Tuesday, December 17, 2013
Fyrsta jólatréð
Við, litla fjölskyldan, höfum aldrei verið heima hjá okkur á Aðfangadagskvöldi svo að við höfum aldrei haft jólatré. Nú höfum við ákveðið að halda fyrstu jólin okkar heima og því skunduðum við í búðina til að kaupa jólatré síðustu helgi.
Litli jólaálfurinn minn, var fyrir löngu búinn að ákveða að við myndum hafa "liiiiisa stólt jólatlé" með mörgum jólakúlum. Við fundum þetta líka fína 2ja metra gervitré fyrir 99 SEK - rétt undir 2.000 ISK :) Ég átti allt skrautið, en ég hefði kannski átt að splæsa í eina seríu í viðbót.
Þegar ég var lítil setti mamma alltaf fullt af seríum á tréð, sem gerði það að fallegasta tré í heimi. Við systurnar (ég og Kolfinna) skreyttum svo yfirleitt tréð en ef þú þekkir okkur þá þarf ég varla að segja þér að við höfðum oft mjög ólíkar skoðanir á því hvernig tréð átti að líta út. Þess vegna var oft töluverður munur á því hvernig efri og neðri hlutinn á trénu var skreyttur. Síðustu árin sem við skreyttum tréð höfðum við bara hvor sína hlið :) Kolfinna sofnaði svo yfirleitt í sófanum á meðan ég kláraði, svo ég gat bara snúið minni hlið eins og ég vildi (hún vissi það ekki fyrr en hún las þetta).
"Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja" sagði einhver, en það er líka erfitt að kenna ungum konum að skreyta heilt jólatré þegar þær hafa alla tíð bara skreytt hálft. Ég verð því að viðurkenna að það er bara helmingurinn af trénu skreyttur. Ég sakna þín litla systir!
Kveðja,
Hanna Björg