Tuesday, November 26, 2013

KitchenAid

Frú KitchenAid að þeyta kókosrjóma :)

Mig hefur aldrei langað jafn mikið, eða jafn lengi, í nokkurn hlut, eins og mig langaði í glansandi rauða KitchenAid hrærivél. Þú getur rétt ímyndað þér hvað ég varð glöð þegar ég fékk hana í útskriftargjöf eftir sálfræðinámið frá elsku mömmu minni og Maríusi. Reyndar fór ég fyrst að hágráta - en svo hoppaði ég um af kæti - í nokkra daga :) Mig var búið að langa í hana svo lengi. Alveg frá því ég sá hana fyrst.

Ég var löngu búin að ákveða að ég myndi eignast hana einn daginn en mér datt ekki í hug að það yrði svona fljótt - og hvað þá að einhver myndi gefa mér hana. Ég get svo svarið það, að hjartað í mér slær hraðar bara við að rifja upp hvað ég varð glöð :)

Það er alls ekkert óvart, að hún laumast með á myndirnar sem ég set á bloggið. Hún gerir bara allt fallegra. Líka bloggið.

Litli ljúfurinn minn á ljóðabók, eftir Þórarin Eldjárn, sem heitir Óðhalaringla. Í henni er ljóð sem hefði alveg getað verið samið um okkur vinkonurnar. Mig og frú KitchenAid.



Sundur og saman

Hrærivélin hrærir
í hjarta mínu strengi.
Hún hrærir bara og hrærir
og hefur gert það lengi.

Ekkert lík við erum
en hvað það er skrítið:
Þótt ólíkt allt við gerum
við elskumst meira en lítið.

Ég gátur heimsins greini
og grisja lífsins undur, 
í ró og þögn ég reyni
að rekja þræði sundur. 

En fátt er hún víst fróð um
og finnst það langmest gaman 
með hamagangi og hljóðum
að hræra öllu saman.



Kveðja, Hanna