Sunday, July 19, 2015

Að lemja eða kremja


"Afhverju elskar þú og pabbi að lemja mig?"

...spurði stubburinn áðan. Ég fékk auðvitað í hjartað og spurði hvað hann væri að meina, við hefðum auðvitað aldrei lamið hann. Hann hélt það nú samt... á hverjum degi! -Og litlu systur líka.

Til að gera langa sögu stutta, þá var krúttköggullinn minn aðeins að ruglast á lemja og kremja - og svo kremja og knúsa (knús á sænsku er "kram"). Spurningin var sem sagt "Afhverju elskar þú og pabbi að knúsa mig?".

Svona skemmtilegur misskilningur kemur reglulega upp hér, enda ekki alltaf auðvelt að læra öll þessi tungumál í einu. Hann stendur sig þó svo ótrúlega vel, þessi duglegi strákur sem ég á. Ég er svo stolt af honum að ég er að springa.

Nýjasti draumurinn er að verða eins og "Mike" (Michael Jordan). Myndirnar í færslunni eru frá körfuboltaæfingu gærdagsins. Stubburinn alveg með taktana á hreinu, og fyrir löngu orðinn betri en mamma sín. Litla systir fékk að koma með, innpökkuð í kósý teppi frá langömmu Jóhönnu.










Kveðja, Hanna