Ég er svo rík af ömmum, og þær eru svo miklar listakonur :) Ég fékk jólagjöf í ár frá ömmu Jóhönnu og afa Guðmundi sem ég mátti opna fyrir jólin. Í pakkanum leyndist gullfallegt jólaskraut sem elsku amma mín hafi heklað. Mér fannst það svo fallegt og akkúrat í "ömmustíl" að ég fór bara að gráta smá. Fékk agalega heimþrá og fannst voða skrýtið að fara ekki í neina jólaheimsókn til ömmu og afa.
Allt uppáhaldsskrautið mitt er heimatilbúið :) Nú bættist við gullfalleg jólasería með hekluðum jólaklukkum (efsta myndin), og heklað jólaskraut á jólatréð (síðustu tvær myndirnar). Ég gat ekki setið á mér, reif niður allt rauða Ikea-skrautið sem ég hafði sett á jólatréð og setti nýja fína skrautið á í staðinn :) Rauðu jólakúlurnar fengu nýjan stað í eldhúsinu. Litli ljúfurinn bjó svo til þennan fína jólasveinatopp efst á trénu :)
Ofsalega langar mig að kunna að gera svo fallegt. Kannski ég geti platað ömmu til að kenna mér handtökin þegar við förum næst heim til Íslands?
Það er alveg ómetanlegt að geta skreytt jólin með svolitlum kærleika úr ömmu og afa koti. Eins og að hafa nokkur knús út um allt.
Takk!
Kveðja, Hanna Björg