Eitt af bloggunum sem ég skoða reglulega er Chocolate Covered Katie. Hún birtir allskonar hollar uppskriftir á síðunni sinni, flestar að eftirréttum. Um daginn rakst ég á uppskrift hjá henni að "Cool Whip", eins konar þeyttum rjóma, sem hún hafði búið til úr kókosmjólk. Mér fannst þetta svo sniðugt að ég varð að prófa.
Kauptu eina dós af kókosmjólk, ekki fituskerta, opnaðu hana og láttu standa inni í ísskáp yfir nótt (ég setti nestispoka utan um mína). Þegar þú tekur hana út ætti hún að vera orðin nógu þykk til að skeið geti staðið ofan í, eins og á myndinni hér fyrir ofan.
EKKI HRÆRA kókosmjólkina í dósinni. Helltu henni fyrst í fínt sigti, og svo því sem situr eftir í sigtinu í skál.
Þá máttu hræra :) Ég leyfði frú KitchenAid að dansa í svona 5-7 mínútur. Mér fannst reyndar "rjóminn" ekki alveg nógu stífur svo kannski hefði ég átt að þeyta lengur. Prófa það næst.
Þá var ég búin að prófa að þeyta kókosmjólk. Ég vissi bara ekki alveg hvað ég átti að gera við hana. Mig langaði bara að sjá hvort þetta virkaði. Eftir dálítið grúsk í eldhússkápunum ákvað ég að búa bara til súkkulaðidesert :)
Við kókosmjólkina bætti ég:
3-4 msk kakó
3-4 msk kakó
3 tsk hunang
1 tsk hnetusmjör
1/2 banani
1/2 banani
pínu vanilla
Svo hrærði ég allt saman. Þá varð blandan mín svolítið þunn, svo ég tók fram ísvélina og skellti öllu ofan í, í ca. 3 mínútur - bara til að blandan yrði líkari búðingi, ekki nógu lengi til að gera ís. Þú þarft enga ísvél, ef þú átt hana ekki. Það hefur örugglega svipuð áhrif að setja þetta í kæli í svolitla stund (ekki samt frysti, ég held að þá komi fljótt svona "krap").
Að lokum setti ég búðinginn í glas og toppaði með berjum og rifnum kókos. Ég vaaaaaaar að klára síðasta bitann bara akkúrat núna. Mmmmmm, ég mæli sko hiklaust með þessum hrikalega holla og góða súkkulaðidesert (sem má alveg borða með góðri samvisku á miðvikudagskvöldum). Ísköld mjólk er alveg fullkomin með.
Kveðja, Hanna