Sunday, July 26, 2015

Smá ferðalag


Sérðu nýja fína skápinn minn? Ég er svo ánægð með hann að það hálfa væri nóg. Hann heitir Isala og fæst í Ikea. Við fórum í smá ferðalag í vikunni sem endaði á Ikea-ferð í Jönköping. Við ætluðum reyndar að kaupa rosalega einfaldan skenk úr Bestå seríunni en þessi æðislegi skápur var bara alveg harðákveðinn í að koma með okkur heim :) Mér til mikillar gleði.

Það tók Ella smá stund að koma saman skápnum. Á myndinn hér að neðan er hann hálfnaður. Hann var búinn að setja allan skápinn saman en átti eftir að "rétta hurðarnar". Þær eru náttúrulega rammskakkar eins og allir sjá ;) Ég viðurkenni alveg að ég hefði ekki látið þennan millimetra-mun fara í taugarnar á mér, en vegna þess að Elli er vandvirkasti maður allrar Evrópu á ég núna geggjaðan skáp með alveg þráðbeinum hurðum.


 Litla ljúfan varð auðvitað svöng á löngum göngutúrnum, svo við tókum pásu í hægindastóladeildinni. Það er greinilega vinsæll staður till brjóstagjafar, því þar sátu tvær aðrar mömmur með litla svanga unga :)


 Þó að Ikea hafi verið skemmtileg þá var það skemmtilegasta við stutta ferðalagið okkar heimsóknin til ömmu og afa. Þangað er alltaf jafn notalegt að koma.

Litli ljúfur var alsæll í garðinum með langömmu. Tíndi þar allskonar ber og fékk að vökva blómin hennar. Mig langar alltaf að taka til hendinni í heima og í garðinum mínum eftir heimsóknir til ömmu og afa. Þau gefa manni svo mikinn innblástur og góðar hugmyndir.


Ljúfan mín litla var líka hrifin af þessari fínu langömmu, og reyndar langafa líka - þó hann hafi ekki náðst á mynd í þetta skiptið. Þetta var fyrsta ferðalag prinsessunnar og það gekk alveg ótrúlega vel. Hún svaf alla leiðina frá Skövde til Laholm, og á heimleiðinni svaf hún og hló að bróður sínum til skiptis. Þvílík dásemdarbörn, sem ég á.



Takk fyrir okkur, amma & afi!



Kveðja, Hanna