Wednesday, April 29, 2015

Stóri bróðir



Þegar litla systir kom í heiminn varð elsku litli ljúfurinn minn loksins stóri bróðir. Hann er nú búinn að bíða svolítið eftir því. Gerði meira að segja samning við pabba sinn um að fá eina systur hans lánaða á meðan hann átti enga sjálfur.

Það hefur borgað sig að fá að eiga svona "æfingasystur" því hann er með hlutverkið alveg á hreinu. Á myndinni hér að ofan er hann að sýna stórfína hálsmenið sem hann hafði búið til fyrir systur sína á leikskólanum :) 

Við foreldrarnir vorum auðvitað svolítið stressuð yfir því að honum þætti kannski erfitt að deila athyglinni með litlu systur en hann er heldur betur búin að sýna okkur að þær áhyggjur voru óþarfar. Það hefur nú kannski eitthvað að gera með það að heimsins besti pabbi hefur passað alveg extra vel upp á kútinn sinn. Þeir eru búnir að hafa nóg að gera, feðgarnir; hjólatúrar, lego-byggingar, fótboltaæfingar, og ýmislegt annað skemmtilegt.

Nú er farin að myndast smá rútína og ég læri betur á lífið sem tveggja barna móðir. Ég er líka aðeins minna þreytt með hverjum degi sem líður, sem er eins gott því bráðum verður stóri bróðir enn meira heima með okkur. Mikið er ég búin að hlakka til þess!

Hér úti er það nefnilega þannig að á meðan foreldri er í fæðingarorlofi með nýtt barn (eða ekki í vinnu/skóla af annarri ástæðu) hefur eldra barnið einungis rétt á 15 tíma dagvistun í leikskólanum. Fyrsta mánuðinn eftir fæðingu litla systkinisins hafa þau reyndar rétt á "fullri" dagvistun.

Þetta þótti mér alveg út í hött fyrst þegar ég heyrði það (Svona álíka kjánalegt og þegar ég heyrði að hér lokuðu allir skemmtistaðir kl. 02.00 um helgar. Já, eða að það væri ekki hægt að panta heimsenda pizzu eftir klukkan 22.00 og að fyrsti veikindadagur frá vinnu væri launalaus.) Í dag finnst mér þetta allt fullkomlega eðlilegt og í raun mun skynsamlegra en það sem gengur og gerist á Íslandi. (Ja, nema kannski þetta með pizzuna. Það er alveg út í hött að geta ekki pantað sér pizzu upp á hótel eftir Pearl Jam tónleika!)  

Við ætlum að bralla svo margt skemmtilegt saman næsta árið :)

Á myndinni er stóri bróðir að sýna mér hvernig maður gerir þegar maður bakar "ninjasnúða".

Svona varð útkoman.. Ninjatæknin virkar greinilega mjög vel.


Kveðja, Hanna