Ég veit ekki alveg hvenær, en einhvern tímann ákvað ég með sjálfri mér að fiskur væri vondur. Ætli þetta hafi ekki verið hliðarverkun unglingaveikinnar á sínum tíma, ég veit það ekki. Sem betur fer fór ég smám saman að fatta að hann er bara alveg ótrúlega góður, en hingað til hafa fiskréttirnir mínir verið heldur ófjölbreyttir - oftast einhver mynd af ÞESSUM rétti, steiktur eða ofnbakaður lax með kartöflum og salati.
Þessa viku ætla ég að nota til að prófa nýjan fiskrétt á hverjum degi, aðeins til að auka fjölbreytnina. Ótrúlega spennandi, þykir mér.
Í gær vorum við með fisktacó. Ég fékk hugmyndina frá Evu Laufeyju Kjaran, en útfærði hana aðeins eftir eigin höfði (og gerði þar með tilraun til að höfða til allra fjölsdkyldumeðlima. Það var ÓTRÚLEGA gott. Ég hef svo sem oft heyrt um fisktacó, en ekki langað að prófa það fyrr. Vá, hvað ég sé eftir því. Mér fannst það betra en tacó með hakki. Ég held reyndar að Elli hafi ekki verið sammála, en hann var sko alveg til í að hafa þennan fiskrétt aftur seinna :)
Ég skar þorsk í litla bita. Nota til þess einn af nýju fínu hnífunum sem við fengum í jólagjöf frá mömmu og Maríusi. Þeir eru frá merkinu KAI en línan heitir Pure Komachi 2. Þeir eru bara svona fallegir heldur renna þeir bara í gegnum það sem þeim ég vil skera. Kjöt, fiskur, grænmeti, ávextir... ekkert mál.
Mér fannst ég þurfa að spara þá fyrst, svo bitið færi ekki, því ég var svo stressuð yfir því að það yrði vesen að brýna þá en hafi svo bara samband við umboðsaðilann á Íslandi sem sagði mér að það mætti brýna hnífana á sama hátt og aðra stálhnífa. Hér geturðu lesið um hnífana hjá Progastro (umboðsaðili á Íslandi).
Þegar ég hafði skorið þorskinn í litla bita, hellti ég smá olíu á, og rúllaði þeim upp úr kryddblöndunni sem sést á myndinni hér fyrir ofan. Á pokanum stendur Crispy Chicken Bites Spice Mix og hann er frá Santa Maria.
Síðan skar ég niður kirsuberjatómata, sveppi, gula og rauða papriku og svissaði á pönnunni með smá olíu og hvítlauk. Síðast setti ég fiskinn út á pönnuna og steikti hann með grænmetinu.
Á meðan allt mallaði á pönnunni, skar ég niður grænmeti í ósköp fábrotið, en hrikalega gott, ferskt salat. Jöklasalat, graslaukur og avocado.
Vissirðu að avocado heitir lárpera á íslensku? Mér finnst það miklu flottara nafn en avocado.
Voila! Tilbúið! Borið fram með mexíkóskum pönnukökum, salsa sósu og sýrðum rjóma.
Kveðja, Hanna Björg