mér að taka nokkrar myndir af litla grallaranum þar sem hann sat svo stilltur og prúður að kubba...
...en sökum anna einkasonarins við ruslabílasamsetningu sem olli því að hann mátti ómögulega vera að því að brosa (eða yfir höfuð að líta upp), var myndatökunni aflýst. Mömmunni fannst þá kjörið að taka í staðinn myndir af sjálfri stofunni.
Undir sjónvarpið settum við tvær tvöfaldar malm kommóður. Okkur fannst það bæði líta vel út og vera ótrúlega praktískt enda taka þessar kommóður endalaust við svo okkur skortir aldrei skúffupláss. Það er svo á dagskrá að finna skáp með glerhurðum sem passar í hornið þar sem litli stóllinn er.
Það vantar líka ennþá fullt af myndum á veggina, en það kemur allt saman :) Ég er líka að bíða eftir að rekast á "fullkomna" ljósið til að hafa yfir borðstofuborðinu. Ég mun finna það!
Ég þarf að taka almennilega mynd af hillunni fyrir ofan borðstofuborðið, við tækifæri. Mér þykir voða vænt um það sem á henni er. Annars vegar er þar mynd eftir ömmu Kolfinnu, sem hún málaði með HNÍF :-O og hins vegar eru tréstafirnir sem stafa uppáhaldsorðið mitt í heiminum. Saman. Ég skrifaði meira að segja sér færslu um það einhvern tímann.
Ég læt fylgja með eina mynd af yfirbyggða pallinum okkar :)
Mér verða væntanlega ekki veitt nein verðlaun fyrir ljósmyndun á næstunni, en ég vona að þú hafir haft gaman af innlitinu :) Það er svo gaman að geta leyft fjölskyldu og vinum sem ekki hafa tök á að koma í heimsókn að sjá aðeins hvernig við búum.
Kveðja,
Hanna